28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (355)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Lárus H. Bjarnason:

Hv. ráðherra fann að því, að fjárlaganefndin hefir dregið út af fjáraukalögunum 60 þús. kr. til pósthússgerðar, og fært þá fjárveiting yfir á fjárlögin.

Nefndinni skildist svo, að húsið ætti að vísu að byggja sem fyrst, en þó ekki svo bráðlega, að verulega yrði unnið að byggingunni á þessu ári, enda var naumast hægt að gera ráð fyrir því eftir tillögunni, sem fyrir lá. Henni fylgdi t. d. engin kostnaðaráætlun. Nefndin hefir átt tal við póstmeistarann og símastjórann. Póstmeistarinn hafði ekki aðrar skýrslur að þessu lútandi, en það sem komst fyrir á dálitlum pappírslappa. Teikningin var mjög ófullkomin, vantaði t.d. alveg gegnumskurð. Báðir, póstmeistarinn og símastjórinn, telja heppilegast, að hvor búi að sínu, að fullur aðskilnaður sé gerður á pósthúsinu og símastöðinni. Annar vill jafnvel að húsin standi sitt á hvorum stað.

Þetta, í sambandi við það, að ólíklegt er að hægt verði að vinna að byggingunni á þessu ári, vegna þess að haust er í nánd, hefir valdið því að fjárlagar nefndin leggur til að fjárveitingin verði dregin út við þessa umræðu. Það er ekki sagt, að svo verði gert við 3. umræðu, heldur má fremur búast við því, að hún verði þá tekin upp aftur að einhverju leyti eftir frekari samfundi við póstmeistara og símastjóra. Þessu vænti eg að hæstv. ráðherra uni.

Við víkjandi Vífilsstaðahælinu skal eg taka það fram, að nefndin dró fjárveitinguna út, vegna þess að hún hélt, að það gæti yfirleitt notað sama verkfærið og háskólinn. Röntgensáhaldið mun vera notað til tvenns, til skoðunar og til lækninga. Háskólaáhaldið ætti hælið að geta notað til skoðunar, því að flestir sjúklingar, sem á hælið fara, eiga leið um Reykjavík. Hitt er auðvitað ekki kleift, að flytja sjúklingana hingað til lækninga. Þetta lá ekki ljóst fyrir nefndinni fyrst, en síðan hefir henni komið saman um að leggja til, að tilsvarandi upphæð verði veitt hælinu á fjárlögunum, án þess þó að binda fjárhæðina við kaupin á þessu áhaldi. Og það er meðfram af því, að nefndin vill halda fram, að Vífilsstaðahælið sé landsstjórninni óviðkomandi, enda má hælinu á sama standa, með hvaða orðum féð er veitt.

Um prestaskólahúsið er það að segja, að nefndin var á þeirri skoðun, að miklu meira væri hægt að fá fyrir húsið, þegar hafnargerðinni væri lokið. Það má telja vafalaust, að húsið, sem stendur á jafngóðum stað, muni þá hækka mikið í verði. Auk þess er skólinn notaður nú í landsstjórnarinar þjónustu, bæði fyrir póst og annað. Ef bygt væri sæmilega yfir annaðhvort, mætti eflaust koma prestaskólanum í sæmilegt verð.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Sfjk. (V. (G.) sagði um frú Valgerði, skal eg geta þess, að mér er að vísu ekkert kappsmál um þessa litlu fjárhæð, en álit þó rétt að hún fái að standa eitt skifti fyrir öll, með því líka að nefnd ekkja mun eigi hafa notið styrks annarstaðar að fyr en nú upp á síðkastið, enda ekkja þjóðnýta manns. Háttv. þm. þarf þá ekki að óttast neitt ilt fordæmi í þessu efni.

Viðvíkjandi því sem sami þm. sagði um kostnaðinn við Desemberfundinn, vil eg fyrst geta þess, að eg bjóst satt að segja við, að hann mundi tala betur um jafn útásetningavert fjárframlag, og þar næst vísa þeirri ásökun á bug að fjárlaganefndin hafi ekki fundið að þessu. Nefndin segir um 6. gr.:

“Nefndinni þykir ástæða til að brýna það fyrir stjórninni, út af 49. líð og fleirum atriðum, að fara mjög varlega í greiðslur úr landssjóði, sem eigi er fyrirfram gefin heimild fyrir„.

Þessi athugasemd á sérstaklega við Desemberfundinn. Hún var orðuð við 49. lið af því að hann varð fyr fyrir nefndinni í frumvarpinu.

Við endurskoðunarmenn landsreikninganna höfum rækilega brýnt það fyrir stjórninni, að hún væri mjög varkár í þessu efni og legði ekki í útgjöld nema að bráðnauðsynleg væri, enda getur hún útvegað sér lögformlega heimild til að taka fé utan fjárlaga, beri brýna nauðsyn óvænt að, sem sé með bráðabirgðafjáraukalögum. Ef sá siður kæmist á, mundi stjórnin verða varkárari í að leggja út óveitt fé úr landssjóðnum. En það sem fyrir mér vakti aðallega um Desemberfundarkostnaðinn, var það sem hæstv. ráðherra (H. H.) sagði, að ef fjárframlagið yrði strykað út af fjáraukalögunum, þá yrði það að takast úr hans eigin vasa. Eg vildi ekki verða til þess, alveg fyrirvaralaust, úr því að þingið hefir liðið fyrverandi stjórnendum hingað til að taka óveittar fjárhæðir úr landssjóði átölulaust eða átölulítið. Eg verð eftir atvikum að álíta það nauðsynlegt að stjórnin sé alvarlega ámint, áður en til þess konar ráðstafana væri gripið. Nú er slík áminning gefin, svo að hér eftir getur þingið tekið harðara á óveittum, algerlega nauðsynjalausum greiðslum.