09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

120. mál, milliþinganefnd í slysfaramálum

Eiríkur Briem:

Jeg er samdóma háttv. flutningsm. um það, hve mikilsvert þetta mál er, og að það sje rannsakað.

Það er öllum kunnugt, hvern áhuga. háttv. 6. kgk. þm. (G. Bj.) hefur sýnt í því að reyna að forða slysum, eins og hann yfirleitt hefur gert sjer alt far um að efla heilsufar og vernda þjóðina gegn manndauða og slysförum. Háttv. þm. var að tala um, að ritgerð sú. er hann ritaði um þetta efni, hefði borið lítinn árangur. og fáir veitt henni athygli, en það er ekki rjett. Jeg er sannfærður um, að lög um óryggi skipa og báta, er voru samþykt hjer á síðasta þingi, stöfuðu af hvöt frá þeirri ritgerð.

En svo samdóma sem jeg er honum um, að málið sje mikilsvert. þá er jeg ekki fullkomlega viss um, að samanburður hans við önnur lönd sje fullkomlega gildur, þegar öll atvik eru tekin til greina. Jeg hygg ósannað, að sjómenn hjer sjeu ógætnari, klaufalegri en aðrir, þó þeir farist meira. Jeg held það stafi af því, að sjór sje verri hjer við land, og hann er mikið verri hjer en innanskers í Noregi eða við Lófóten, enda hægra þar að ná í hafnir. Sjórinn hjer á veturna fyrir sunnan land er jafnframt því að vera fiskisælastur, langhættulegastur. Jeg efa, að slysfarir sjeu almennari meðal íslenzkra sjómanna en franskra eða enskra sjómanna, sem eru að veiðum á sama tíma, á sömu stöðvunum. En um það vantar okkur allar skýrslur.

En þó menn vilji rannsaka þetta, þá tel jeg, að þetta sje ekki heppilegur tími, og áhugi háttv. 6. kgk. þm. (G. Bj hafi borið hann hjer lengra en vera hefði átt. Jeg hygg betra að draga það til hentugri tíma.

Skýrslur þær, er við höfum haft, hafa ekki verið ábyggilegar. Það er fyrst í sumar, að samþykt hafa verið Iög um skýrslur um mannskaða, og að við því höfum von um að fá eftirleiðis áreiðanlegar skýrslur, og það er fyrir tilstilli háttv. í 6. kgk. þm. (G. Bj.) fyrst og fremst.

Í skýrslum þeim, er við höfum haft, hefur það komið fyrir, að menn hafa ýmist fallið burt eða verið tvítaldir, og er jeg hræddur um, að það hafi komið fyrir, að útlendingar, er hafa druknað hjer við land, hafi verið taldir í skýrslunum. Jeg man eftir því, að austur í Mýrdal ráku eitt sinn 13 lík, er voru jörðuð þar, og þau voru í skýrslunum talin meðal druknaða það ár. Tala þeirra, er hjer druknuðu, var því ofhá um þá 13. Fram úr þessu verður fyrst ráðið, er vjer fáum ábyggilegar skýrslur, og á því eigum við von eftir að hagstofan kemst á fót.

Mjer finst það því vera fljótráðið, að setja þessa milliþinganefnd nú: mjer finst það vera rjettara að láta það bíða þar til skýrslurnar eru orðnar ábyggilegri, en það geta þær ekki orðið strax. Skýrslur þær, er nefndin hafði, voru óábyggilegar.

Mjer sýnist því, að milliþinganefndin hefði ekki nema óábyggilegar staðhæfingar að byggja á, svo að það, sem hún segði, yrði meir hugmynd hennar um hvað bezt væri í þessu efni, en ábyggilegar staðhæfingar.

Af þessum ástæðum er jeg fremur mótfallinn þessari nefndarskipun, jeg álít hana ofsnemma framborna.

Jeg vildi vekja athygli flutningsm. á orðalagi tillögunnar: „Efri deild ályktar . . . .“ Þetta er ekki samkvæmt venju, og jeg álit það ekki rjett. Af milliþinganefndum stafar kostnaður, og það er siður um þingsályktunartillögur, er hafa kostnað í för með sjer, að þar standi: „Alþingi ályktar . . .“ eða með öðrum orðum, að þær sjeu samþyktar í báðum deildum.

Jeg lít því svo á, að ef þingsályktunartillaga þessi á að halda áfram, þá ætti að taka hana út af dagskrá, og flutningsm. að koma fram með breytingartillögu þessu viðvíkjandi.