05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Það er líklega nauðsyn á tillögu háttv. nefndar um utanför Rögnvalds Ólafssonar. En jeg vil spyrja:

er ekki margt, er þarf að gera, og ekki er hægt fjárskorts vegna að koma í framkvæmd? Rögnvaldur Ólafsson hefur gert teikningu af Vífilsstaðahælinu, og sýnist mjer það svo vel gert, að það sje honum til hins mesta sóma, og að hann þurfi ekki að sækja frekari fræðslu til útlanda. Og jeg hygg hann vera eins færan um að gera þessa áætlun eins og hina.

Háttv. frsm. (Stgr. J.) mintist á brtill. mína á þgskj. 710, og lagði til, að hún yrði feld. Þessi brtill. er um, að persónuleg launaviðbót landsverkfræðingsins sje feld niður, og kemur mjer ekki á óvart, þótt h. 3. kgk. þm. (Steingr. J.) sje því mótmæltur. Hann virðist vilja hlaða undir þennan mann sem allra mestu, hafa hann sjerstaklega verðlaunaðan, en mjer finst, að 3600 kr. árslaun vera sómasamlegt, auk dagpeninga þeirra, er hann reiknar sjer á ferðum, og mun því halda tillögunni fram, enda þótt jeg búist við, að hún verði feld, því hjer í hv. deild eru svo margir, er álíta, að nauðsyn beri til, að láta þennan embættismann ekki fara synjandi.

Það er einkennilegt að sama þing, sem telur sig ekki geta fallizt á tillögur stjórnarinnar, er fóru í þá átt, að hækka laun þessa manns ásamt fleiri embættismönnum, skuli fara að taka launahækkun til þeirra upp á fjárlögin. Háttv. þm. Strand. (G. G.) tók í sama strenginn sem framsm. (Stgr. J.) og sagði, að þessi maður hefði ábyrgðarmikið starf. Jeg kannast við, að hjer muni vera um ágætismann að ræða, og að hann eigi gott skilið. sömuleiðis það, að staða hans sje ábyrgðarmikil; en mjer sýnist þjóðfjelagið launa honum svo vel, að hann megi við una, þótt ekki sje við hann bætt. Mig furðar að vísu ekki, þótt háttv. þm. Strand. (G. G.) sje móti brtill., því hann er svo heppinn, að vera þannig settur, að mjer finst hann hljóti að eiga að vera á móti henni !