16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í C-deild Alþingistíðinda. (962)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Bjarni Jónsson:

Eg hefi eins og ætíð heyrt heilmikið af barlómi, að ekki megi fara fram á fjárveitingar nema svo örlítið, viðlagasjóður sé ekki nema 116,000 kr. o.s.frv.

Eg vil spyrja fjármálaspekinginn, hvernig á því stendur, að áætlunin er alt af vitlaus. Til hvers er að vera að fara í skollaleik við sjálfan sig, telja þingheimi trú um að tekjuhallinn sé svo og svo mikill, þegar reynslan sýnir að hann er enginn, þrátt fyrir það að hann hefir verið áætlaðar hálf milíón. Menn eru alt af að tala um að spara; mér finst að menn ættu heldur að spara með því að tala dálítið minna um það í þingsalnum. (Pétur Jónsson: Þingmaðurinn getur byrjað). Nei, það væri nær að sá ódauðlegi, sem alt af er að berja lóminn, byrjaði. Hann sagði um landhelgisvörnina, að ekki væri sannað, að hún gengi eins vel annarstaðar og í Faxaflóa. En þó ekki sé fengin vissa um óreyndan hlut, ætti það ekki að verða veitingunni að falli.

Þá vill hv. framsögum. fjárlaganefndarinnar (P. J.) ekki veita neinum einum manni styrk til að stýra Röntgensáhöldunum og eigi þessi maður líka að kenna sérfræðigrein sína við háskólann. En það þarf alls ekki að kenna læknaefnum að fara með Röntgens-áhöld, því það á áreiðanlega langt í land að læknar hér fari alment að nota þau. Það er því alveg laust við þetta mál. Húðsjúkdómar og beinskemdir standa í mjög nánu sambandi við notkun Röntgens áhaldanna.

Eg vildi gjarnan heyra ástæður fjárlaganefndarinnar til þess að neita um fjárveitinguna, þegar henni bjóðast jafnódýrir kenslukraftar — einar 1000 krónur — en veita samt jafnmikinn styrk til kenslu í tannsjúkdómum. Bein skekkjur og barnasjúkdómar eru þó ólíku hættulegri en tannpína.