11.09.1913
Neðri deild: 57. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í C-deild Alþingistíðinda. (2623)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Ráðherrann (H. H.):

Það er rétt hermt hjá háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.), að landlæknirinn hafði það eftir franska ræðismanninum, að hann gerði sig ánægðan með ákvæði það, sem er á þgskj. 792.

En, eins og eg hefi tekið fram, dugar ekki að líta á það, hvað einn einstakur maður telur nægja sér og sínu heimili.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) sagði, að það væri ekki um mikla undanþágu að ræða, ef tillaga háttv. 1. þm. S-MúI. (J. Ól.) er tekin. Það ef svo hvert mál sem það er virt. Drjúgur sopi er 800 pottar handa einum einhleypum manni. Aftur í móti getur verið, að þessi pottatala af öli eða rauðvíni nægi ekki fyrir mann, sem hefir 10–20 manns í heimili og mikinn gestagang.

Alveg einlæglega verð eg að segja, að eg álít það hættulegra fyrir bannlögin að ganga inn á þessa greinargjörð á saklausum og sterkari víntegundum, heldur en að segja í eitt skifti fyrir öll: þessir menn skulu undanþegnir banninu fyrir sínar heimilisþarfir. Það geta vel komið hingað menn með öðrum smekk en þeir sendiræðismenn, sem nú eru hér. Það væri í meira lagi afkáralegt að þurfa að hlaupa til þingeins í hvert skifti til að fá undanþágur eftir smekk og heimilisþörfum hvers einstaks.