07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í C-deild Alþingistíðinda. (676)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Kristinn Daníelsson:

Eg get ekki annað en furðað mig á að allir, sem talað hafa í þessu máli, skuli hafa andmælt því, þótt með allhógværum orðum hafi verið. Hvað sem líður fráganginum á frumvarpinu, get eg ekki betur séð en að það sé orð í tíma talað. Menn eru að draga fram grýlur um að ekkert gagn verði að frumvarpinu. Eg álít að vísu, að eigi verði fult gagn að því, en eg vil í þessu sambandi minnast á vers eftir skáldið Hóraz, þar sem hann segir, að nokkuð megi komast áleiðis þó eigi náist öll leiðin. En auk þess get eg alls ekki séð; að lögin séu óframkvæmanleg eins og menn halda fram. Skal eg minnast á að til að eru í lögum ákvæði um að ekki megi bjóða unglingum nokkuð ónefnt og lögð við þung refsing. Viðkomandi sakamanni mundi alls ekki verða hlíft fyrir það, þótt hann bæri fyrir sig að viðkomandi unglingur hefði ekki haft aldurskírteini á sér.

Það er að minsta kosti eitt, sem þessi lög gætu leitt gætu af sér, ef þau hefðu framgang. Þau mundu vekja meðvitundina um, að tóbaksnautn væri börnunum óholl. Slík meðvitund var alls ekki til í mínu ungdæmi. Eg man til dæmis eftir því, að karlar og kerlingar, sem tóbak brúkuðu, kinnokuðu sér ekki við að bjóða okkur krökkunum í nefið; og eg get ímyndað mér, að það sé einmitt af þessum ástæðum að tóbakanautn er svo almenn nú á tímum. Mér finst að ekki geti nokkur vafi leikið á því, að það sé þarfaverk að vekja þessa meðvitund í hugum manna, og þótt maður ekki komist alla leið, þá er þó gott að komast áleiðis eins og Hóraz skáld segir.

Það er ekki nýtt að heyra sömu skoðun, sem háttv. þm. Ak. (M. Kr.) lét í ljós, um bannlagastefnuna, nefnilega að það væri skerðing á persónulegu frelsi hvers einstaklinga að mega ekki neyta hvers sem hann vildi. Þessu er kastað fram þegar svo býður við að horfa, þótt það vitanlega sé ekki nema hálfur sannleikur, og allir hljóta að kannast við, að oft verður að vera takmark fyrir einstaklings sjálfræði til að verjast almennings tjóni og hindra það sem ilt er og óholt í fari þjóðarinnar, með lögum. Það sem háttv. sami þm. sagði um, að börnin mundu fremur misbrúka tóbakið, enn meira sækjast eftir inu forboðna epli, ef þessi lög fengju framgang, kemur ekki til nokkurra mála og er alómögulegt að sanna það á nokkurn hátt. Eg er viss um, að með slíkum lögum mætti mikið draga úr því að börn neyttu tóbaks.