08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Björn Þorláksson, framsögumaður:

Jeg hef ekki mikið að segja. En það hefur komið fram brtill. á þgskj. 768 um, að 1. gr. frv. falli burtu. Með öðrum orðum þessi grein: „Enginn má taka við nokkurskonar áfengi úr skipi, er hefst við hjer við land, nje heldur taka við áfengi á floti, hvort heldur gegn endurgjaldi eða endurgjaldslaust“. Það er þessi grein, sem eins og jeg skýrði frá við 2. umr., er komin fram vegna yfirrjettardómsins, sem kveðinn var upp í sumar í máli því, sem höfðað var á móti manni eystra fyrir það að hafa flutt vín í land úr skipi nokkru; dómurinn hljóðaði á þá leið, að maðurinn var sýknaður. Þessi grein á að vera til þess, að setja undir þann leka, sem hjer kom í ljós. Jeg hefði ekki furðað mig á því, þótt einhver ólöglærður maður hefði komið fram með þessa brtill., en . að fyrverandi yfirmaður lögreglunnar hjer á landi á vissu svæði, maður, sem verið hefur amtmaður um langt skeið, skuli koma fram með slíkt, það furðar mig stórum. Jeg hjelt, að þessi grein, sem hann leggur til að feld verði niður, ætti að geta hjálpað til þess að gæta þessara laga, og það ætti engum að vera eins auðsætt eins og þessum manni, hvað nauðsynlegt er að hafa lögin skýr og glögg. Mjer dettur í hug það, sem jeg sagði hjer við 2. umr. um ljelega lögreglu; mjer finst þetta vera að hjálpa þeirri ljelegu lögreglu til að hafa eitthvað sjer til afsökunar. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en jeg mun greiða atkvæði á móti þessari tillögn, og jeg vona, að allir, sem unna góðri lögreglu í landinu, greiði atkvæði á móti þeirri fáránlegu tillögu, sem hjer er um að ræða.