05.09.1913
Efri deild: 47. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Einar Jónsson:

Háttv. fjárlaganefnd hefur lagt til, að styrkurinn til sjálfrenningsins á Fagradal yrði feldur niður, en hins vegar vill nefndin láta halda styrknum til Sveins Oddssonar. Mjer finst þetta ekki vera rjett. Þegar á að gera tilraun með þetta flutningstæki, þá finst. mjer betra að halda styrknum til sjálfrenningsins á Fagradal, og reyna hann þar, því að sjer í lagi ríður á, að fá vitneskju um, hvort vöruflutningum verður við komið með þessum samgöngufærum. Í sumar hafa verið gerðar tilraunir með mannflutninga hjer syðra, en aftur hafa engar tilraunir verið gerðar með vöruflutninga til muna; eystra mundi sjálfrenningurinn eingöngu verða notaður til vöruflutninga, eða sem næst því. En auðvitað má líka fá reynslu um vöruflutningana hjer syðra, en benda má á það, að nú liggur fyrir þinginu frumv. til laga um járnbrautarlagningu hjer austur, og þó að það nái líklega ekkí nú framgangi, þá má búast við því, að járnbrautin komist þar á, áður en mjög langt líður. En þá má aftur búast við því, að þessir vagnar, sem hjer ræðir um, yrðu margfalt minna notaðir hjer, en aftur mundu þeir lengi notaðir eystra, því að þess mun langt að bíða, að þar komi járnbraut. Þá má ennfremur líta á það, að eystra á að veita til þessa að eins 1200 kr. hvort árið eða alls 2400 kr. á fjárhagstímabilinu, en hjer syðra 5000 kr., eða 2600 kr. spöruðust með þessu. Ennfremur ber að líta á það, að mjer er sagt, að flutningsgjaldið austur eigi að verða 3 aurar á pd., og er það mjög hátt, en eystra er ekki hægt að ákveða flutningsgjaldið nema með samþykki stjórnarráðsins, og er þar með fengin vissa fyrir því, að það verði ekki óhæfilega hátt. Jeg vildi því óska þess, að sá liður yrði látinn standa, ef þeir væru þá ekki látnir standa báðir.

Þá vil jeg minnast á brtill. við 18. gr. hún er að eins ein. – Þar fer nefndin fram á, að fella burtu 300 kr. eftirlaunastyrk handa ekkjufrú Kristínu Sveinbjarnardóttur frá Holti undir Eyjafjöllum. Maður hennar, sjera Kjartan heit. Einarsson prófastur, var ekki kominn undir nýju Iögin og verða því eftirlaun hennar ekki nema um 170 kr. og eftir því, sem mjer hefur verið sagt, þá hefur hún lítið annað til að lifa á, en hefur hinsvegar að sjá fyrir tengdamóður sinni, fósturdóttur þeirra hjónanna og sonarbarni manns hennar. Nú er ætlazt til þess eftir nýju prestslaunalögunum, að eftirlaun prestsekkju sjeu minst 300 kr., og er það ekki há upphæð. Sje jeg ekki annað, en það væri rjett og sanngjarnt í alla staði, að þessi prestsekkja fengi að minsta kosti svo há eftirlaun, eða fengi að minsta kosti 130 kr. í viðbót við eftirlaun sín. En þó að hún hefði þær 300 kr., sem nú á að fella burtu, er það ekki nema í samræmi við aðrar fjárveitingar í þessari grein. Þar stendur meðal annars til prestsekkju Bjargar Einarsdóttur 300 kr. og til prestsekkju Guðrúnar Björnsdóttur 300 kr. Hin fyrri mun auk þess hafa eftirlaun, en hin hygg jeg að engin hafi, en báðar munu þær ekki hafa neina ómaga. Og hjer síðar í greininni sje jeg til prestsekkju Guðrúnar Pjetursdóttur 300 kr. og hún hefur þó auk þess eftirlaun, svo samræmis vegna getur það fullkomlega staðizt, að Kristín ekkjufrú Sveinbjarnardóttir fái þessar 300 kr. Og svo finst mjer það ætti einnig að vera.

Þá vildi ég minnast nokkurum orðum á eftirlitskensluna, er háttv. þm. Strand. (G. Guðl.) var að tala um, og taldi „andstyggilegt yfirdrepskák“. Jeg held, að ummæli hans sje langt of hörð. og vil því mótmæla þeim. Jeg er á þeirri skoðun, að eftirlitskensla geti komið að miklu liði. Setjum svo, að maður sá, er sjer um eftirlitskensluna, ferðist um og gæti að því, hvernig kent er og kenni sjálfur jafnframt í nokkra daga á bæ hverjum, og segði svo fyrir um kensluna þar, áður en hann færi á burt; kæmi svo aftur nokkuru seinna til að prófa, hvernig sjer hefði verið hlýtt, og kendi þá enn að nýju þar 2–3 daga og setti síðan aftur fyrir þangað til hann kæmi næst. Ef hann færi þannig að, og færi á þann hátt bæ frá bæ, þá held jeg, að mjög gott gæti af því leitt, einkum ef svæði það, er hann hefði yfir að fara, væri ekki mjög stórt, svo að það væri ekki kröftum hans ofvaxið. Og jeg held, að með þessu eftirliti kæmi kenslan að betra gagni, þar sem hún yrði til þess að auka umhugsun heimilanna um ungmennafræðsluna. Annars er altof lítið hert að heimakenslunni, og jeg tel hana miklu betri en farskólakensluna, ef hún er annars góð. Mjer finst það vera auðsætt mál, að ef lögð er rækt við heimakensluna allan veturinn, þá hljóti hún að bera meiri og betri ávöxt, en farskólakenslan, þar sem aðeins er kent í nokkrar vikur. Sex mánaða heimakensla hlýtur að gefa meiri ávöxt en tveggja mánaða farskólakensla. Það hagar svo til mjög viða, að það er ekki hægt að hafa farskólakenslu lengri fyrir hvert barn á vetri. Það er víða ekki hægt að fá nógu stórt húsrúm til að safna mörgum börnum saman, og verður þá að skifta kenslunni niður, svo hún verður því styttri. aðeins mánuði eða skemmri tíma, og þá fer málið að verða augljóst.

Jeg tel heimakensluna alt af betri, ef hún er í lagi, og því vil jeg ekki, að höfð sjeu eins hörð ummæli um hana, eins og háttv. þm. Str. (G. Guðl.) hafði.