07.07.1913
Neðri deild: 5. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (61)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Valtýr Guðmundsson:

Það er aðallega eitt atriði úr frumv., sem eg ætlaði að athuga, og í sambandi við það önnur frumv. frá stjórninni. Mér virðist þau vera óhæfilega undirbúin. Það er er engin leiðbeining um, hver áhrif þau geti haft á fjárhaginn; sömuleiðis ónógar skýringar.

Það er óhæfur ósiður, sem virðist vera orðin tízka í stjórnarráðinu, að vísa í skjöl, sem þingmenn eigi hafa aðgang að. Þannig var á síðasta þingi í mörgum frvv. vísað til athugasemdanna við kolaeinokunarfrv., sem alls ekki var lagt fyrir þingið, og nú er í hreppstjóra launafrv. vísað til álits skattanefndar, sem skipuð Var 1907, en af því er ómögulegt að sjá, hvort hreppstjórar eigi að fá hærri eða lægri laun en áður, eða yfrleitt, hver áhrif breytingin hafi. Eins er í tekjuskattsfrv. Vísað til álits sömu skattanefndar, sem ekki er í nema sumra manna höndum.

Þetta er algerlega ónógur undirbúningur, og það er skylda stjórnarinnar að ráða bót á þessu.

Enn fremur vantar algerlega samanburð Við embættismenn annara landa. Þar sem vér viljum teljast til siðmenningar-þjóðanna, er ekki nema eðlilegt, að vér einnig berum okkur saman við þær.

Aðeins fyrir landsbókasafnafrv. hefir verið gerð nægileg grein, en þar eru skýringarnar líka eftir landsbókavörð sjálfan.

Það er skylda þeirra, sem fara fram á launahækkun, ekki að láta sér nægja að senda nefnd til stjórnarinnar með munnleg skilaboð, heldur að semja rækilega skýrslu um, hvers vegna farið er fram á launahækkunina. Í öðrum löndum er það altaf siður, að stjórnin byggi frumv. sín á þess konar skýrslum. Enn fremur er það siður í öðrum löndum, t. d. í Danmörku, að stjórnin leitar upplýsinga um, hverjar aukatekjur embættismenn hafi, og eru allir skyldir að gefa upp aukatekjur sínar.

Hér á landi hafa margir embættismenn talsverðar aukatekjur og verður að taka tillit til þess.

Eins og síðasti ræðumaður tók fram, hefir landritari verið í öllum milliþinganefndum, og virðist það bera vott um, að starf hans sé ekki svo mikið, að hann hafi eigi tóm til að gefa sig að öðrum störfum. Það er auk þessa óheppilegt, að hjálparmaður stjórnarinnar sé í þess konar nefndum, þar sem hann síðar meir á að aðstoða stjórnina við að dæma um nefndarálitin, en til þess er hann orðinn óhæfur, þegar hann er þegar búinn að taka afstöðu í nefndinni, og því ekki lengur óhlutdrægur dómari um tillögur hennar.

Þær litlu upplýsingar, sem stjórnin hefir gefið, eru svo ófullkomnar, að það liggur við að þær séu beint villandi.

Þannig er t.d. taflan, er á að sýna launahækkunina 1. Jan. 1914 eftir frv. Þar er sagt að alls muni launin hækka um 10.000 kr., og verður eigi séð, að það sé sett til annars en að slá ryki í augun á mönnum. Það dugir ekki að sýna einungis, hver launin verða 1914, heldur hver þau verða þegar allir eru komnir á hæstu laun.

Það hefir verið farið fram á að hækka laun byskups um 1500 kr, sömuleiðis laun landritara og forstjóra landsyfirréttarins um sömu upphæð. Skrifttofustjórarnir fá 1200 kr. launahækkun, en dómarar landsyfirréttarins um 1500 kr. og háyfirdómarinn um 1700 kr. Póstmeistarinn fær 1000 kr. launaviðbót og landsímastjóri 1500 kr. Þótt landsímastjóri nú hafi 5000 kr. laun, þá eru 1500 kr. af þeim persónuleg launaviðbót, sem ekki kemur þessu máli við. Svo á að lokum verkfræðingur landsins að fá 5000 kr. í laun, og laun hans því að hækka um 2000 kr., auk þess sem hann á að verða konunglegur embættismaður og koma þá í viðbót eftirlaun handa honum.

Hækkunin á rektorslaununum og yfirkennaralaununum sýna ágætlega undirbúninginn á þessu lagafrumv. og hve rækilega það er hugsað.

Ef yfirkennari sækir um rektorsstöðuna, á hann að missa við það 1000 kr. tekjur. (Ráðherra: Þetta er misskilningur). Nei, byrjunarlaun rektora eru 1000 krónum lægri en hæstu laun yfirkennara, þar sem hæstu laun yfirkennara eiga að verða 4200 kr., en byrjunarlaun rektors 3200 kr. Því þótt rektor fái frítt húsnæði að auki, munar það ekki svo miklu. En þetta er í mesta máta óréttlátt, því að rektor á þó að repræsentera stofnunina og hlýtur risnuskylda hans að valda töluverðum útgjöldum, ef hann stendur nokkurn Veginn sómasamlega í stöðu sinni.

Þegar miðað er Við hæstu laun, er útgjaldaaukinn eftir þessu frumv. einu ekki 10.600 kr., eins og stjórnin virðist vilja láta mönnum sýnast, heldur 22,200 kr., og sé launahækkun inna annarra frumv. tekin með og stofnun nýrra embætta, þá nemur þetta alls 42,300 kr. eða vöxtum af rúmlega einni millión króna.

Stjórnin hefir ekkert skýrt frá, hvaðan eða á hvaða hátt eigi að útvega tekjur til þessara útgjalda. Það þarf þó að hugsa um að auka tekjurnar að sama skapi sem útgjöldin eru aukin, ef fé á að vera fyrir hendi til að standast þau.

Það mun heldur ekki verða vanþörf á enn meiri peningum til launahækkunar; eða heldur in háttv. stjórn, að þegar laun þessara embættismanna eru hækkuð, að þá muni ekki aðrir embættismenn koma á eftir með beiðnir um launahækkun ? Mér finst ekkert eðlilegra, enda verð eg að játa, að laun embættismanna margra eru óhæfilega lág. Stjórnin hefði því átt að semja yfirlit yfir, hver áhrif almenn launahækkun hefði og hvernig ætti að útvega fé til hennar.

Eg verð að játa, að peningar hafa lækkað mjög í verði og vörur hækkað síðan 1875 að launalögin voru samin, og að laun, sem þá voru fullboðleg, eru nú alveg ónóg.

Eg er því alls ekki á móti launahækkun, þvert á móti, en mér virðist undirbúningur málsins vera algerlega ófullnægjandi. Eg er alls eigi í þeirra tölu, sem vilja að embættismenn landsins lifi við sultarlaun. En eg vil að um leið og laun þeirra eru hækkuð, sé tekið til yfirvegunar, hvort ekki megi þá um leið fækka þeim eitthvað. En þetta hefir stjórnin algerlega vanrækt.

Það mun vera rétt, sem hæstv. ráðh. (H. H.) tók fram, að almenningur hafi ýmugust á embættismannastéttinni, og og kemur það af því, að almenningur kann ekki að meta tekjur sínar til peninga og heldur því að embættismennirnir fái alt of mikið.

Vildi eg að stjórnin rannsakaði, hvort í ekki væri hægt að fækka embættis mönnunum eitthvað.

Það er óholt fyrir þjóðfélagið að veita embættismönnum sínum sultarlaun, en það er engu síður óholt að þeir séu of margir, svo að þeir hafi svo lítil störf, að þeir þurfi að vera á einlægum snöpum eftir öðrum störfum í viðbót.

Eg álít ekki mikla von um að launahækkunin komist nú á, en málið ætti að verða rætt og undirbúningurinn að verða betri.

En málið ætti að vera svo vel sett fram fyrir þingið, að það þyrfti ekki að vinna sem skrifstofuþjónar hjá stjórninni.