19.07.1913
Neðri deild: 14. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (227)

59. mál, prentsmiðjur

Umboðsm. ráðherra (Kl. J.):

Það var oft sagt hér á þingi í gamla. daga um frv., sem þótti lítils nýt, að þau væru bæði meinlaus og gagnslaus. En það er ekki hægt að segja um þetta frumv. Gagnslaust er það ekki, þar sem það miðar til þess að útvega fjölda mörgum bókasöfnum ókeypis bækur; en það er líka langt frá því að vera meinlaust, því að ef það yrði að lögum, myndi það, eins og háttv. 1. þm. S.Múl. (J. Ól.) sýndi fram á, stefna að því að eyðileggja alla bókagerð hér á landi.

Eg hefi fengið skjal frá bóksölum og prentsmiðjueigendum hér í bænum, þar sem þeir bera sig upp undan frv. Það er undirskrifað af formanni Bóksalafélagsins, stjórn Gutenbergs-prentsmiðju og forstöðumanni Félagsprentsmiðjunnar. Þeir taka það fram, eins og háttv. 1. þm. S.-MÚl. (J. Ól.) hefir gert hér í deildinni, að ef þetta frumv. yrði að lögum, þá myndi það verða til þess, að megnið af þeim bókum, sem gefnar eru út á Íslandi, yrðu prentaðar erlendis, og færa þeir góð rök fyrir þessu Í fyrsta lagi er prentun á íslenzku máli lítið dýrari erlendis heldur en hér. Í öðru lagi er bókband talsvert ódýrara þar heldur en hér. Í þriðja lagi myndi sparast vörugjald á þeim pappír, Sem notaður er í bækurnar, því enginn tollur er á prentuðu máli. Í fjórða lagi myndu bókasafnaeintök sparast, því að það er ekki skylt að láta af hendi ókeypis eintök til bókasafna af því, sem prentað er erlendis. Og í fimta lagi myndu bókasöfnin verða að kaupa bækurnar á bókamarkaðinum.

Af öllu þessu telja þeir, að frv. miði til þess að flytja alla prentun og bókagerð til útlanda. Þetta frv. virðist því vera fremur illa fallið til að efla bókasöfnin. Eg hygg, að háttv. flutnm. (Tr. B.) gangi gott eitt til, en hann hefir valið ranga leið. Réttara hefði verið, að reyna að fá hækkaðan styrkinn til sýslubókasafnanna. Þau fá nú, eins og tekið hefir verið fram, 1500 kr. á ári, sem skift hefir verið milli. 14 sýslubókasafna og nokkurra lestrarfélaga. Það hefir því ekki verið mikið, sem hvert einstaki bókasafn hefir fengið, og þyrfti að vera töluvert meira. Og eg get ekki ímyndað mér, að þingið yrði mikið á móti því að fara þessa leið, að auka tillagið til bókasafnanna. Það er nú svo lítið fé, sem stjórnin hefir til umráða handa Sýslubókasöfnunum, að það eru hreinustu vandræði að útbýta því. Það hafa komið fram skýrslur frá bókasöfnum og svo margar styrkbeiðnir, að ómögulegt hefir verið að búta svo niður landssjóðsstyrkinn, að öll fengju eitthvað. Stjórnin hefir því tekið til þess, að skoða styrkinn ekki beint sem fasta fjárveitingu og veitt þeim söfnum, sem annara hefðu orðið útundan, nokkurn styrk af landssjóði. Að þessu hafa svo háttv. endurskoðunarmenn landsreikninganna fundið. En væri landssjóðsstyrkurinn rýmkaður, myndi bókasöfnunum fjölga, og hvert þeirra gæti þá, fengið ríflegri styrk heldur en nú. Eg vildi leyfa mér að skjóta því til háttv. flutnm. (Tr. B.), hvort honum þætti ekki viðkunnanlegra, eftir að hafa fengið þessar skýringar, að taka frv. aftur, en fara í þess stað fram á að fá aukinn styrk til sýslubókasafnanna úr landssjóði.