07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í C-deild Alþingistíðinda. (680)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Magnús Kristjánsson:

Háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) veik máli sínu til mín, þar sem eg talaði um bannlög og bannlagastefnuna. Eg álít, að mest af því sem hann talaði um það mál, sé misskilningur frá hans hálfu. Eg átti við það, að álitamál gæti verið, hvort beita ætti bannlagastefnunni gagnvart börnunum. Yfir höfuð finst mér það mikið álitamál, hvort rétt sé að beita hörðu við börnin. Eg þekki mörg dæmi þess, að þegar mikilli hörku hefir verið beitt við börn til þess að siða þau og manna, að það hefir verkað í gagnstæða átt við það, sem til var ætlast.

Eitt var enn, sem háttv. 2. þingm. G. K. (Kr. D.) gat um, að eftirlitið hafi verið minna með því að börn ekki neyttu tóbaks, og meðvitundin um skaðsemi þess hafi verið sofandi í hans ungdæmi, en ekki verður þó séð að hann sjálfur hafi orðið fyrir skaðlegum áhrifum í þessu efni. Mér virðist að þetta sanni alveg það mótsetta við það sem háttv. þm. ætlaðist til, því að meðvitundin nm skaðsemi tóbaksnautnar er vöknuð, og meira eftirlit haft með því nú en áður, einkum í skólunum þar sem eg þekki til, að börnin ekki neyti tóbaks; því virðist mér þörfin fyrir þessum lögum fara minkandi. Annars hygg eg, að mín skoðun um þetta mál sé alveg eins réttmæt eins og háttv. 2. þm. G.-K., og eg mun vera á móti frumv.