28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (347)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Flutningsmaður (L. H. Bjarnason):

Hæstv. ráðherra taldi það fullvíst, að staðfesting hefði ekki fengist. Það hefir verið sagt um mig, að eg væri stundum óspar á fullyrðingar. Eg skal ekki dæma um það, en það finst mér, að ekki sé háttv. ráðherra sparari á þær, hvorki nú né fyr. Þegar bræðingurinn sæli var á ferðinni, taldi hæstv. ráðherra t.d. fullvíst, að hann gengi fram. Það hefir nú sést, hvað varð af því. Mundi ekki áviðlíka hafa farið geta um synjunarfullyrðinguna, ef hann hefði gert skyldu sína í tíma.

Enginn sakar nokkurn ráðherra fyrir það, þótt hann komi ekki fram öllum málum hjá konungi. En ráðherra verður að leita staðfestingar á öllum þingfrumvörpum. Og hvað sem staðfestingu þessara umræddu laga leið, þá átti hæstv. ráðherra að gera hreint fyrir sinum dyrum. En það hefir hann ekki gert. Hann kannast við, að hann hafi ekki borið frumvarpið upp við konung til Staðfestingar. Háttv. ráðherra kvaðst hafa orðið að taka ályktun um meðferð lotterífrumv. upp á eindæmi sitt, en það er ekki rétt. Hann gat leitað ráða hjá stjórnum þeirra flokka, sem hann studdist við, og átti að gera það. Og hann gat ennfremur og átti sérstaklega að leita ráða hjá Desemberþinginu svokallaða. Fundurinn atóð í 2 daga og því nægur tími og ærin hvöt til að leita álíta hans um jafnþýðingarmikið mál. Vegna þessa einræðis ráðherra verður deildin nú að taka fram í, enda var háttv. ráðherra svo ljúfur að játa því, að þingið mætti dæma þessar gjörðir sínar sem aðrar eftir á. Slíks dóms er nú óskað og einskis annars. Það var því minni ástæða til að heykjast strax fyrir bréfi Bülows, sem það hótar engri staðfestingarsynjun, segir að eins að lögin komi í bága Við dönsk lög. Það því síður sem hæstv. ráðherra hafði fyrir sér prentaða dóma hæstaréttar, sem studdu málstað vorn kröftuglega.

Hæstv. ráðherra heldur því enn fram, að hann hann hafi frestað uppburði frumv. til vors vegna vonar um, að úr rættist um málið, en þessu getur enginn trúað, sem trúir því ekki, að 3 menn hafi tekið sig saman um að skrökva upp á ráðherra, enda kemur þetta beint í bág við margendurtekna fullyrðingu ráðherra um staðfestingar-vonleysi.

Hæstv. ráðherra neitaði því líka, að leyfisbeiðendur hafi leitað álits síns 1912, nema Sighvatur Bjarnason bankastjóri. Sé það satt, hefir verið skrökvað að mér, en því á eg bágt með að trúa, enda nægði að einn leitaði hans. Annars sannfærðist eg af sögusögn þeirra 3 manna, er höfðu tal af ráðherra í Khöfn, og svo af gagnstæðri sögusögn S. B. um það, að ráðherra hefði hér ekki “hreint mjöl í pokanum„.

Háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) hóf mál eitt með því að þykjast standa utan flokka. En hvað er að vera utan flokka? Mér er sagt, að hann mæti á stjórnarflokksfundum og greiði þar atkvæði. Hann sagði, að þessi rökstudda dagskrá myndi eiga að koma ráðherranum frá völdum, og óttaðist mjög eftirköstin, hvort sem það nú hefir verið af persónulegum ástæðum eða ekki; en hann getur nú verið öldungis rólegur, því að hæstv. ráðherra er búinn að lýsa yfir því, að hann fari ekki. Háttv. þm. spyr, hver sé meiningin með dagskránni, og svaraði þó spurningunni sjálfur með því að segja, að hún væri í rauninni vantraustyfirlýsing, sem hún og vitanlega er, enda þó að meiningin með henni sé aðallega nú, að verja þingið fyrir hættulegu fordæmi. Eg skal ekki blanda öðrum málum inn í umræðurnar um dagskrána, en geta verður þó þess, að meðferð deildarinnar á nokkrum mikilvægum stjórnarfrumv. bendir á, að hæstv. ráðherra hafi ekki það fylgi, sem þingræðisráðherra ætti að hafa og verður að hafa. Aðalmeining mín með dagskránni var þó sem sagt sú, að verja þingið þeirri hættu og þjóðina því slysi, að ráðherra gerðist eftirleiðis svo ráðríkur, að ráða því sjálfur, hver mál hann ber upp fyrir konung og hver ekki.

Þá gat háttv. þm. þess, að hann hefði þegar í fyrra óttast, að frumv. mundi stranda, og bætti því við, að hann hefði aðvarað nefndina. Seinni hluti þessarar setningar er tilhæfulaus, eins og öll nefndin veit. Um sálarbeig hans veit eg aftur á móti ekki, en hitt veit eg, að hann greiddi því atkvæði fyrirvaralaust.