29.07.1913
Neðri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í C-deild Alþingistíðinda. (373)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það hefir verið sagt, að ef frumv. gengi fram, þá gæti stjórnin haft löghald á öllum verðbréfunum, sem þar með losnuðu úr böndum, og þá væri munurinn enginn. Jú, munurinn er sá, að stjórnin getur leyft bankanum að setja þau sem tryggingu fyrir skyndilánum, sem hann kynni að þurfa að taka meðan á sumarviðskiftunum stendur. Þetta er aðalatriðið.

Eg skil ekki, hvernig háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) fer að kalla þetta þrotabúsyfiryfirlýsingu frá bankanum. Mér sýniat það miklu fremur búmannleg yfirlýsing. Hún sýnir, að bankinn getur borgað út alt sparisjóðsféð án þess að þurfa að hafa lögbundin verðbréf til þess. Íslandsbanki, sem er prívatbanki, sótti um að fá að hafa sparisjóð. Honum var synjað um leyfið. Hann setti samt á stofn aparisjóðinn, einungis undir öðru nafni. Sparisjóðabækurnar eru þar kallaðar innlánsbækur. Þar hvílir engin lögkvöð á. Það er einungis Landsbankinn, sem þó er eins öruggur banki, sem fyrir því verður. Það er því alveg ástæðulaust, sem háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) Sagði, að bankinn yrði gerður að ósjálfbjarga aumingja, ef frumv. yrði að lögum. Það er þvert á móti. Bankinn býst Við að greiða út sparisjóðsféð sjálfur, en ábyrgð landssjóðs á einungis að varna því, að hræðsla geti gripið almenning, svo hann taki fé sitt út úr bankanum. Eg get skilið, að bankastjórar Íslandsbanka séu þessu ekki hlyntir, en, að því leyti sem þeir eru þingmenn, ættu þeir að vera það.

Háttv. þm. S.-Þing. (B. J.) sagði, að kostnaðurinn við rekstur bankans hefði aukist síðan 1909, en hitt Var honum ekki kunnugt, að störf hans hefðu aukist síðan. Þetta lýsir engu öðru en því, að háttv. þm. veit ekkert um það, hvað bankinn hefir að starfa. Hann ætti að verja einum 3–4 dögum eftir þingið til þess að kynna sér það, og þá mundi hann komast að raun um, að jafnmikið verk er naumast leyst af hendi í nokkurri annari stofnun á þessu landi, nema ef vera skyldi í Íslandsbanka, því að þar er líka mikið að gera.

Eg sé ekki annað en að frumv. miði til þess að efla traust manna á bankanum, svo þeir vildu heldur eiga fé sitt í honum, en nokkurs staðar annarstaðar.

Ef menn vilja ekki styðja frumv. fyrir það, að þeir beri svo mikla umhyggju fyrir því, að innieign manna í sparisjóðnum séu trygð, því er þá ekki sama trygging heimtuð af Íslandsbanka? En það er ekkert annað en grýla, að Landsbankinn sé á nokkurn hátt að barma sér. Eins og eg tók fram áðan, er það ekki tilgangurinn að selja verðbréfin, heldur að eins að hafa leyfi til að taka lán út á þau um sumartímann, þegar mest þörf er á peningum. Lánin yrðu svo leyst inn aftur að haustinu.