17.07.1913
Neðri deild: 13. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (214)

57. mál, girðingar

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Um þetta frv. er það að segja í styztu máli, að það fer fram á endurskoðun á núgildandi lögum um girðingar frá 1909. Alt er á fleygiferð í heiminum, og það jafnvel hér á landi, og breytingum undirorpið. Svo er það um búnaðinn og aðrar verklegar framkvæmdir, að þær taka breytingum árlega. Fyrir því verður löggjafarvaldið að taka tillit til breytinganna. Og af þeirri ástæðu er það ekki tiltökumál, þótt farið sé fram á breytingar á tiltölulega ungum lögum. Í þessu frumv. hefi eg reynt að taka tillit til þeirra umkvartana, sem komið hafa fram um núgildandi lög; hins vegar hefi eg og litið til þeirra breytinga, sem orðið hafa á síðari árum, og reynslunnar, sem hefir sýnt, að lögunum er að sumu leyti ábótavant. Af þessu vona eg, að það hneyksli engan, þótt farið sé fram á breytingar á lögum, sem ekki eru eldri en 4 ára.

Að svo miklu leyti sem ekki er um sjálfsagðar breytingar að ræða, eins og t.d. um metramálið o. s. frv., þá hefi eg aðallega stuðzt við reynslu manna, sem við mig hafa talað um málið, og raddir, þær sem komið hafa fram í þingmálafundargerðunum, er eg hefi reynt að kynna mér. Annars er fátt nýtt í frv., nema ákvæðin um landamerkjagirðingar og skyldu manna til að girða á móti. Skoðanir manna hafa verið skiftar um þetta mál. Sumir hafa haldið því fram, að ákvæði Jónsbókar um merkjagarða væru enn í gildi. En hins vegar veit eg þó ekki til þess, að nokkur hafi árætt að höfða mál, ef nágranni hans hefir synjað að taka þátt í merkjagirðingu á móti honum, líklega og meðfram af þeirri ástæðu, að álitið mun vera, að ákvæði Jónsbókar nái ekki til gaddavírsgirðinga. En hvað sem þessu líður, hefir það sýnt sig á síðustu árum, að nauðsynlegt er að fá ákvæði um þetta efni, vegna þess meðal annars, hve girðingum hefir fjölgað, sérstaklega landamerkjagirðingum. Eg kannast við það, að ákvæði um þetta efni eru mjög varhugaverð, og eg er þakklátur hverjum þeim sem kemur fram með góðar bendingar í þessu efni. Þó að nú einhver bóndi vilji koma upp girðingu, telji sér hag af því og krefjist þess, að nágranni hana taki þátt í girðingunni að sínu leyti, þá getur oft staðið svo á, að nágranninn hafi ekki sömu not girðingarinnar, að land hans verði ekki þannig girt nema frá einni eða tveim hliðum, og sé því í rauninni jafnógirt eftir sem áður. En hins vegar verður þó að taka tillit til þess, að sanngjarnt er, að sá sem land á á móti, taki þátt í kostnaðinum að einhverju leyti. Svo getur farið, að sá er land á á móti þeim er vill girða á merkjum, og neitar að taka þátt í girðingarkostnaðinum, fái land sitt girt án þess að hafa kostað nokkuð til girðingar um það. Þess vegna er þetta landmerkjagirðingamál þess vert, að það sé athugað.

Eg hefi leyft mér að geta um þetta ákvæði, án þess þó að fara út í einstök atriði frv., sem mér gefst Væntanlega kostur á við 2. umr.

Áður en eg sezt niður, vil eg geta þess, að í frv. eru leiðar prentvillur. Enga sök á eg þó í þeim. Eg hefi ekki lesið prófarkir. Hafði eg fengið góðan skrifara úr stjórnarráðinu til þess að hreinrita frumv. undir prentun, því að skrifstofan hefir jafnan kent því um, þegar eg hefi kvartað undan prentvillum á þingskjölum frá mér, að handritin væru ill aflestrar. Í þetta sinn vildi eg sjá við lekanum og setja undir hann, en samt sem áður hafa slæðst inn 5–6 prentvillur, ef ekki fleiri.