06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í C-deild Alþingistíðinda. (631)

30. mál, leynilegar kosningar til bæjarstjórnar í kaupstöðum

Ráðherraun [H. H.]:

Eg býst við, að skipuð verði nefnd til að athuga þetta mál. Eg vildi að eins leyfa mér að skjóta einni athugasemd til Væntanlegrar nefndar til athugunar. Aðaltilgangur þessa frumv. er sá, að gera kjósendum mögulegt ekki einungis að aðhyllast vissan flokk, heldur og hafa áhrif á það, hvaða menn verði kosnir af hverjum flokkslista. Þetta er gert með því að leyfa kjósendum að raða nöfnunum á listunum þannig, að kjósandi setur tölur fyrir framan nöfn fulltrúanna í þeirri röð sem hann vill að þeir komist að. Viðvíkjandi samtalning atkvæðanna, er svo ákveðið í frumv., að sá sem hefir töluna 1, fái eitt atkv., sá sem hefir töluna 2, hálft atkv. og sá sem hefir 3, 1/3 atkvæðis, o. s. frv. En þetta er ekki fullkomlega rétt hlutfall. Það er tiltölulega meiri munur á 1. og 2., heldur en á öðrum og þriðja. Réttlátara væri, að mismunurinn væri jafn milli hverra tveggja í röðinni, þannig, að ef þeim fyrsta er talið heilt atkv., þá sé þeim næsta talið svo stórt brot af atkvæði, er samsvari réttu hlutfalli, eftir því hve marga menn á að kjósa. Eigi t. d. að kjósa 5 menn, teljist þeim fyrsta 5/5 = 1 atkvæði, þeim næsta 4/5, þeim 3. 3/5, inum 4. 2/5 og inum síðasta 1/5 atkvæðis. Þetta er endurbót á stjórnarfrumvarpinu, sem eg vildi skjóta til nefndarinnar að athuga.