05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (542)

50. mál, vegir

Bjarni Jónsson:

Eg er alveg hissa á háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) Þótt hann véfengi alla skapaða hluti, þá ætti hann ekki að véfengja fyrverandi velvild mína til Grundarbrautarinnar, því að henni var eg þó meðmæltur.

Eg sagði ekki, að hér væri alveg eins ástatt og með hana, en hitt álit eg, að ekki sé meiri ástæða til að landssjóður kosti þann veg en þennan. Hafnarfjarðarvegurinn liggur milli sýslna, en Grundarbrautin innan hrepps. Hitt gerir ekkert til, hvort vegur liggur frá sjó, eða með sjó. Eg hugsa, að bæði háttv. þm. og aðrir kunni betur við að hafa veg t. d. yfir Öxnadalsheiði, og þar er þó sjór beggja megin — nema þeir vildu fara út fyrir öll nes, en það er eg hræddur um að ekki mundi borga sig. Eg veit að vísu ekki nú í hug löggjafanna, sem sömdu vegalögin, en eg hugsa, að þeir hafi ætlast til, að flutningabrautir yrðu lagðar, þar sem einhverjir flutningar eru, en ekki alveg út í loftið. Og um engan veg á þessu landi eru meiri flutningar en þann sem hér um ræðir. Eg er mintur á það af háttv. sessunaut mínum, að það eru ekki Reykvíkingar einir og Hafnfirðingar, sem ríða þennan veg, heldur menn austan, vestan og jafnvel norðan af landi, sem koma hingað til sjósóknar og verzla í Hafnarfirði. Og mér gæti jafnvel dottið í hug að þingmenn norðan úr landi gætu haft gaman af að bregða sér héðan þangað í bifreið, og væri þá ilt ef þeir hálsbrotnuðu af því að brautin væri of mjó. Háttv. 1. þingm. Eyf. ætti að minnast á inn makalausa kærleik minn til Grundarbrautarinnar — þar sem bifreiðin hans Magnúsar á Grund situr kannske föst enn þá — og reyna að vera svolítið góður við dilkinn minn í staðinn. Það er nú reyndar að villa heimildir á þessari viðaukatillögu að kalla hana dilk, því að eg hefi borið það fram áður, að þessi vegur yrði tekinn í þjóðvegatölu, og þá var ærin ekki fædd. Hér er ekki að tala um flutningabraut, heldur að eins akfæran þjóðveg og á honum er full þörf, því að umferðin er griðarmikil og þetta er styzta og bezta leiðin milli Suður- og Norður lands. Hitt verða menn að halda mér til góða, þótt eg geti ekki sannað, að þar sé mikil vagnaumferð nú. Eg var einmitt að biðja um vagnveg, til þess að þær gætu tekist.

Eg vona því, að þessi dilkur verði látinn lifa.