08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

104. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans að gefa út (serie) bankavaxtabréfa

Bjarni Jónsson:

Mér þykir verða lítið úr bænheyrslu þingsins við almenna ósk þjóðarinnar um bætur á fjárhagsástandinu, ef þetta er eina umbótin, sem þingið ætlar að gera, jafnvesöl og ill sem hún er.

Mörg eru ákvæði frumvarps þessa einkennileg. Ekki skil eg það, hví hámark lána er sett 50 þús. kr. Setjum svo, að Reykjavík setti upp rafmagnsstöð, sem koataði með húsum og áhöldum 1/2 milíón krónur; eftir ákvæði frv. mætti ekki lána meira út á þá eign en 50 þúsund krónur. Þetta er næsta furðulegt.

Sama máli er að gegna með tímann. Eg býst við, að þeim sem þurfa að taka lán til ýmissa fyrirtækja, þyki nokkuð stuttur tími 40 ár.

Þá kem eg að varasjóði, sem háttv. 1. þm. G-.K. (B Kr.) ber svo mjög fyrir brjóstinu og hann ætlast til að lántakendur einir leggi í, í fyrsta lagi með 1% af lánaupphæðinni, þegar þeir taka lánið, og í öðru lagi með 1% í hvert skifti sem veðsett eiga gengur kaupum og sölum. — Auk þess standa þeir í ábyrgð fyrir veðdeildinni með 10% af lánsupphæðinni. Og þeir standa, að því er þetta snertir, á undan landssjóði.

Hann kemur fyrst til greina, er þessum 10°/o sleppir. Það má vel vera, að þetta verði útgengileg vara í útlöndum, vegna þess hve bréfin eru krosstrygð, en það verður ekki að sama skapi álitlegt að taka lán. Það er auðvitað mikilsvert að fá góðan markað fyrir bréf vor, og það má gera trygginguna svo góða, að að hver maurapúki vilji kaupa bréfin, en með því yrði krept svo að lántakendum, að lítt væri við unandi.

Eg skal fúslega kannast við það, að bankastjórnin viti bezt um það, hvaða tryggingar menn heimta, einkum ef hún hefir samið um kaupin fyrir fram. En eg get ekki skilið, að kaupendunum sé ekki sama um, hvaðan þessi 1% kemur — heimti að það komi frá lántakendum, sem auk þess þurfa að borga 1/2% í kostnað og fá svo ekki lán nema til 35 ára, kannske út á vönduðustu steinhús, sem geta ataðið í mörg hundruð ár. Lánskjörin verða þessum mönnum svo erfið, að þeir neyðast til að setja leiguna afarhátt, ef þeir eiga ekki að flosna upp.

Eg segi þetta ekki í því skyni, að hægt sé að bæta úr þessu núna, en það er athugandi til næsta þings og ætti stjórnin þá að vera með í ráðum og vita, hvort hún fyndi ekki eitthvert ráð í pokahorninu til þess að hægt væri að menn gætu fengið peninga með brúklegum kjörum.

Þá undrar mig það, að ákveðið er í lögunum, að glatist bréf, skuli það auglýst í Ríkistíðindunum í Kaupmannahöfn. Það er eins og menn búist við, að ekki verði aðrir en danskir menn, sem kaupi þessi bréf. Því að í öðrum löndum skilja menn ekki fremur dönsku en íslenzku. Það væri þá nær að ákveða, að auglýsa skyldi í einhverju heimsblaðinu, t.d. Times. Hverjir eru það, sem lesa Ríkistíðindi aðrir en Danir. (Jón Ólafsson: Bankar). Svo bezt að þeir hafi nokkurn mann í sinni þjónustu, sem skilur það mál. Og þeir munu fáir vera.

Eg fylgi háttv. þm. N.- Ísf. (Sk. Th.) í því, að ekki verði tekið sérstakt gjald þótt eigendaskifti verði á eign. Eg hefi ekki fengið neina sönnun fyrir því, að það sé nauðsynlegt. Enda fellur það alveg blint á eignirnar, — sumar ganga kaupum og sölum því nær daglega, en sumar eru á sömu höndum í mörg ár. — Eg skil ekki, hvera vegna þeir sem þurfa að kaupa eignir, eiga fremur að borga í varasjóð en aðrir.

Annars get eg ekki skilið annað en það sé næg trygging að landssjóður ábyrgist. Eg býst við, að menn láti sér það nægja og kaupi bréfin.

Út úr vandræðum verð eg víst að greiða þessu máli atkvæði mitt og eins öllum brtill. nefndarinnar, nema þessari einu.