19.07.1913
Neðri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (226)

59. mál, prentsmiðjur

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg held, að háttv. flutningsm. þessa frumv. hafi hugsað málið fremur lítið, áður en hann kom fram með frumvarpið. Hann talaði um, að með þessu frumvarpi væri lagður skattur á prentsmiðjurnar. En á þær er alls enginn skattur lagður með þessu. Það eru bókaúkaútgefendurnir, sem verða fyrir skellinum; á þá legst þungur skattur; því að prentsmiðjurnar láta þá auðvitað borga.

Það munu vera 24 sýslufélög á landinu. Ef þetta frumvarp yrði að lögum, má gera ráð fyrir að í hverju þeirra seldist í allra minsta lagi að meðaltali 10 eintökum minna af hverri bók, sem út kemur, en ella. Það verða þá 240 eint., sem útgefendurnir verða sviftir sölu á.

Nú er það vitanlegt, að það eru fáar bækur, sem bera sig. Af sárfáum bókum selst meira en 6–8 hundruð eintök, og ef þetta frumv. verður að lögum, þá er það til að gera bókaútgáfu alveg ókleifa á þessu landi. Það myndi þá borga sig að senda bækur til prentunar til Kaupmannahafnar, — því fremur, sem þegar er aflutningstollur á óprentuðum pappír, en prentaðar bækur aðfluttar frá útlöndum eru ótollaðar. Frumvarpið miðar að því, að eyðileggja bókagerð hér á landi og um leið að hlynna að prentsmiðjum í Danmörku. Ef háttv. flutningsm. hefir ekki efni á að kaupa bækur, væri miklu nær, að landssjóður styrkti hann til þess, heldur en að skylda einstaka menn til að láta fé sitt til þess.

Eg vona, að það reynist sannmæli, sem stendur í Ísaf. í dag um þetta mál: Þeir þingmenn, sem vilja koma, allri bókaútgáfu hér á landi fyrir kattarnef, greiða þessu fráleita nýmæli atkvæði, en aðrir ekki.