22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Einar Jónsson:

Jeg hallast að till. meiri hluta nefndarinnar í þessu máli, með fram vegna þess, að samþyktir þær, sem hjer er um að ræða, eiga ekki að gilda nema um 5 ára tímabil, og eigi er hjer mikil hætta á ferðum, ef þær skyldu reynast ver en til er ætlazt. En aðalástæðan til þess, að jeg tók til máls er sú, að jeg vildi vekja máls á galla, sem mjer virðist vera á frv., en sem nefndin hefur ekki minzt á í áliti sínu. Þessi galli er í því fólginn. að mjer virðist vera ósamræmi milli 1. og 3. gr. frumvarpsins. í 1. gr. er ákveðið, að sýslunefndum Eyjafjarðar- og Suðurþingeyjarsýslu ásamt bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar skuli heimilt að gera samþyktir um hringnótaveiði á Eyjafirði. Í 1. gr. er ekki talað um annað en þessa heimild, og í hinum greinunum er svo ákveðið, hvernig koma skuli þessum samþyktum á. í 2. gr. er talað um, að kveðja skuli kjósendur til fundar og í 3. gr. er talað um, hvað gera skuli á þessum fundi, að þar á fundarstjóri að leggja fram frumv. til samþyktar, sem áður hefur verið samþykt samkvæmt 1, gr. En í 1. gr. er ekki talað um neitt samþykt frumv., heldur að eins um heimild til að gera samþykt. og er sú grein að eins sem inngangur að lögunum. Það getur verið, að hjer eigi að standa „samið“, en ekki „samþykt“, en þótt svo væri, þá kemur það eigi heldur heim við 1. gr. Jeg álit, að hjer þurfi frv. breytinga við, og vil jeg skjóta því til nefndarinnar, hvort hún vill ekki athuga nánar þetta atriði. Jeg hygg, að hjer þurfi að taka það fram, að sýslunefnd skuli semja frumvarp og leggja fyrir fund þann, sem ákveðinn er í 2. gr. En eins og þetta stendur nú í frumvarpinu, er það mjög óljóst.