08.07.1913
Neðri deild: 6. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (99)

19. mál, eftirlaun handa Steingrími Thorsteinssyni

Ráðherrann (H. H.):

Fundurinn er orðinn svo langur, að eg vil vera stuttorður.

Eg vona, að háttv. þingdm. hafi lesið athugasemdirnar, sem prentaðar eru aftan við frumvarpið, svo að eg þurfi eigi að endurtaka það, sem þar er látið í ljósi. Eg vona sömuleiðis, að þó að önnur mál valdi ágreiningi hér á þinginu, verði allir sammála um þetta, að veita þjóðskáldinu góða, sem okkur alla hefir glatt og okkur öllum þykir vænt um, þessa viðurkenningu á gamalsaldri fyrir það, sem þjóðin á honum að þakka.

Eg býst við, að háttv. þm. Sfjk. (V. G.) þyki málið illa undirbúið, þar sem ekki fylgja prentuð sýnishorn af kvæðum skáldsins, en eg vona samt, að menn afsaki að stjórnin hafi sparað þann prentunarkostnað.

Væri æskilegt að málið gengi sem fyrst í gegn um þingið, svo hægt yrði að senda það til staðfestingar konungs með skipi, er fer þann 16. þ. m., með því að heppilegt væri, að sem fyrst gæti orðið undið að því, að skipa nýjan rektor, áður ið nýja skólaár hefst.

Vonast til þess að málið verði ekki sett í nefnd, og að háttv. forseti flýti svo fyrir því, sem auðið er, helzt svo að stutt verði milli umræðna með undanþágu frá þingsköpum.