12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í C-deild Alþingistíðinda. (790)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Benedikt Sveinsson:

Mér kemur það nú ekkert á óvart, þó að þessi lög reki sig á í framkvæmdinni og komist í óefni, svo sem til þeirra var stofnað. Um þessi lög mátti beinlinis vita það fyrirfram, að svona mundi fara, því að grundvöllurinn var rangur í skiftingu símanna í 1., 2. og 3. flokki og kostnaðarhlutfallið milli landssjóða og héraðanna mjög ranglátt og af handahófi. Það er hart fyrir útkjálkahéruð, að þurfa fyrst og fremst að biða lengur en aðrir eftir simasambandi, og fá svo það í ofanálag, að þurfa að leggja stórfé í kostnað við símalagningarnar, en fá ekkert af tekjunum. Þær hirðir landasjóður einn. Það er að vísu ekki nema eðlilegt, að símar séu fyrst lagðir um fjölmennustu sveitirnar, en kostnaðurinn ætti ekki fyrir því að lenda á þeim, sem lengst verða útundan.

Auðvitað verður alt af verið að biðja um að létta kostnaðinum af þessum héruðum, sem þvinguð eru til að leggja á sig þessi ranglátu gjöld. Þetta er nú komið á daginn um Árnes- og Rangárvalla-sýslur, og um þessa Vestfjarðaálmu er sama máli að gegna. Það er bein afleiðing af því, hvernig lögin eru úr garði gerð. Það hefði verið réttari stefna, að landið bæri allan kostnaðinn, en að þingið ákvæði einungis, í hverri röð ætti að leggja símana. Þá hefði síður þurft að eyða tímanum í þrefi og þjarki um þetta.

Eg álít mjög athugavert þetta ákvæði í 3. gr. frumvarpsins, að vextir og afborganir ritsímalánanna skuli greiðast af tekjuafganginum. Eg sé enga ástæðu til þess, að vera að taka þetta fram. Mér finst hlægilegt að vera að búta landssjóðinn niður, eins og sumir gömlu sérvitringarnir, sem hnýttu sínum skildingnum í hvert horn á vasaklútnum sínum, og urðu endilega að kaupa kaffi fyrir það sem var í einu horninu, en sykur fyrir það sem var í öðru, þótt alt kæmi í einn stað niður þegar öllu var á botninn hvolft. Það er bersýnilegt, að slíkt ákvæði sem þetta miðar stórum að því að glata lánstrausti landsins, eins og landssjóði sé ekki trúandi til að standa í skilum nema hann veðsetji eitthvað af ákveðnum tekjum sínum til tryggingar greiðslu á vöxtum og afborgunum. Finst mér það ærið glappaskot af ráðherra, að lofa stóra norræna félaginu þessari breyting á lögunum. En hann er nú óður og uppvægur að fá þessa heimild til að veðsetja útlendingum þessar ákveðnu tekjur, þótt hann skerði með því heiður landsins, og slíkt tíðkist ekki nema með örgustu vanskilaþjóðum, eins og Tyrkjum. Honum hefir sannarlega tekist illa að fylgja því atriði í stefnuskrá sinni, að efla traust landsins út á við, þar sem hann fór að grípa til slíks óyndisúrræðis.