10.09.1913
Neðri deild: 56. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í C-deild Alþingistíðinda. (2607)

118. mál, forkaupsréttur landssjóðs að jörðum um erfðafestuábúð

Tryggvi Bjarnason:

Eg vil gera örfáar athugasemdir Við ræðu háttvirts framsögumanns. Hann sagði, að það væri fjarstæða, að sala þjóðjarða og kirkjujarða hefði aukið sjálfsábúðina í landinu. Eg skil ekki, á hverju það er bygt, því þegar menn kaupa jarðirnar, gera þeir það til eigin nota, og þótt sá sem kaupir jörðina upphaflega,selji hana, þá er venjan sú, að hún er þó höfð til eiginna nota. Það er kunnugt, að jarðir á einstakra manna hönd hafa fækkað ákaflega í seinni tíð. Og orsökin er sú, að leigumáli stendur ekki í réttu hlutfalli við verð jarðanna. Verð jarðanna hefir hækkað til muna á síðari árum, en eftirgjaldið hefir staðið svo að segja í stað. Virðist því sem eignamenn sjái sér nú meiri hag í að leggja fé sitt í annað en jarðakaup. Hættan er því miklu minni en var — og eg vil segja engin — að margar jarðir hlaðist á hendur einstakra manna. Stórbændum fer fækkandi, en smábændum fjölgar. Efnahagurinn er að jafnast hjá bændum í landinu.

Eg tel engan efa á því, að sala þjóðjarða og kirkjujarða hafi flýtt fyrir ræktun þeirra. Mönnum er miklu ljúfara yfir höfuð að leggja fram fé sitt og krafta til að rækta sitt en annara. Og þó að það ætti kannske að vera mönnum jafnljúft að hafa jarðirnar bygðar með erfðafesturétti, eins og að eiga jarðirnar, þá er sá hugsunarháttur ekki enn kominn inn hjá öllum, hvað sem síðar kann að verða.

Háttv. framsögumaður (Sig. Sig.) sagði, að sala þjóðjarða og kirkjujarða hefði orðið til þess að koma af stað braski í jarðasölu og óeðlilega háu verði á jörðum, þeim sem næstar liggja Reykjavík. En verðhækkun, sú sem orðið hefir á jörðum í nánd við Reykjavík, stafar að minni hyggju af alt öðrum ástæðum. Hún stafar af aukinni framleiðslu á jörðunum og hækkandi verði afurðanna. Hér í Reykjavík er bezti markaður landsins fyrir búsafurðir, og það er ekki nema eðlilegt, að nálægustu jarðirnar hafi hækkað í verði.

Eg held að það sé mjög varúðarverð leið fyrir þingið, að stuðla að því, að landssjóði verði heimilaður forkaupsréttur allra jarða í landinu; jafnvel þó að það kunni að vera gott, að þjóðin eignist landið, þá verður að fara mjög gætilega í þeim efnum, því að hætt er við, að tilgangurinn verði misskilinn og hætt er við, að margur uni því illa, að þurfa að selja landssjóði jörð sína, ef hann hefir hugsað hana öðrum, en reyndar býst eg við, að einhver ákvæði verði sett í lögin, sem úr þessu geti bætt, t. d. lík ákvæðum, þeim sem eru í lögum um forkaupsrétt leiguliða, þannig, að landssjóður gæti því að eins notið þessa réttar, að hann vildi sæta sömu kjörum og aðrir bjóða.

Eg játa, að skamt er milli eignarréttar og erfðafestrréttar, en samt er því svo farið, að fjöldi manna telur sjálfsábúðina eðlilegasta og tryggilegasta, og eg veit, að það mundi slá óhug á margan, ef þetta yrði að lögum. Það mun vaka fyrir háttv. framaögumanni, að þetta gæti stuðlað að skifting jarða og aukinni ræktun, ef grasbýli kæmust á fót. En eg er ekki viss um, nema betra væri að byrja á annan hátt.

Ekki skal eg þó dæma um, hve hyggilegt það var, að byrja á sölu þjóðjarða, en það hefir þó áreiðanlega orðið til þess að ýta undir grasrækt og aðrar umbætur.

Ef fólki á að geta fjölgað að mun til sveita, þá verður að skifta jarðeignunum, og mér finst vel hugsanlegt, að sumum stærri jörðum mætti skifta í tvent eða jafnvel þrent, svo að meira mætti framfleyta þar en nú er gert, með aukinni grasrækt.

Eg hefði fremur getað aðhylst þá tillögu, að fresta um nokkur ár frekari sölu þjóðjarða og kirkjujarða og láta fara fram skoðun á þeim, til að rannsaka, hvort ekki megi skifta þeim sundur í fleiri jarðir, og það gerðu menn, sem hafa áhuga á jarðrækt og glögt auga fyrir ræktun og ræktunarakilyrðum, og ef það álitist tiltækilegt, væri fengin undirstaða undir þessa nýju braut, sem nú er lagt til að leggja út á, að leyfa landssjóði forkaupsrétt jarða. Lögin frá 1907, um lausamenn, búamenn og þurrabúðarmenn, hafa ekki náð tilgangi einum um aukna grasrækt. Lóð, sú sem þar er ákveðin handa þurrabúðarmönnum, er of litil. Hversu vel sem hún er ræktuð, þarf notandinn þó að leita sér annarar aðalatvinnu, því framleiðsla af jafnlítilli lóð og þar er ákveðin, getur aldrei orðið nema litill stuðningur til að framfleyta fjölskyldu, aðalatvinnan verður að vera alt annað. En öðru máli er að gegna, ef stórri jörð væri skift og hún síðan vel ræktuð; þá mætti þar framfleyta fleiri búpeningi en nú er; þannig mætti framfleyta 2–3 fjölskyldum, og það jafnvel eina stórum og nú eru á sömu jörð óskiftri, og það eingöngu á landbúnaðinum, ef landrými er allgott. Smábýlin verða að vera svo, að minsta kosti upp til sveita, að ábúandinn geti lifað af þeim eingöngu. En ef auka-atvinnu þarf að leita, verður bóndinn að yfirgefa heimilið tímum saman og leita sér annarstaðar atvinnu. En það mundi gefast illa, því að þá mundi lítið verða um jarðabæturnar, en stundum reynist það alls ómögulegt að fara að heiman, vegna fjárhirðingar og fleiri anna.

Eg get því ekki aðhylst þessa tillögu, en skoðunarmál er hitt, hvort ekki mætti fresta sölu þjóðjarða og kirkjujarða um nokkur ár, til að rannsaka þetta nánara, hvort ekki væri tiltækilegt að skifta sumum þeirra í sundur, en þessa nýju stefnu tel eg ógerning að hefja undirbúningslaust og að eg hygg þvert ofan í vilja mikils meir íhluta þjóðarinnar.