06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í C-deild Alþingistíðinda. (613)

57. mál, girðingar

Eggert Pálsson:

Eg skal ekki fara að deila við háttv. þm. Dal. (B. J.) um það, hvort beri heldur að nota orðið stiku eða metra í þessu frumv. Við höfum ázt við um það í nefndinni, og læt eg fyrir mitt leyti þar við sitja, enda hefir áður verið kveðinn upp dómur af þinginu um notkun þeirra orða, og býst eg við, að dómurinn sem verður kveðinn upp hér í deildinni í því máli, verði sami og áður.

Eg get ekki annað en verið ósamþykkur háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), þar sem hann heldur fram, að 8. gr. í frv. sé betri en það, sem nefndin hefir lagt til. Hann hélt því fram, að rétt væri að menn yrðu skyldaðir til að girða alt heimaland sitt, haga jafnt sem annað, en nefndin hefir eigi gengið lengra en að leggja til að það mætti skylda menn til að girða á móti, þar sem um tún og engjar væri að ræða.

Eg verð að vera sammála háttv: 1. þm. Skgf. (Ól. Br.) um, að það geti verið viðsjárvert að skylda menn til mikilla girðinga sökum viðhaldskostnaðarins. Mér getur ekki dulist það, — að viðhaldskostnaður stórra girðinga hlýtur að verða afarmikill og tilfinnanlegur, ef girðingarnar eiga jafnan að vera í góðu standi, sem verður að teljast nauðsynlegt. Því girðing illa hirt eða viðhaldið er til lítils gagns og jafnvel verri en engin. En þótt eg sé honum samþykkur að þessu leyti, er samt eitt atriði í breyt.tillögum hans, sem eg get ekki felt mig við. Það er það atriði, þar sem hann vill breyta ákvæði nefndarinnar um sektir fyrir skemdir á girðingum. Hann vill sem sé að í stað þess að sekt sé lögð við skemdum á girðingum alment, komi að eins sekt fyrir skemdir á lögmætum girðingum. En eg þykist vita, að hér liggi eitthvert athugaleysi til grundvallar fyrir þessari breyt.till. þingmannsins, svo að sannist hér ið fornkveðna: Skýzt þótt skýr sé. Eg þykist vita, að hann hafi ekki ætlast til að menn mættu akemma eins og þeim sýndist girðingar fyrir öðrum, ef þær væru ekki sniðnar eftir þessum eða öðrum lögum. Eg veit að hann við nánari athugun muni kannast við, að það sé skylda löggjafarvaldsins að vernda eignir allra, og þá einnig girðingar þeirra manna, sem ekki hafa komið þeim upp hjá sér þreföldum, ferföldum eða fimmföldum, eða eftir öðrum ákvæðum þessara laga hvað strengjatölu eða hæð á undirhleðslu snertir eða þess konar.

Vildi eg vekja athygli á þessu áður en gengið yrði til atkvæða, til þess að menn hefðu það í huga Við atkvæðagreiðsluna um þessa breyt.tillögu þingmannsins.