23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (287)

75. mál, landssjóður leggi Landsbankanum til 100 þúsund

Valtýr Guðmundsson:

Eg ætla að eins að gera fáeinar athugasemdir. Háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) tók það fram, að ekki Væri nægilega athuguð hlið landssjóðs í nál. Við því er það að segja, að nefndin gat ekki athugað þá hlið sem skyldi, svona á miðjum þingtímanum, áður en búið er að athuga fjárlögin. Nefndin hefir að eins getað stuðst við líkur, sem virðast benda á, að landssjóður muni hafa ráð á þessum fjárútlátum, en þó þær líkur hefðu ekki verið fyrir hendi, er þörfin samt svo knýjandi, að landssjóður verður undir öllum kringumstæðum að leggja Landsbankanum fé.

Ástandið er þannig, að ef bankinn á að snara út þessum 100 þús kr. á ári, verður hann að brúka til þess hér um bil alt fé, sem inn kemur úr lánum, og getur ekki lánað neitt út. Verður bankinn þá alveg að hætta útlánum og þá býst eg við að komi kurr. Það er nokkuð dýrt að halda bankalið upp á 62 þús. kr. á ári til þess að stýra banka, sem ekki getur lánað neinum neitt.

Ef Landsbankinn hættir útlánum, yrði það auk þess til að skapa bankaeinokun í landinu, þar sem Íslandsbanki yrði þá algerlega einvaldur. Að hinu leytinu hafa menn reynsluna fyrir því, að Íslandsbanki snýr sér aðallega að stórlánum, en lánar helzt ekki út á fasteignarveð.

Nauðsynin er svo knýjandi, að einhver ráð verður að finna. Hugsanlegt er að hægt sé að fara aðra leið, en eg held að sú leið, sem hefir verið bent á, sé þægilegust fyrir landssjóð.

Út af fyrirspurn háttv. 1. þm. S.-Þing. (P. J.) vildi eg geta þess, að eg skoða að þetta lán sé veitt Landsbankanum, sem eins konar veltufé. Raunar er sanngjarnt, að bankinn borgi vexti af því, en í næstu 20 árin mætti þó máske láta hann sleppa við það, meðan hann verður að greiða vexti til lánveitenda í útlöndum. Mér finst eðlilegast að landssjóður láti bankann hafa þetta fé vaxtalaust í 20 ár, en að þeim tíma liðnum svari bankinn landssjóði vöxtum.

Það er að líta á hag landssjóðs, að koma í veg fyrir bankaeinokun í landinu og að koma í veg fyrir að Landsbankinn hætti störfum sínum og að koma í veg fyrir að þróun, sú sem er á góðri bratut nú, stöðvist.

“Statsakonomiskt„ séð hefir landssjóður töluverðan hag af því að bankinn haldi áfram og geti stutt framfarir í landinu.

Eg geri ráð fyrir að auknar tekjur landssjóðs af þróun atvinnuveganna geti með tímanum vel numið eins miklu og það fé er, sem hér er um að ræða.

Umboðsm. hv. ráðh. (Kl. J.) hélt því fram, að ef um hættu væri að ræða fyrir Landsbankann, gæti hann tekið lán. En það er einmitt þetta, að á næsta ári á bankinn að byrja að greiða afborganir af 2 milíóna króna láninu, sem tekið var 1909, og þaðan stafar hættan. Bankinn fær ekki öllu meiri innborganir en þetta. Ef ekki er að gert, þykir mér betra að leggja bankann alveg niður, svo mikill sem reksturskostnaður hans er. En eins og fjárhag landsins er nú háttað, sýnist ekki vera nein hætta fyrir landssjóð að hlaupa undir bagga með bankanum. Eins og háttv. umboðsmaður ráðherra (Kl. J.) tók fram, gefur vörutollurinn landssjóði líklega meiri tekjur en áætlað er í fjárlagafrv. Auk þess mætti líka afla landssjóði meiri tekna með stimpillögum eða t. d. með því að afnema bannlögin, eins og háttv, umboðsmaður ráðherra (Kl. J.) líka tók fram.