12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í C-deild Alþingistíðinda. (796)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Ræða hv. þm. Sfjk. var eins og eg gat búist við. Hann hygst hér hafa komið auga á atriði, sem stjórninni sé ant um, og þess vegna sé vænlegt að slá sér á að rífa niður. Það sem hann sagði, átti ekki við nein rök að styðjast. Hann sagði, að þetta væri veðsetning og þó ekki veðsetning. Nei ! Það er alls ekki veðsetning. Munurinn er sá., að ef hér væri um veðsetningu að ræða, þá gæti ef til vill kreditor heimtað undir vissum kringumstæðum að hafa hönd í bagga með innheimtunni. En það kemur ekki til nokkurra mála hér. Þetta er ekki annað en lagaákvæði um það, hvernig stjórn Íslands skuli verja ákveðnum tekjum af ákveðinni eign landssjóðs.

Hann sagðist hafa heyrt, að þetta ætti að vera veð til »Mikla norræna«, og spurði, hví það gæti ekki veitt lán með sömu kjörum og aðrar stofnanir. Það er rétt, að Norræna ritsímafélagið hefir gefið vilyrði um lán til símalagninga, en því fer fjarri, að eins sé farið með þetta lán og önnur lán til landssjóðs. Félagið er engin lánsstofnun. Það rekur ekki þá atvinnu, að lána út peninga. En það hefir varasjóð, sem það á að ávaxta á tryggan hátt, eftir því sem félagslögin nánara ákveða, og það ætlar að gera oss þann greiða, að lána okkur, eða réttara sagt landsímanum, aukningarfé með ágætum kjörum. ef fullnægt er þeim formum, sem setja verður fyrir útláni af varasjóðnum. Það er ekki hægt að bera þetta saman við lán úr bönkum eða venjuleg ríkislán, sem út eru boðin. Hér er að ræða um affallalaust lán, með 4% vöxtum í 30 ár. Hvar heldur háttv. þm. að hægt væri að fá slíkt lán í bönkum eða á peningamarkaði heimsins ? Hvergi! Eg er viss um, að hann tímdi ekki sjálfur að lána út peninga sína með þeim kjörum, þó landið þyrfti sárt á því að halda.

En félagið gefur kost á svona góðum kjörum meðfram vegna þess, að það heldur, að Við aukna lagningu innanlandasíma muni aukast notkunin á Sæsímanum og tekjurnar af honum. Að félagið fer ekki að eins og bankarnir mundu gera, tekur ekki 5–10% afföll o.s. frv., kemur til af því, að félagið vill styðja að aukning símanna hér á landi.

Það er ekki nema sanngjarnt, þegar félagið lánar peninga út þannig, að það vilji vegtina og afborganirnar greiddar af því fyrirtækinu, sem peningarnir ganga til. Frá sjálfra okkar sjónarmiði er einnig tryggara að setja ákveðið lagaákvæði um þetta, því að þá er séð fyrir því, að ekki sé »disponerað« yfir svo miklu af símatekjunum til nýrra símalagninga, að þetta símalán falli almennum tekjum landssjóðs til byrði. Eg get ekki séð, að nokkur vansi sé að þessu. Að það geti leitt til, að settir verði sérstakir eftirlitsmenn, nær ekki nokkurri átt.

Samanburður háttv. þm. á okkur og Tyrkjum er í þessu efni alveg rangur og villandi, því að hann veit það ósköp vel, að þessir eftirlitsmenn þar hafa ekki verið settir án samþykkis Tyrkja eftir að lánið er stofnað, heldur hefir þegar frá upphafi í lánsskilmálunum verið óskað, að svo skuli vera.