07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í C-deild Alþingistíðinda. (646)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Eg þykist vita að það muni rétt vera, að hér sé að eins um ónákvæmt orðalag að ræða, en ekki um nýmæli í þá átt, að þetta atriði skuli draga undan inu almenna löggjafarvaldi. En þetta getur skift talsvert miklu máli, og nauðsynlegt að hafa þetta skýrt. Það getur orðið vandi að koma á fót viðbót við landhelgisvörnina hér við land, sem að fullu gagni megi koma. Í sambandalaganefndinni 1908 var þetta atriði meðal annars á dagskrá, og var farið svo langt sem hægt var, en fekst þó ekki samkomulag um að Íslendingar væru einráðir um það, hvernig eftirlitinu skyldi fyrirkomið í framkvæmd. Þar verður að taka tillit til gildandi alþjóðareglna. Það er einsætt, að konungsvaldið verður að vera með í ráðum um það, hvernig og hvenær þessar auknu landhelgisvarnir, sem þetta frumv. gerir ráð fyrir, skuli framkvæmdar.