05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (576)

96. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans

Sigurður Sigurðsson:

Út af ummælum háttv. 1. þm. S.-MúI. (J. Ól.), þar sem hann vildi segja, að eg hefði farið með rangt mál, er eg gat þess, að hærra væri lánað út á hús í kaupstöðum en jarðir, skal eg geta þess, að það má vel vera að þess gæti ekki, þegar miðað er við virðingarnar eða skjölin, eins og þau liggja fyrir bankastjórninni. En þess ber að gæta, að virðingar á húsum eru tiltölulega mikið hæri í kaupstöðum en á jörðum að jafnaði, svo að í raun og veru er lánað hærra út á þau. Þetta fullyrði eg og get fært sönnur á það, ef þörf gerist. Það er orðið hljóðbært, enda alveg rétt, að virðingar á húsum, sérstaklega hér í Reykjavík og inum öðrum kaupstöðum landsins, eru að eg ekki segi bandvitlausar, þá miklu hærri .en góðu hófi gegnir. Aftur á móti mun það sjaldan koma fyrir, að jarðir séu virtar hærra en sanngjarnt er Þótt það geti komið fyrir, að eftirgjaldið samsvari ekki virðingunni og að hún nemi mestu eða sé hærri að tiltölu við það, þá getur það verið af því, að eftirgjaldið styðjist við gamla samninga. Það er nefnilega alkunnugt, að leigumálar á jörð eru þeir sömu um langt áraskeið.

Eg skal geta þess út af ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (B. gr.), að mér finst ástæða til að þetta mál sé sett í nefnd, því að eg vil í engu eiga undir yfirlýsingum og lögskýringum hans hér í deildinni. Það stendur kannske í þingtíðindunum, hver meiningin eigi að vera — en það eru engin lög.

Þar sem háttv. þingmaður var að tala um tortrygni af minni hálfu til bankastjórnarinnar, þá er langt frá að eg hafi gefið nokkuð slíkt í skyn. Ann að mál er það, að maður á alt af að vera tortrygginn gagnvart þeim, sem fara með mikil völd og peninga. Og þess er eg fullviss, að hefði þjóðin alt af staðið vel á verði í þessu efni, þá hefði margt farið öðruvís en raun hefir orðið á. Viðvíkjandi þeim kala, sem hann var að tala um að eg bæri til bankans, þá er það sagt alveg út í bláinn, rakalaust. Það eru ekki annað en getsakir. Þetta er í fyrsta sinni nú á þinginu, sem eg hefi tekið til máls í bankafrumvörpum flutningamanna. Og þótt eg geti ekki fallist á þetta frumv., sé eg ekki að það þurfi að bera vott um nokkurn kala. Þessi orð háttv. þm. falla því dauð og marklaus.

Eg kannast við að eg er ekki bankafróður maður, og hefði kannske gott af að ganga í skóla til einhvers til þess að fræðast um þau mál. En hvort heppilegast væri að fara til háttv. 1. þingm. G.-K, læt eg alveg ósagt.