08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

93. mál, hallærisvarnir

Bjarni Jónsson:

Eg skal ekki lengja umræðurnar, en vildi að eins mæla nokkur orð til þess — eins og margir segja — að gera grein fyrir mínu atkvæði. Eg ætla ekki að fara í gegnum sjálfan mig, eina og aumir aðrir hv. þingm. hafa gert, heldur mun eg standa við mitt atkvæði, sem eg greiddi málinu Við 2. umr.

Eg hefi aldrei embættismaður verið, en heyrt hefi eg sagt, að embættismönnum væri skylt að leggja fé í sjóð til þess að tryggja konum sínum lífsuppeldi, að þeim fráföllnum. Þetta tel eg góða reglu, sem ekki að eins embættismenn ættu að hafa, heldur líka aðrir. Ellistyrktarsjóðir eru líka stofnaðir í því skyni, að landsmenn leggi fé í þá til þess að tryggja sér framtíð sína. Og í þessu sama skyni skal þessi bjargráðasjóður stofnaður, ekki að eina til þess að tryggja mönnum yfirstandandi tíma, heldur framtíðina. Er það því hárrétt sem háttv. 1. þm. S.-MÚI. (J. Ól.) sagði, að það væri of seint að byrgja brunninn, þegar barnið væri dottið ofan í. Því þó ekki sé komið hallæri, þá getur það þó komið síðar. Skil eg ekki, að menn geti sagt það í alvöru, að ekki sé þörf á þessum sjóði, og of seint yrði að fara að stofna hann, þegar hallærið er komið. Eg ætla að hér hafi komið til umræðu sjóður einn í Eyjafirði, sem nú nemur 50–60 þús. kr. Ef fyrst hefði verið stofnað til hans nú, þá væri hann líklega minni en hann er. Segi eg þetta til þess að sýna, hve hlægilegt það er að koma fram með slíkar ástæður, að það liggi ekkert á að stofna þennan sjóð; það er engin ástæða. Því fyr sem þessi sjóður er stofnaður, því betra. Og að rangindi séu höfð í frammi við landsmenn með stofnun þessa sjóðs, þá get eg ekki fallist á það. Eg teldi það engin rangindi þó jafnvel nefskattur væri lagður á þjóðina til þess að stofna þennan sjóð, því þegar hallæri kemur, þá kemur það niður á hvern einasta mann. Það kemur hart niður á sjávarbúum, komi hallæri yfir sveitirnar og sveitamenn verði að fella fé sitt. Eg vildi biðja menn að hugsa um, hvernig kjötverðið yrði hér í Reykjavík, ef fellir yrði á fé í sveitunum. Ætli mönnum fyndist það ekki verða ærið hátt þá, þegar mönnum finst það fullhátt nú, þegar pundið kostar nú 50 aura og þar yfir.

Hallæri getur líka stafað af öðru en hafis, það getur komið af eldsumbrotum, landskjálftum og slíku. Og nýlega hefir það verið talið skylt, að landið hlypi undir bagga í slíkum tilfellum. Og yrði þessi sjóður stofnaður, þá lægi nóg fé fyrir til þessa. Og menn verða að gæta að því, að þó þessi sjóður verði stofnaður, þá er þó féð ekki tapað fyrir því. Eg gæti hugsað mér, að ef haldið verður áfram að veðsetja tekjur landssjóðs, eins og t.d. hefir verið gert við tekjurnar af símanum, ef menn fara nú að veðsetja húsaskattana og ábúðarskattana, þá get eg hugsað mér, að ekki verði mikið fé til þess að grípa til, beri hallæri að höndum. Og hvar er þá lánstraust landsins, sem menn segjast bera svo mjög fyrir brjósti? Menn byggja það þá líklega á hordauðum lambsskrokkunum einum.

Þetta skraf, að það sé að eins á Norðurlandi sem hallæri geti orðið, þá undrar mig það, að nokkur maður skuli geta látið út úr sér aðra eins fjarstæðu. Sjálfur hefi eg aldrei átt heima á Norðurlandi, en það veit eg, að þegar hallærið var árið 1882, þá var eg oft svangur og kaldur og þreyttur, þó eg ætti ekki heima á Norðurlandi. Og séð hefi eg skepnur drepast úr hor í Borgarfirði, þótt aldrei hafi þar ís komið að landi. Hafísinn hefir sömu áhrif á alt landið og þokan og rigningin, og sé enginn maturinn til, þá stoðar ekki þó allar hafnir séu auðar. Og ekki stoða peningar, ef engan matinn er hægt að fá. Og undarlegir eru þeir menn, sem ekki vilja að menn komi upp hjá sér birgðum til þess að grípa til, ef í harðbakkann slær, heldur vilja að landssjóður fari þá að leggja mönnum til fé, eins og þeir haldi að þeir peningar séu lostætari.

Og um þennan frest, svo eg komi nú að honum, þá veit enginn hvenær hallæri getur komið. Það getur komið þá og þegar, það getur komið á meðan verið er að bollaleggja, hvernig eigi að verjast því. Hvar eru bréf fyrir því að hafís komi ekki í vetur? Hvar eru bréf fyrir því að skip komist til norðurlands frá því í Marz og fram til höfuðdags? Einhver vitur maður hefir sagt hér að hægara væri að koma gufuskipum í gegnum hafís en seglskipum. En það eru engin skip, hvorki gufuskip eða seglskip, sem geta siglt í gegnum hafís. Það hefir verið sagt, að menn væru betur undir hafísinn búnir nú en áður fyr. En það er ekki rétt. Nú er enginn sá kaupstaður, sem hefir svo mikinn forða að hann þrjóti ekki, teppist. skipagöngur. En það vissi eg að hallærisrárið 1882, þá höfðu allar verzlanir á hverjum einasta firði fyrir norðan land birgt sig svo vel upp með korni, að það entist fram á sumarið, og varð þetta til þess að bjarga mönnum frá bæði skepnufelli og mannfelli. Og þegar það er nú ekki meir en hér er farið fram á, þá skil eg ekki, hvað þeir menn hafa fyrir sig að bera, sem eru á móti því. Þetta, sem er svo lítið, að það getur ekki heitið nema byrjunin ein, og eg er þess fullviss að þjóðin ekki að eins heimtar þetta, heldur líka að sjóðurinn verði aukinn og það að miklum mun. Eg vissi um það að t.d. í Dalasýslu, þar vildu menn leggja á sig nefskatt til þessa. Og verði svo sjóðurinn svo stór að ekki þurfi að nota hann allan til hallærisvarna, þá má nota hann til einhverra annara þarflegra fyrirtækja. Þessu fé verður því ekki á glæ kastað, þó svo halllæri aldrei kæmi. Guðm. Eggerz: Maður getur kannske búið til hallæri!). Nei, við hvorki viljum né getum búið til hallæri, en þeim er það skömm mikil, sem þannig tala, og verra verður það fyrir þá, þegar fólk kemur til þeirra og biður þá um að fá eitthvað að borða.

Hvað annað er verið að gera hér, en heimtað er af bændunum, að þeir setji ekki svo á á haustin að skepnur þeirra falli úr hor? Hvað er hér heimtað af landsins hálfu annað en það sem heimtað er af hverjum einstaklingi ? Og þegar einstaklingarnir duga ekki, þá á landið að duga. Og þeir menn, sem segja að þetta sé skattur, og megi ekki leggja hann á að þjóðinni fornspurðri, þeir þekkja ekki þjóðina, því heyrt hefi eg um þetta mál fjallað frá því 1882, þó það hafi ekki fram komið fyr en nú, og þó er þetta ekki nema byrjunin ein, þá er það ilt verk og óþokkað að vera á móti því. Og ekki hygg eg að háttv. 2. þm. S.-MúI. (G. E.) hljóti neitt þakklæti kjósenda sinna fyrir framkomu sína í þessu máli. Hann má vera viss um það, að hann fær ekki þökk landsmanna fyrir þetta, ekki einu sinni úr sínu eigin kjördæmi, þó að þar væru tóm kauptún. Þeir munu skilja það, eins og aðrir, að vér erum aldrei trygðir fyrir hallæri fyr en alt landið er altrygt í einu lagi, eins og hér er gert. Og það er svo langt frá því, að þetta hræði erlendar þjóðir frá viðskiftum við oss, af því,— að það bendi á að landið sé ilt, að það er einmitt þvert á móti. Því að þegar þær sjá, að hér býr þjóð með viti og fyrirhyggju, þjóð, sem sér fyrir því, að hana þurfi ekki að reka upp á sker, hvað sem á bjátar, heldur hefir hjálparmeðul, þótt atvinnuvegir hennar þrotni að einhverju leyti um stundarsakir, þá verða þær auðvitað allar þess fúsari til að lána oss fé. Hitt er ekki frambærilegt fyrir mentaða og nokkurn veginn skynbæra menn; það ætti öllum að vera skiljanlegt, ef gáfnafarið er ekki í því verra lagi. Eg hygg líka að engum detti í hug að halda slíku fram í alvöru, en það er svo oft, að hér á þingi getur að heyra ýmislegt, sem hvergi er boðlegt annarstaðar. Það er svo oft, að ef einhver sleppur hér inn á þing og þykist hafa ráð á atkvæði sínu, þá er ekki hugsað um annað, en að veifa sleggjunum, og þykjast hafinn yfir venjulegar hugsunarreglur. Ef þessir menn væru orðnir einvaldsherrar, hvað verður þá af umkvörtununum yfir ofbeldi og misbeitingu valdsins o.s.frv. Nei, hér á þessum stað eru menn skyldir til þess, að flytja fram fullgildar og rökréttar ástæður fyrir sínu máli.

Þetta var það, sem eg vildi sagt hafa, áður til atkv. væri gengið.