08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (87)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Lárus H. Bjarnason:

Hv. ráðherra skírskotaði máli sínu til sönnunar til rökstuddrar dagskrár, sem samþykt var hér á þinginu í fyrra og eg gat um áðan. Úr því að hann vitnaði til hennar, vil eg aftur undirstryka upphaf og niðurlag dagskrárinnar. Þau orð skildu allir þingmenn svo, að ætti að merkja 1912, enda höfðu menn þá heyrt skilaboð, þau sem hv. ráðherra gat um. Allir, sem eg talaði við, gengu að því vísu, að málið yrði tekið upp 1913, og að stjórnin mundi beita sér fyrir því. Enda kemur það prýðilega heim Við fullyrðingu hv. ráðherra, því að það voru hana eigin orð, sem eg hafði yfir áðan: Þá tökum við upp stjórnarskrárfrumvarpið frá 1911. (Ráðherrann: Hvar er það prentað?). Það er hvergi prentað. (Ráðherrann: Er það í vasabók ?). Já. Eg hefi þann sið, að skrifa hjá mér,. mér og öðrum til upplýsingar; mikilsvarðandi ummæli mikilla og málsmetandi manna. Eg get vitaskuld ekki sannað þetta. Það gerðist heima hjá mér, þegar átti að kristna mig undir bræðinginn, sællar minningar, 17. Apríl kl. milli 31/2 og 5. (Ráðherrann: Stund og staður, sei, sei!). Já, mér þótti það vissara. Eg vissi við hvern eg átti.

Orð hv. ráðherra um að góðir möguleikar væru á því, að sambandsmálið yrði leitt til farsællegra lykta, að minsta kosti innan ekki margra ára, komu mér mjög á óvart, þar sem hv. ráðh. lýsti yfir því á Desbr.-fundunum í fyrra, að enginn þingflokkur í Danmörku vildi líta við Desbr.boðskapnum sæla, nema þáverandi stjórnarflokkur, sem nú er kominn í algerðan minnihluta. Og af undirtektunum hér á landi undir Desbr.frumvarpið er það styzt að segja, að ráðherra, jafnmikið karlmenni og hann er, sór þegar af sér faðernið, enda vill enginn þingflokkur hér við því líta.

Eg finn svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um málið. Eg vil leyfa mér að styðja, að 7 manna nefnd verði kosin. Þetta er svo merkilegt mál, að af því mun ekki veita, enda hefir það ávalt verið siður, að 7 manna nefnd fjallaði um þetta mál, og það síðast á þinginu 1912.