08.09.1913
Efri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

113. mál, brúarstæði á Miðfjarðará

Þórarinn Jónsson, flutningsmaður:

Nú er mjer óhætt að lofa því að vera stuttorður. Hjer er ekki um neitt fjárframlag að ræða, því að væntanlega líður langt, þangað til á þessi verður brúuð. Jeg vænti því þess, að þessari till. verði vel tekið.

Eins og menn vita, keppast öll hjeruð um, að fá flestar ár brúaðar. Það er sízt furða, því að slíku er hin mesta samgöngubót. Í Húnavatnssýslu hagar nú svo til, að þar voru síðastl. vor 7 ár óbrúaðar á þjóðveginum. Þetta kann nú að þykja lítilræði, af því að það er í þessu hjeraði. En það er ekki undarlegt, þó að sumir komi á eftir, er aðrir hafa fengið áhugamálum sinum framgengt. Vitaskuld er það, að eitthvað af þessum ám verða brúaðar, þegar flutningabrautin verður lögð, t. d. 4–5 af þeim, og getur þess þó orðið langt að biða, og þær, sem eru langt frá, verða mjög lengi að bíða, t. d. Miðfjarðará. Það hefur verið farið fram á það áður, að hún væri skoðuð. En það hefur ekki orðið úr því. Landsverkfræðingurinn hefur komið og litið á hana, en engin áætlun verið gerð. Það er ekki aðeins í sjálfu sjer, að það er hin mesta nauðsyn á brúnni, heldur og vegna vegalagninga. Því að það verður ekki kveðið á um, hvar vegirnir eigi að liggja nema eftir því, hvar brúin verður.

Miðfjarðará er hinn mesti farartálmi. Jeg skal því til sönnunar geta þess, að Norðanpóstur, sem er alþektur fyrir dugnað og áræði, hefur hvað eftir annað orðið að setjast um kyrt við hana, 1–2 daga, og ekki getað haldið áfram ferð sinni. Það er ekki eingöngu vatnsmegnið, sem veldur þessu, heldur ryður áin sig stundum svo, að hún spýtist fram úr þrengslunum, sem eru rjett fyrir ofan eyrarnar, sem póstvegurinn liggur um, og jakaburður verður afskaplega mikill á eyrunum, svo að það er á mikla hættu að tefla, ef komast á yfir hana, og enda ómögulegt, þótt vatnslítil sje. En hún teppir ekki eingöngu ferðir manna á vetrum, heldur bæði vor og haust. Hún stöðvar stundum fjárrekstra, svo að fjeð verður hvergi ferjað yfir ána; og komið hefur það fyrir, að ferja hefur þurft yfir sjálfan Miðfjörð, frá Útibliksstöðum á Hvammstanga, sem er víst talsvert yfir 1/4 mílu að vegalengd, og verður það, eins og allir sjá, ekki gert nema með ærnum kostnaði.

Það þýðir ekki mikið að fjölyrða um þetta, enda eru deildarmenn á róli og sumir farnir af fundi. Jeg skal ekki segja neitt um, hvenær brúin verður reist, svo menn greiði ekki atkvæði um fjárframlag til brúarinnar. Jeg treysti því, að háttvirt deild taki málinu vel.