18.08.1913
Efri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

109. mál, forðagæsla

Guðjón Guðlaugsson. framsögumaður:

Jeg tók það fram við 1. umr., að vel mætti skoða þetta frv. sjálfstætt, án þess að setja það í samband við aðrar tilraunir til hallærisvarna. En þó er hjer um eitt hið mikilverðasta hallærisvarna mál að ræða, því að ef þetta frumvarp nær fram að ganga, þá mun það reynast eitt hið happasælasta ráð gegn hallærum. Jeg vil leyfa mjer að nota þetta tækifæri til þess að gera nokkrar athugasemdir um. ýmislegt, sem hefur verið talað hjer í deildinni í þá átt, að hallærishættan væri nú orðin lítil eða engin hjer á landi. Jeg hygg, að sú hætta sje miklu meiri, en menn alment gera sjer í hugarlund. Hv. 6. kgk. hefur margoft tekið það fram, að einhverjar ráðstafanir þyrfti að gera til þess að verja sig þeim hallærum, sem stafa af hafísum eða eldgosum. Þetta hygg jeg í alla staði rjett. En menn hafa reynt að hrekja þetta með þeirri mótbáru, að samgöngurnar væru nú orðnar svo góðar, að engin hætta væri á, að þær mundu teppast til lengdar af hafís. Sömuleiðis hafa menn haldið því fram, að með bættum samgöngum mætti mikið ráða bót á afleiðingunum af eldgosum. Jeg er hræddur um, að menn hafi ekki hugsað þetta mál út í æsar. Samgöngurnar bæta lítið úr skák, ef fjenaður manna fellur. Það þarf ekki hafísár til, að fjárfellir verði, hann getur stafað af langvarandi ótíð. En þegar bústofninn hrynur niður, þá er jafnan hætt við hungri og örbirgð og jafnvel mannfelli, þótt samgöngurnar teppist ekki. Mjer hefur heyrzt háttv. 6. kgk. samsinna því, að fullkomnari samgöngur mundi vera öruggasta vörnin í flestum tilfellum. En hvernig eiga samgöngurnar að hjálpa bændum, ef fjenaður þeirra er fallinn ? Og hvernig eiga þær að hjálpa sjómönnum, þegar langvarandi fiskileysi ber að höndum? Það er eins og að það vaki fyrir mönnum, að samgöngurnar geti jafnvel hjálpað þeim, sem allar bjargir eru bannaðar. Menn ættu þó að minnast þess, að á okkar tímum eru flestir ofhlaðnir af skuldum. Og hvernig mundi ekki hlaðast otan á þær hjá bændunum, ef fjárfellir yrði ? — Sá eitraði hugsunarháttur er enn þá ríkur hjá almenningi, að kasta allri sinni áhyggju upp á kaupmanninn. Kaupmaðurinn er nú raunar ekki lengur það sem hann áður var; það er nú orðið ekki hann, sem sýnir viðskiftamönnum hroka, heldur þeir honum, svo að hann oft verður að skríða fyrir þeim. En hvernig á kaupmaðurinn að hjálpa, þegar hann ef til vill er að þrotum kominn vegna óskilsemi viðskiftamanna sinna. Verzlunarskuldirnar hafa aukizt hin síðari árin og kringumstæðurnar einnig að öðru leyti versnað, því að samtímis hefur tiltrú kaupmanna í útlöndum stórminkað. Sjerstaklega hafa verið brögð að þessu síðan 1908. Þá fóru ýmsar verzlanir á höfuðið og hefur lánstraust vort aldrei náð sjer síðan. Verzlanir mundu því nú víðast eiga mjög bágt með að veita lán til þess að bjarga almenningi, ef hallæri bæri að höndum. Jeg tala um þetta af nokkurri þekkingu, því að jeg hef nú fengizt við verzlun í 15 ár, og verið raunar lengur við kaupsýslu riðinn sem endurskoðari. Jeg veit um eitt verzlunarfjelag, sem fyrir nokkrum árum var svo heppið — ef happ skyldi kalla — að hafa erindreka í útlöndum, sem veitti stórlán. Sem kanpstjóri þessa fjelags — verzlunarvelta þess er 0: 60,000 kr. á ári — stóð jeg einu sinni í 13,000 kr. skuld við erindrekann á nýjári. Nú mundi jeg ekki geta slíkt, þó að jeg vildi, því að nú verður alt að vera borgað að fullu um nýjár. Tiltrú vor hefur minkað svo, að nú vilja umboðsmenn, að allar skuldir sjeu greiddar að fullu um nýjár, þrátt fyrir talsvert aukinn efnahag og eindregna við leitni til að standa í skilum, sem endaði á næstliðnu nýjári með talsverðum inneignum en engum skuldum við stórsala. Það er ómögulegt að hugsa sjer, að verzlunarinnar geti birgt menn upp, þótt samgöngurnar sjeu nú betri en áður. Það er ekki hægt að setja fólk nje fjenað á fyrirhyggju verzlananna. Það er auðsætt, að það þarf ekki litla peninga hjá verzlununum út um land, ef þær eiga að hafa allar nauðsynjavörur, svo að enzt geti fram eftir vetrinum, geta leyst út ull og gærur og aðrar afurðir landsmanna, borgað innieignir. Til þessa verða þær að hafa mjög mikinn peningaforða, en það er ekki hægt að áætla hvað mikinn. Um munaðarvöru má að vísu segja, að það sje óþarfi að liggja með hana, en það er þó ekki hægt að áætla svo nákvæmlega, hvað mikið muni þurfa til þess að aldrei vanti neitt af neinni vörutegund eða að afgangur verði af annari. Þessvegna hljóta allar verzlanir að liggja með talsvert af vörum á nýjári, bæði útlendum og eins innlendum vörum, sem komið hafa eftir lok kauptíðar, svo sem haustfisk o. fl., og svo eru allar útistandandi skuldir. Mitt fjelag lá einu sinni inni með um 19 þús. kr. virði í vörum á nýjári. Af þessu er auðsætt, að það er ómögulegt að reka verzlun nema með mjög stóru kapítali, nema þá hjer í Reykjavik, þar sem öll skifti ganga svo fljótt fyrir sig. Þó er öðru máli að gegna. Það má að vísu segja, að kaupmenn þurfi ekki að lána út vörur, en það er óumflýjanlegt, að hafa vöruskiftaverzlun, því að bændur geta ekki borgað útlendar vörur með öðru en því, sem þeir fá fyrir ullina og aðrar afurðir sínar, og verða því að taka vörur að láni hjá kaupmanninum, og þá er vandi að koma fullkomlega í veg fyrir skuldir. Það má að vísu takmarka lánin, með því að verzlanirnar sjeu nokkurskonar fjárhaldsmenn bænda, dragi úr lánunum, láti ekki meira af hendi en það, sem minst má komast af með. En hvernig fer nú eftir rigningarnar í sumar og svo harðan vetur í vetur og hart vor í vor, og látum þó ísinn víkja í maí, svo að korn geti komið. Það er að vísu gott, það getur slökt hungrið í fólkinu, og ef til vill bjargað einhverju af skepnum, sem eftir kunna að vera, en flestar þeirra eru þá dauðar. En hvernig á þá kaupmaðurinn að fara að bjarga þessum manni, sem búinn er að missa alt fje sitt og enga tryggingu getur sett. Ef hann fær enga hjálp án hennar, hlýtur fólkið að deyja úr hungri, nema skip komi þá til landsins, sem flytji fólkið burt úr landinu. Ef kaupmaðurinn hinsvegar lánar án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir greiðslunni, hlýtur hann að eiga það á hættu, að verzlunin fari á hausinn. Nú er svo háttað, að hugsunarhátturinn er mjög að breytast nm meðferð á skepnum, svo að ef menn eiga einn kornhnefa, þá skifta menn honum jafnt, öðrum helmingnum til sin og barnanna og hinum helmingnum til skepnanna. Þetta er mjög fallegur hugsunarháttur, en kornið eyðist fyr ef bæði menn og skepnur eru settar á það. Til þess að koma í veg fyrir, að skortur verði, er því nauðsynlegt, að birgja sig upp með kornforða og setja skepnurnar varlega á. Þetta frv. er því það fyrsta og helzta, sem við þurfum að fá í gegn, til þess að koma í veg fyrir. að menn felli fjenað sinn vegna fóðurskorts. Við verðum því að leggja alúð á að fá mena að fylgja þessum lögum ef þau komast á Við verðum að leiðbeina þeim og þrýsta til þess að nota þau sem bezt.

Loks vildi jeg minnast lítið eitt á einstakar greinar frv., en af því að jeg er nú búinn að taka alt það markverðasta fram, get jeg orðið stuttorður um hverja grein. Í 1. grein er ákveðið, að í hverjum hreppi skuli kosnir forðagæzlumenn, einn eða fleiri. Jeg vildi taka það fram sem athugasemd frá sjálfum mjer, að reynslan hefur sýnt, að einn maður getur dugað, ef hann er starfinu vaxinn,. og þar sem sparnaðarhugmyndin er ríkjandi í frv., er gert ráð fyrir, að einn forðagæzlumaður geti dugað, en jeg álít að það væri heppilegra, að þeir væru tveir, því að allir vita, að betur sjá augu en auga, og svo hafa menn misjafna hæfileika, einn hefur þetta til að bera, annar hitt. Annar getur verið leikinn í að mæla heyin og meta fóðurgildi þeirra, hinn getur verið æfður fjármaður, og haft betra vit á útliti fjenaðarins, verið strangur um hirðingu og alla umgengni, sem víða er ábótavant, ekki einungis til skaða, heldur og til vansæmdar. Það er hörmung að sjá, hvernig oft og einatt er gengið um heyin. Það er troðið undir fótum og að öllu leyti því líkast, sem naut hafi rótast í því. Ef forðagæzlumenn eru tveir, eru því meiri líkindi til, að þeir mundu leysa verkin vel af hendi, og þar að auki mundi oft standa svo á, að annar þeirra væri æfður í þessu starfi, en hinu væri þá nokkurskonar lærisveinn hans, og þegar hinn eldri og æfðari færi að þreytast og bila af starfinu, væri hinn til taks til þess að taka við því í staðinn, og væri þá sjeð fyrir því, að ávalt væri hæfur maður við starfið. Jeg álít því mikinn skaða, að forðagæzlumenn skuli ekki ávalt vera tveir. En eins og sjá má af nefndarálitinu, er það tilgangur nefndarinnar, að ef forðagæzlumennirnir eru fleiri en einn, þá skuli þeir skifta hrepnum á milli sín í tvö eða fleiri umdæmi. Þetta álít jeg ekki rjett, en þó getur hreppurinn verið svo stór, að nauðsynlegt sje að skifta honum. Jeg hygg nú reyndar, að fáir þekki stærri hreppa en jeg, en hinsvegar þekki jeg ekki þá hreppa, sem fjölbygðastir eru, og þar getur þetta verið nauðsynlegt, því að skoðanagerðin er mjög seinleg, þar sem býlin eru mörg, og því getur þetta verið rjett hjá nefndinni, en ef þeir fylgdust að, mundi vera meira samræmi í skýrslum þeirra og allur ásetningur nákvæmari. Í grein er rætt um, hvernig forðagæzlumenn skuli kosnir. Samkvæmt horfellislögunum eru eftirlitsmenn kosnir á hreppskilaþingum en það er ekki heppilegt af því, að þau eru víðast illa sótt, og valið verður því ekki ávalt sem bezt, því ilt að kjósa fjarverandi menn. Frv. þetta fer því fram á, að forðagæzlumenn skuli kosnir um leið og hreppsnefnd er kosin, er þá trygging fyrir því, að þeir sjeu kosnir af öllum almenningi, því að hreppsnefndarkosningar eru venjulega vel sóttar og áhugi fyrir þeim mikill. Forðagæzlumenn skulu kosnir til 3 ára, og fer því kosning þeirra fram í hvert skifti, sem kosið er til hreppsnefndar og um kjórgengi, og rjett til þess að skorast undan kosningu fer sem um hreppsnefndir, og er það vel til fallið. 3. gr. ræðir um, hve margar skoðanir skuli framkvæma á hverjum vetri og er ákveðið, að þær skuli vera þrjár, því nefndinni hefur talizt svo til, að af því muni alls ekki veita. Á fyrstu skoðuninni byggi jeg mest og vænti bezts árangurs af henni. Sú skoðun fer fram á þann hátt, að forðagæzlumenn mæla heyin og meta fóðurgildi þeirra, svo sem bezt þeir kunna og byggja þetta á svo góðum rökum, sem hægt er. Væri mikil nauðsyn á að fá góða handbók fyrir forðagæzlumenn frá þeim mönnum, sem helzt hafa reynzlu fyrir sjer í þeim efnum. Þá er önnur skoðunin. Aðaltilgangurinn með henni er að skoða heyin á ný, og aðgæta hvort farið hafi verið nálægt sanni með þann fjárfjölda, sem á hefur verið settur. Þá á einnig að gæta að, hvernig heyin sjeu umgengin, og hvernig fjeð sje þrifað. Þriðja skoðunin er til þess að gefa einkunnir og meta, hve mikið er þá eftir af heyjum. Þegar um einkunnirnar er að ræða, mun það verða niðurstaðan, að mest mun verða bygt á annari skoðuninni að því, er snertir umgengni og holdafar á fje. Þar sem hold eru góð á fjenaði um miðjan vetur, eru þau venjulega einnig góð að vorinu, nema heyskortur hafi orðið, því að þeir, sem fara vel með fje sitt til miðsvetrar, gera það ekki að gamni sínu, að hirða það illa seinni hluta vetrar. Að því er snertir þriðju skoðunina, er það að segja, að þar sem ætlazt er til þess, að hún fari fram upp úr sumarmálum, þá er of snemt að mæla heyfyrningar. Því þó að fje sje sloppið, þá verður að gefa kúm enn um langan tíma, og getur maður því aldrei í haft annað en áætlun, að því er þær snertir. Þessi skoðun verður því mest holda skoðun, og til þess að gæta að, hvort menn eru algerlega að þrotum komnir með hey sín. Til þess að mæla fyrningingarnar, þarf því fjórðu skoðunina, því að það hefur reynslan sýnt, og það sjest á skýrslum þeim, sem prentaðar eru í nefndarálitinu, að þær er ekki hægt að mæla, fyr en komið er fram í júnímánuð.

Jeg býst nú við því, að menn kunni að segja, að þetta eftirlit fari að verða nokkuð dýrt, ef skoðanirnar eigi að verða fjórar. Það getur verið, en þó má á ýmsan hátt draga úr kostnaðinum við þessa skoðun. Í fyrsta lagi má að sjálfsögðu hlaupa yfir marga bæi, þar sem menn vita, að engar fyrningar eru. Í öðru lagi geta forðagæzlumennirnir gert þetta við hentugleika, og ef þeir eru tveir, geta þeir vel skift hreppuum á milli sín við þessa skoðun, og ef einhver skilríkur maður á leið heim á einhvern bæinn, geta þeir falið honum að mæla fyrningarnar, og skrifa þær í vasabók sína, og láta þá svo vita um það við tækifæri. Það gefur að skilja, og er ákveðið í 4. gr., að þegar forðabúr eru komin á, þá eiga þessir forðagæzlumenn að vera ráðunautar og leiðbeinendur um alt, sem að þeim lítur, og sem snertir fóðurbirgðir og fyrningar. Forðabúrin verð jeg að álíta mjög nauðsynleg, til þess að tryggja fjenaðinn gegn verulegum harðindum, og ennfremur er nauðsynlegt, að hafa sjóð, sem grípa má til, þegar annað þrýtur. En alt slíkt álít jeg eingöngu hjálp í viðlögum, en það, sem farið er fram á í frv. þessu, álít jeg aðalhjálpina, ef það gæti orðið til þess, að breyta hugsunarhættinum, og fá menn til þess, að skilja nauðsynina á því, að hafa fjenaðinn í sem beztu standi. Þá kemur 5. gr. frv., í henni er ákveðið, að forðagæzlumenn skuli skrifa allar skoðunargerðir í þar til gerða bók, en ekki senda skýrslu sína til hreppstjóra, eins og nú á sjer stað. Þetta álít jeg sjálfsagt þeim til leiðbeiningar, er síðar taka við starfanum, en jeg ætla að geta þess, að jeg álit ekki nóg, að þeir hafi gerðabók, heldur ættu þeir einnig að hafa handbók, sem þeir notuðu á ferðum sínum og færðu svo úr henni inn í gerðabókina, þegar heim kæmi.

Búnaðarfjelag Íslands ætti að gefa slíka bók út, og ætti hún að vera í handhægu vasabókarbroti, af sömu stærð t. d. eins og leiðarvísir fyrir sóknarnefndir, sem út hefur verið gefin. Í þessari vasabók settu að vera vinnutöflur og leiðbeiningar um forðagildi, ásamt hjálpartöflum til að reikna rit fóðrið, því bæði er það að menn eru misjafnlega færir í reikningi, og eins er það, að forðagæzlumennirnir verða oft og einatt að reikna út fóðrið undir misjöfnum kringumstæðum; stundum verður að reikna það við jötur í fjárhúsum eða undir berum himni. Þetta er að vísu ekki tekið fram í lögunum, en ef frv. nær fram að ganga, og fær góðar undirtektir hjá þjóðinni, eins og það verðskuldar, þá tel jeg líklegt, að landstjórnin taki sjer fyrir hendur að láta semja slíka handhæga vasabók, því að hún yrði til mesta hægðarauka fyrir forðagæzlumennina. Og auk þess er jeg hef tekið fram, að þar ætti að vera, þá ættu að vera prentuð þar lögin og samþyktirnar ásamt öðru því, er forðagæzlumennina varðar, og svo ætti að vera auður pappír, er forðagæzlumennirnir gætu fært til bráðabirgða inn á allar athuganir sínar, til þess síðan að hreinrita þær og færa inn í bók sína í hentugleikum heima hjá sjer.

Þá er 6. gr. frumvarpsins. Hún fjallar um, að forðagæzlumaður eigi að gefa hreppsbúum holl ráð og bendingar um heyásetningu og skepnuhirðingu. Samskonar ákvæði stendur í núgildandi horfellislögum og sveitarstjórnarlögum. En það er áreiðanlegt, að þeir hafa ekki nema takmarkað vald, og geta ekki gert fyrirskipanir um skurð af fóðri; þeir eru leiðbeinandi.

Jeg hef eitt sinn skrifað grein um heyásetning, og sýndi jeg þar dæmi, að bóndi, er vantar hey og getur því ekki sett allan búpening sinn á að hausti, og því fargar 1/5 hluta hans að haustinu, á samt eins mikið peningagildi í búfénaði að vorinu, eins og hann hefði sett alt fjeð á.

Þetta dæmi sýnir ljóslega, að það er ekki alt undir því komið, að setja mikið fje á fóðrið, heldur meira undir því, að setja aldrei meira á en svo, að bóndinn geti fóðrað fjeð vel, svo það gangi vel undan og gefi góðan arð. En þegar heyleysi er, þá verða menn að gæta þess, hvað þeir eigi að setja á, og hverju sje haganlegast að farga. Þar kemst hagsýni að.

Bóndi, sem hefur sauðfjárbú, má t.d. ekki missa ærnar; þær eru bússtofninn; hann verður heldur að farga lömbunum og sauðunum. En þar sem kúabú er,þar hagar málinu öðruvísi; þar verður að taka þær kýrnar til lógunar, sem eru fóðurfrekastar, en þar er miklu síður hætt við vitlausum ásetningi, því að gjafatími er nokkuð svipaður og ekki treyst á beit eins og með sauðfjeð. En þó að einhver bóndi hafi heyjað 1/5 minna en vant er, og vanti það á fóðurbirgðir sínar, þá er ekki sjálfsagt, að hann þurfi að Ióga að því skapi, og þar er skylda forðagæzlumannsins að gefa holl ráð og bendingar, og geta þær oft komið að góðu gagni. Það getur t.d. verið nóg, að láta ekki ærnar fá lömb, því þá verða þær nálægt því eins harðgerðar og sauðir, og þola betur beit og vorharðindi, en það vita allir, að þegar vorharðindi ganga, að þá eru sauðirnir tryggasta sauðfjáreignin. Og á fleiri ráð má benda. Það ber við, að þeir, sem nær altaf eru heylausir, eru að ala kálfa, og það jafnvel undan hverri kú, og það enda þótt að kýrnar sjálfar sjeu gallagripir og ekki til undaneldis, en það hefur reynzt mjer svo, að einn kálfur haustalinn þurfi 1/6 af kýrfóðri, eða að 6 kálfar þurfi jafnmikið fóður og ein kýr, auk þess er þeir fá mjólk. Það sjá þess vegna allir, að það er ekki rjett að ala kálfa, þegar heybirgðir eru litlar, og mjólkureyðslan verður til þess, að bóndinn þarf að leggja meira til búsins og verður því síður fær um að kaupa fóður annarsstaðar að. Eins er það, að mörg hross eru oft vandræðaeign og það er oft hreinn og beinn skaði að því, að eiga gömul hross, og það er oft ekkert tjón að því, að drepa á haustin hest, sem er í góðum holdum.

Í miðskoðuninni má líka oft gefa holl ráð og bendingar, er getur verið beinn hagnaður að fyrir hlutaðeigandi bónda, og get jeg í því sambandi nefnt dæmi, er komið hefur fyrir. Þegar skoðað var hjá bónda nokkrum í miðskoðun, þá litu forðagæslumenn svo á, sem hann þyrfti að lóga einni kú, til þess að vera fóðurbirgur. Það stóð þá svo á fyrir bónda þessum, að hann átti meðal kúnna ljelega stritlu, og tók hann hana og drap. Skrokkinn seldi hann í næsta kauptún, en slátrið notaði hann til heimilisþarfa. Svo seldi hann hálft skinnið, en hinn helminginn notaði hann heima. Um vorið keypti hann sjer nýja kú mikið betri en hin var, og kostaði hún ekki meira en hann fjekk fyrir kjötið og hálft skinnið. Hann hafði því grætt slátrið, hálft skinnið og fóður, en auk þess fengið betri kú en hin var. En jafnvel hafði hann ef til vill forðað sjer frá stórtjóni. Hagnaðurinn er auðsær hverjum sem er, en slíkar geta leiðbeiningar oft verið.

7. gr. frv. er um launin til forðagæzlumannanna; þau eru mjög smá, en þegar hreppssjóður á hlut að máli, verður að skera alt við neglur sjer. Þess er ekki alveg eins gætt, þegar landssjóður á að borga brúsann.

Þá er 8. gr. frv. Jeg skal í sambandi við hana geta þess, að þegar jeg kom með frumvarpið, þá var það miklu lengra, og þar voru tekin fram öll smáatriðin nákvæmlega, en nefndin komst að þeirri niðurstöðu. að fella þau burtu, og hafa ekki neitt af smáatriðunum í lögunum sjálfum. Það sem vakir þar fyrir nefndinni, er að gera lögin sjálf sem óflóknust fyrir þingið, svo þau gætu fengið þar greiðan og góðan framgang, og eins það, að það sje þægilegra í framkvæmdinni, að hafa þau ákvæði í samþyktum eða reglugjörðum, því skeð getur, að reglugerðir þurfi að vera eitthvað mismunandi í hinum ýmsu hjernðum landsins. Og það er líka þægilegra að breyta þeim, ef það skyldi koma síðar í ljós, að það þyrfti að breyta þeim á einhvern hátt; eitthvað ekki reynast heppilegt.***

Um 9. og 20. gr. þarf ekki að taka neitt sjerstaklega fram, en viðvíkjandi 11. gr. vil jeg taka fram, að nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri nauðsynlegt, að setja þar ákvæði um sektirnar. Horfellislögunum hefur ekki verið hlýtt, og þó hefur lagavendinum ekki verið beitt enda þótt allir viti um brotin. En það eru til nóg lagaákvæði handa dómendunum að fara eftir, þegar til þeirra kasta kemur, þótt ekki sjeu sektir ákveðnar í frumvarpinu.

Jeg vil þá víkja nokkrum orðum að þeim brtill., er nefndin hefur komið fram með. Þær eru gerðar eftir samráði við eða eftir bendingum frá ýmsum háttv. deildarmönnum.

Það er þá fyrst 1. breytingartill. nefndarinnar við 2. gr., sú breyting er að fella burt: „en jafnan skulu“ til enda annarar málsgreinar í 2. greinar, og er það gert eftir bendingu annara þingmanna. Að nefndin fellir burt þetta ákvæði, kemur ekki af því. að hún áliti ekki, að kjósa beri reynda og ráðsetta búmenn, heldur af því, að hún lítur svo á, að þetta ákvæði eigi ekki heima í lögum, heldur eigi kjósendur jafnan að hafa það hugfast við kosninguna, að kjósa reynda og ráðsetta búmenn, eða þá, sem kunnir eru að búhyggindum og góðri þekkingu á skepnuhirðingu.

Önnur brtill. nefndarinnar er við 3. gr., að í staðinn fyrir „sem honum er falið til umsjónar“ komi: „sem hreppurinn hefur falið honum til umsjónar“. Af frv. verður ekki sjeð, hvaða stjórnarvöld hjer væri um að ræða, og sumir hafa talið þar til hreppsnefnd, en nefndin getur ekki fallizt á, að hreppsnefndin eigi neitt skylt við þetta, heldur eigi forðagæzlumennirnir að vera alveg sjálfstæðir, eins og t. d. fræðslunefndirnar og sóknarnefndirnar, og þeir eiga ekkert að vera gefnir undir hreppsnefndirnar, en geti komið til þeirra með reikning sinn til borgunar er þeir vilja, og hafa framkvæmt verkið. Þessvegna höfum við tekið fram, að hreppurinn gefi valdið.

Jeg fyrir mitt leyti hefði helzt kosið, að sömu mennirnir hefðu skoðað á öllum heimilum í hreppnum þrisvar á ári, en hjer vakir fyrir meiri hluta nefndarinnar, að það geti verið heppilegt oft og einatt, að hrepp sje skift í fleiri en eitt umdæmi, og þessvegna er breytingartillagan svo orðuð.

Jeg held því, að brtill. sje til bóta. en hún sje hinsvegar veigalítil.

Þriðju brtill. við 6. gr. höfum við gert eftir bendingum hv. deildarmanna, og jeg býst við því, að 3. skoðun fari ekki fram, fyr en um fardaga, og því lítur nefndin svo á, að þetta ákvæði sje fremur til bóta.

Fjórða brtill. a, við 9, gr. víkur að því, að það megi ljetta af fóðri, án þess að lóga fjenu; það megi t. d. selja fje til annara, sem eru heybirgir, en eins og allir vita, er altaf leyfilegt að kaupa fje, ef fóður er nóg handa því, og orðið fargar táknar í daglegu máli nú bæði að selja af hendi til annara, týna eða drepa.

Um brtill. 4 b, er það að segja, að við höfum borið hana fram í sambandi við það, að við höfum heyrt, að 10. gr. hafi verið nokkuð misskilin, þannig, að bóndi, er hefði ekki nægar fóðurbirgðir að dómi forðagæzlumanns, væri skyldur til þess hlífðarlaust að skera fje sitt, ef honum væri sagt það. En þetta er mesti misskilningur, og nefndin hefur viljað forðast, að hann gæti átt sjer stað. Hjer er ætlazt til þess, að forðagæzlumenn láti sýslumann vita, ef þeir telja, að einhversstaðar sjeu ekki nægar fóðurbirgðir og ekki er tekið tillit til bendinga og ráða hans. Og nefndin ætlast svo til, að. sýslumaður gefi fyrirskipanir um málið, ef hann ekki álítur, að það þá heyri ekki undir ákvæði hegningarlaganna.

Fyrri liður við brtill. við 10, gr. er um, að í staðinn fyrir: „kaupa fóður nje lóga“. komi: „afla sjer fóðurs nje farga“. Hvað „farga“ snertir, þá stendur það í sambandi við, og er í samræmi við 4. brtill. a. En nefndin taldi rjettara, að setja hjer að „afla fóðurs“, og það er hægt að gera það úr riki náttúrunnar að vorinu. Jeg hef verið þar, sem marakjarna hefur með vorinu verið aflað fyrir kýr, þegar fóðurleysi er, og jeg tel það sje gott fyrir þá, er ekki hafa vit á því, að fá þá bendingu, þar sem svo stendur á. Og þótt það sje ekki beinlínis svo, að hægt sje að hrósa því, þá getur það verið heppilegt, að fá hey hjá þeim, sem eru heybirgir, og greiða það aftur með nýju heyi að sumrinu. Þetta er vitanlega að jeta fyrir sig fram, en það forðar frá háska í svip og getur því verið rjettmætt.

Síðari liður till., stafliður 5 b, er að eins orðabreyting.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að sinni.