21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

94. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Eggerz ; Eins og nefndarálitið ber með sjer, hef jeg skrifað undir það með fyrirvara og hefur háttv. frsm. getið ástæðunnar til þess. Fyrirvari minn er í raun og veru um mjög lítilfjörlegt atriði. Mjer þykir rjettara, að ákvæði núgildandi kosningarlaga um það, að yfirkjörstjóri ákveði kjörstað í hreppunum, ef nauðsyn ber til, sje haldið, heldur en að vald þetta sje lagt í hendur undirkjörstjórnar. Yfirhöfuð vil jeg ekki breyta öðru í lögum þessum en því, sem jeg með vissu tel til bóta. Og svo er á það að líta, að ef undirkjörstjórn væri mjög pólitísk, gæti hún sett kjörstaðinn þannig, að sem erfiðast yrði að sækja fyrir andstæðingana. En meiri líkur til að yfirkjörstjórn fari eigi að breyta um kjörstaði, nema þá samkvæmt áskorun undirkjörstjórnar. Þá er jeg sömuleiðis samþykkur háttv, 2. þm. Arn. (J. J.), að eigi sje heppilegt, að auglýsa breyting kjörstaða á kirkjustöðum. Það getur verið, að eigi sje messað, og þá kemur auglýsingin að litlu liði, og jafnvel eigi víst, að kirkjustaður sje í hreppnum.

Þá vildi jeg, fyrst jeg á annað borð stóð upp, víkja örlítið að athugasemdum háttv. þm. N.-MúI. (E. J.) um 1. og 2. brtill. nefndarinnar. Get jeg ekki sjeð, að í þeim sjeu mótsagnir. Í hinni fyrri er tekið fram, hvenær oddviti eigi að víkja, en í hinni síðari, hve lengi. Nefndin sjer enga ástæðu til, að oddviti viki nema meðan atkvæði eru talin saman. Að því er brot seðlanna snertir, er jeg samþykkur háttv. þm. Strand. (G. G.) og háttv. 2. þm. Árn. (J. J.), að því skuli haga eins og við hlutfallskosningar.

Þá þótti háttv. þm. Strand. (G. G.) athugavert, að tíminn væri lengdur, sem mönnum væri gefinn kostur á að kjósa hjá kjörstjórn. Jeg get ekki betur sjeð, en að mönnum sje einungis gert hægara fyrir að kjósa með þessu fyrirkomulagi, því að það getur staðið svo á, að þeim sje ekki unt að koma innan hins ákveðna tíma, og eigi get jeg sjeð neitt athugavert við það, þó að sent yrði eftir mönnum, og að sem flestir gætu þannig neytt kosningarrjettar síns.