13.09.1913
Sameinað þing: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Steingrímur Jónsson:

Jeg verð að segja að jeg get ekki vel skilið, hver lífsnauðsyn var fyrir hv. 1. þm, G. K., að halda þenna mikla og háværa bankafyrirlestur.

Hitt skil jeg vel, að hann notaði þenna stað og þetta tækifæri til að koma fram með ómakleg og óverðskulduð ónot til tveggja kgk. þm., um leið og hann fór með ýmislegar rangfærslur.

Hann sagði að Ed. hefði óskapast ákaflega yfir ákvæðinu um 10% ábyrgð lántakanda, en þetta eru vísvitandi rangfærslur. Deildin mintist mjög lítið á þetta atriði, og það var einmitt samþykt.

Önnur rangfærsla hans var líka jafn vitanlega framborin gegn betri vitund, að frsm. í báðum deildum hefðu mælt með frv. óbreyttu, eins og það kom frá flutnm.

Þetta var ekki rjett. Þegar þetta mál kom frá Nd., reyndi nefndin í Ed. að athuga það af ítrasta megni, og hún hafði þar góðan liðsmann, þar sem var 2. kgk. Eftir að nefndin hafði rætt málið ítarlega, varð niðurstaðan sú, að ganga inn á fyrirmælin um 10% ábyrgðina, en landssjóður ábyrgðist 90% En að öðru leyti þótti frumvarpið svo óaðgengilegt, að varla væri gerlegt að samþykkja það án breytinga. Þessvegna kom og fram breyttill. á því. Fór það svo til Nd., en hún sendi það til baka að mestu leyti eins og það var í fyrstu, en hafði þó, heldur lagað það t. d. í 10. gr.

Tveir nefndarmanna gátu þá ekki enn gengið að því, en þeir ljetu tilleiðast, mest fyrir þá sðk, að þeir álitu frv. hafa svo mikið fylgi í neðri deild, að árangurslaust væri að gera frekari breytingar á því.

Jeg var annar þeirra tveggja í nefndinni, sem breyta vildi frv., og hefur meðflutnm. minn að brtill. nú, eins og eðlilegt er, einnig orðið fyrir reiði hv. 1. þm. K.-G. Tillögur vorar voru samþ. af hv. efri deild, eins og eðlilegt var, og jeg vona einnig þær verði samþyktar hjer.

Það kann satt að vera, sem flutnm. hefur sagt, að ástæða sje til að skapa álitlega vöru á útlendan markað, en menn verða þó að gæta þess, að gera þessa nýju lánsstofnun ekki alt of óaðgengilega inn á við fyrir lántakendur. Ef bankavaxtabrjefin verða ekki útgengileg með þessu, að landssjóður ábyrgist 90% og lántakandi 100/9, þá getur það ekki verið tryggingunni að kenna, heldur hljóta orsakirnar að liggja í því, að kaupendur treysta því ekki, að lánin verði skynsamlega veitt. Jeg hygg ekki úr þessu bætt, þó að varasjóður aukist. En að fara að leggja á 2% gjald til varasjóðs í hvert skifti, sem allar sölur fara fram, yrði eftir nokkur ár sama sem að innleiða skatt, sem næmi frá 2/5 upp í 1/2%. Og því á nú endilega að fara að leggja þann skatt á fasteignirnar, til að láta hann renna í veðdeild Landsbankans? Það er svo óeðlilegt og ósanngjarnt, að það má ekki standa í lögunum. Því má ekki heldur láta þennan skatt renna í Iandssjóð?

Þá er eitt annað atriði. Að bankastjórnin megi velja um, hvort heldur hún afhendi lántakanda brjefin, eða greiði fyrir þau það verð, sem hún getur fengið fyrir þau. En þegar bankabrjefin hafa ekkert fastákveðið kauphallarverð, þá sje jeg ekki betur, en að bankinn geti tekið þau fyrir hvað sem hann vill gefa fyrir þau, og þetta atriði er mjög óviðkunnanlegt að standi í lögunum. Jeg get ekki viðurkent, að ástæðurnar sjeu á rökum bygðar.

Jeg álít varhugavert, að selja mikið af þessum brjefum í senn, þó að hægt væri. Finst, eins og hjer sje verið að ýta undir fyrir fram sölu eða spekúlation með brjefin, sem gæti orðið hættuleg. Getur verið að mjer fróðari menn hafi aðra skoðun. Mjer vitanlega er ekki hægt að selja þessi brjef út um heim, og þykist jeg hafa gert grein fyrir mínum ástæðum í því atriði.

Þar sem hv. 1. þm. G.-K. sagðist ekki geta greitt frv. í heild sinni atkvæði sitt, ef brtill. væri ekki samþyktar, þá get jeg sagt þvert á mói, að ef þær verða samþyktar, get jeg ekki greitt frv. í heild sinni atkvæði mitt. Þó mundi jeg líklega hafa gert það, ef jeg hefði haldið, að það væri bráðnauðsynlegt, til þess menn gætu fengið lán, en mjer er kunnugt um, að bankinn átti svo mikið af óseldum bankavaxtabrjefum í júnímánuði, að nægja mundi þangað til aukaþing kæmi saman. Og jeg tel það miklu hyggilegra, ef brtill. ná fram að ganga, að fresta málinu þangað til, því að frv. um þetta efni á að koma frá stjórninni.