09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

99. mál, sala á landspildu til prestsins á Kolfreyjustað

Einar Jónsson, framsm:

Af því að andmæli hafa komið fram gegn frv., verð jeg að fara um það nokkrum fleiri orðum. Þau skjöl, sem liggja fyrir í málinu, eru umsóknin frá sjera Jónasi Hallgrímssyni á Kolfreyjustað, virðingargerð tveggja dómkvaddra manna og meðmæli hjeraðsfundar með því, að salan verði leyfð. — Matsmennirnir lýsa umræddri Iandspildu svo í matsgjörð sinni.

„Innri Skálavík er hjerumbil 250 faðmar á lengd. Með sjó fram beggja megin eru klappir og þeirra milli klungur og stórgrýtisfjara, útfiri og hafnarlaust, með því að þar er sjaldan brimlaust og það um hásumarið. — Fjörubeit er þar ekki teljandi og rekþari sjaldan, því fjaran er ekki festifjara með það frekar en annan reka. — Landið upp af víkinni er yzt mýrarfen, þá miðstykkið mest þýft harðvelli og innst, mót vestri, aurar og hraun og stórgrýti. Lækir tveir renna um harðvellið, er þorna upp á sumrin.

Umrædd landspilda er því hlunnindalaus að öllu; er það beitin ein, sem við hana er að virða“.

Jeg hef enga ástæðu til þess að rengja, að hjer sje farið alveg rjett með, enda hefur nákunnugur maður lýst landspildunni á alveg sama hátt fyrir mjer. — Víkurnar eru tvær, ytri og innri Skálavík. Í ytri víkinni er verstöð. En í innri víkinni er ekki útræði, því að hún er grunn og full af flúðum. Jeg get því ekki skilið, að sala þessarar landspildu geti að neinu leyti skaðað ábúandann á Kolfreyjustað. Ástæðan til þess, að prestinum leikur hugur á kaupinu, mun aðeins vera sú, að hann, sem nú er kominn á áttræðisaldur, óskar að sjá sjer og einkum konu sinni fyrir bústað eftirleiðis og ætlar henni að búa þar eftir sinn dag, ef hún lifir hann, sem líkindi eru til aldurs vegna. Þetta er svo eðlileg ósk, að allir ættu að vera fúsir á að verða við henni, úr því að það er hægt prestakallinu að meinalausu. — Presturinn kemst svo að orði í umsókn sinni: „Jeg þykist að nokkru eiga skilið að fá þessa bæn mína heyrða, því tapi staðurinn dálítilli sumar- og vetrarbeit, hef jeg grætt svo upp tún og girt, að þar fást nú 290 (hestar, er jeg fjekk aðeins 90 hesta, er jeg tók við því, og er það miklu meira en nokkurn tíma fáist úr beitinni“. Af þessu sjest, að presturinn hefur haft hug á því að rækta ábýlisjörð sína; er því engin ástæða til þess að efast um, að hann muni líka leggja stund á að rækta þennan blett. En þjóðinni er það beinn hagur, hvenær sem óræktuð landspilda er tekin til ræktunar. Presturinn mun ætla sjer að þurka mýrina og rækta svo allan blettinn. Ábúandinn á Kolfreyjustað virðist engan skaða geta haft af þessu, og er því engin ástæða til að óttast, að ósamlyndi geti risið út úr því. Þess má geta, að þessi landspilda er langt frá aðalengjum staðarins, en bezta beitiland í ytri hluta jarðarinnar er í Ytri-Skálavík og þar fyrir utan. Það er ekki gott að sjá, að nein hætta geti stafað af þessari sölu, og hljóla menn því að vera frv. meðmæltir, ef menn ekki beinlínis vilja stinga fótum við allri slíkri sölu. Tveir háttv. þm. hafa þegar mælt með frv., en aðeins einn lagt á móti því, og vona jeg því, að það verði samþykt.