09.09.1913
Neðri deild: 55. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2353 í C-deild Alþingistíðinda. (2592)

116. mál, mælingar á túnum og matjurtagörðum

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Búnaðarþingið í sumar hafði til meðferðar málaleitun frá Ræktunarfélagi Norðurlands þess efnis, að Búnaðarfélagið hlutaðist til um það, að mæld væru tún og matjurtagarðar á landinu. Út af þessari málaleitun Ræktunarfélagsins samþykti svo búnaðarþingið þá tillögu, að þessu túnmælingamáli væri beint til Alþingis, með tilmælum um það, að það tæki málið að sér og komi því í framkvæmd.

Nú hefi eg í tilefni af þessari búnað arþingsályktun leyft mér að koma með tillögu til þingsályktunar, sem prentuð er á þgskj. 744 og fer fram á það, að skora á stjórnarráðið að undirbúa þetta mál fyrir næsta reglulegt Alþingi og gera tillögu um það.

Það er nú mín meining og þeirra, sem um þetta mál hafa hugsað, að þessi mæling á túnum og matjurtagörðum væri gerð á þann veg, að hún hefði í för með sér sem minstan kostnað, er auðið væri, bæði fyrir landið og þá er hlut eiga að máli. Hefir mönnum dottið í hug, að þessu yrði þannig fyrir komið, að skoðunarmenn jarðabóta framkvæmdu mælinguna um leið, eða jafnhliða því, er þeir mældu jarðabætur búnaðarfélagsmanna. Mætti því gera búnaðarfélögunum að skyldu að annast þessar mælingar, og binda landssjóðsstyrkinn til þeirra því skilyrði, að þessum mælingum á túnum og matjurtagörðum væri lokið innan ákveðinn tíma. Gæti þá komið til mála, að auka styrkinn til félaganna í notum þess, að þau annast þessar mælingar, ef svo sýndist. — Mælingamenn jarðabóta eru nú orðnir svo færir og vel að sér í sinni ment, að þeim er trúandi til þess að leysa þetta verk af hendi nokkurn veginn viðunanlega.

En þá er spurningin um það, hvernig eigi að framkvæma þessar mælingar í þeim sveitum, sem búnaðarfélög eru ekki til í, eða hjá þeim mönnum, sem ekki eru í neinu búnaðarfélagi. Þar er alt verra viðureignar. Sumum hefir dottið í hug, að fela mætti þessar mælingar þar úttektarmönnnm hreppanna. En það er ekki ætið víst, að þeir séu færir um að leysa þetta verk af hendi, svo að vel sé. Og svo er einnig spurningin um hitt, hverjir eigi að kosta mælingarnar, þar sem svo er ástatt, að ekkert búnaðarfélag er til, eða hjá þeim sem ekki eru í búnaðarfélagi.

Sanngjarnt virðist, að mælingastarfið í þessum sveitum, og hjá þeim mönnum, sem ekki eru í búnaðarfélagi, væri borgað að einhverju leyti úr landssjóði, segjum að helmingi, en að hinn helminginn — af kostnaðinum greiði þeir sem hlut eiga að máli. Landstjórnin annaðist svo um mælingarnar og gæti hún þar notið aðstoðar búnaðarsambandanna og atarfsmanna þeirra, að því er snertir framkvæmd verksins. En þá býst eg við, að þurfi lög, er heimili stjórninni allar framkvæmdir í þessu efni.

Málið horfir þá þannig við, að eigi er auðvelt, að koma þessum framkvæmdum til leiðar, nema með ráði og aðstoð landstjórnarinnar og löggjafarvaldsins. Og það er af þessum ástæðum, að tillagan er fram komin.

Þetta er nú að eins önnur hlið málsins. En þá er á hitt að líta, hvort ástæða sé til eða þörf á, að ráðast í að framkvæma mælingu þá, er tillagan nefnir. Um það geta eðlilega verið skiftar skoðanir. Vil eg þá víkja að því með fáum orðum.

Samkvæmt lögum um hagfræðisskýrslur frá 8. Nóv. 1895 3., gr., eru bændur skyldir að segja til og láta skýrslur í té, svo nákvæmar, sem kostur er á um stærð túna og sáðlands. En hvernig eru nú þessar skýrslur? Mér er óhætt að fullyrða, að þær eru meira og minna gallaðar.

Töluvert alment mun það vera, að hreppstjórarnir skrifa upp ár eftir ár sömu tölurnar að því er snertir stærð túna og matjurtagarða. Auk þess eru þessar tölur um túnastærðina og flatarmál jarðanna frá öndverðu meira og minna ágizkaðar. Að vísu sýna búnaðarskýrslurnar, að ræktaða landið hafi aukist, túnin stækkað. Það er heldur ekki neinum vafa undirorpið, að flatarmál túnanna á landinu er miklu meira núna en það var fyrir 10–20 árum. En allar þær tölur, sem tjaldað er með í þessu efni, eru veilar og meira og mínna óábyggilegar.

Sannleikurinn er sá, að allur fjöldinn af bændum veit ekki, hvað túnin þeirra eru stór. Þeir hafa aldrei vitað það, langflestir, vita það ekki enn og geta ekki vitað það fyr en þau eru mæld.

En það er ekki vegna bændanna, að hér er verið að fara fram á, að gerðar verði ráðstafanir til þess að mæla tún og matjurtagarða. Það er að vísu skemtilegt fyrir þá að fá vitneskju um slíkt, en engin brýn nauðsyn. En það er nauðsynlegt fyrir búnaðarskýrslurnar og hagfræði landsins, að skýrslur um þetta efni séu sem sannaatar og réttastar. Og því er það að mínu áliti skylda þings og stjórnar, að gera ráðstafanir til þess, að slíkar skýrslur verði framvegis sem ábyggilegastar.

Nýlega er búið að samþykkja lög um hagstofu Íslands. Samhliða þessu laganýmæli ætti þing og stjórn að stuðla að því af fremsta megni, að hagskýrslur landsins verði gleggri og ábyggilegri en þær hafa verið. Það er ekkert vit í því, að setja á fót kostnaðarsama hagstofu til þess eina, að vinna úr meira og minna röngum skýrslum og búa þar af leiðandi til vitlausar hagskýrslur. Það nær ekki neinni átt.

Tillaga mín um túnmælingarnar er nú spor í þá átt, að fá ábyggilegar skýrslur um efni það, er hún ræðir um.

Æskilegast væri, að samfara flatarmálsmæling túna og matjurtagarða yrðu um leið gerð ummálsteikning af túnum. Og ef það ekki hleypti kostnaðinum mjög mikið fram, vildi eg beina því til stjórnarinnar, að taka þetta atriði ummálsteikningarnar — með í reikninginn. Sömuleiðis væri gaman að fá það upplýst, hvað mikið væri slétt og hvað mikið þýft af hverju túni fyrir sig. Og þetta ættu túnmælingamennirnir að geta vitað nokkurn veginn án verulegs aukakostnaðar.

Vonandi tekur landsstjórnin þessu máli vel, og leggur fyrir næsta Alþingi tillögur sínar þar að lútandi. Ættu svo þessar mælingar að geta farið fram næstu árin þar á eftir og vera lokið að mineta koati fyrir árið 1920.

Áður en eg sezt niður vil eg leyfa mér að vekja athygli stjórnarinnar á því, hvort ekki væri ástæða til í sambandi við stofnun hagstofunnar, að endurskoða og sameina í eitt lagafyrirmæli, þau er lúta að hagræðisskýrslum landsins. Við höfum lög um hagfræðisskýrslur frá 8. Nóv. 1895, viðaukalög við þau frá 30. Okt. 1913 og enn fremur lög um breyting og viðauka við þessi nefndu lög, hvortveggja frá 9. Júlí 1909. Loks höfum við lög um skýrslur um alidýradýrasjúkdóma frá 26. Okt. 1905; og enn fleiri lagaboð, er lúta að hagskýrslum landsins.

Það er ekki ólíklegt, að þessi lög þurfi umbóta við á einn eður annan veg, og að það sé því ástæða til fyrir stjórnina að taka þau til rækilegrar meðferðar. Auk þess jafnan hagkvæmd að lög um svipuð efni, eða sama efni, séu sem mest í einu lagi eða í einni heild.

Að svo mæltu vænti eg þess, að tillaga mín verði samþykt.