18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í C-deild Alþingistíðinda. (997)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ráðherrann (H. H.):

Eg get verið stuttorður. Eg á að eins eina brtill. á þgskj. 426, þar sem farið er fram á það, að bætt verði við nýjum lið, 600 kr. hvort árið til Bernarsambandsins, til þess að vernda rétt íslenzkra rithöfunda.

Í 27. gr. laga 20. Okt. 1905, um rithöfundarétt og prentrétt, er heimild til þess, að veita þeim lögum gildi, að því er snertir þegna annara ríkja, með samningi, gegn því, að íslenzkar ritsmíðar njóti sömu verndar í þeim ríkjum. Nú stendur okkur til boða. að verða teknir upp í ið svo nefnda Bernarsamband, sem er félagsskapur meðal ýmissa ríkja, stofnaður til verndar rithöfundum hvers ríkis hjá öðru. En það er skilyrði fyrir því, að komast í sambandið, að ríkin verða að borga til þess vissa fjárupphæð, eftir flokkum, í hlutfalli við stærð þeirra og fólksfjölda. Við mundum nú lenda í fi. eða síðasta flokki, og er gjaldið þar 600 kr. á ári.

Tillaga um þessa fjárveitingu lá líka fyrir þinginu 1911, og var þá borin fram af fjárlaganefndinni að tilhlutun stjórnarinnar og Samþykt hér við 2. umræðu, en feld síðan illu heilli við 3. umræðu, af því að einn háttv. þingmaður bar það fyrir, að leikfélagið okkar mundi missa spón úr askinum sinum, ef þetta yrði samþykt. Það gæti þá ekki lengur þýtt útlend leikrit. án þess að gjalda fé fyrir, en það væri því ofvaxið. Þetta má nú samt ekki vera þröskuldur í vegi fyrir því, að Íslendingar fái borgun fyrir ritverk sin, sem þýdd eru erlendis. Það er nú farið að verða tíðara og tíðara, að íslenzk rit eru þýdd á erlendar tungur, og það er nú ekki lengur gert eingöngu í góðgerða skyni við oss, heldur er rétturinn yfir þeim tekinn að ganga þar kaupum og sölum.

Nýlega var að sögn eitt þýtt íslenzkt skáldrit selt þannig fyrir 4000 mörk á. Þýzkalandi, en höf. hefir ekki séð grænan eyri af því. — Að vísu hafa þeir Íslendingar, sem gefa út bækur sínar í Khöfn, þessa vernd — sem Danir, en hér heima geta menn ekki skotið sér inn undir það, enda þótt einstöku útlendingar villist á þessu og viti ekki muninn. Og að neita rithöfundum vorum lengur um þenna rétt, til þess að vér getum óáreittir haldið áfram að hnupla frá rithöfundum annara þjóða, það getum vér eigi lengur látið um oss spyrjast. Nú með því að háttv. fjárlaganefnd mun vera málinu sinnandi, hefi eg góða von um að háttv. deild verði það líka, og skal eg vera þakklátur fyrir þær undirtektir.

Annars vil eg leyfa mér að leiða athygli háttv. fjárlaganefndar að því, að ef samþykt verður — og því geri eg ráð fyrir — tillaga hennar um það, að flytja styrkinn til búnaðarskólans undir kenslumálin, þá verður nauðsynlegt að breyta um leið fyrirsögninni fyrir 16. grein.

Sömuleiðis vil eg benda háttv. þingmanni Dalamanna á það, að ef samþ. verða tillögur hans á þgskj. 460, eins og þær eru orðaðar, þá kemur út alt annað, en hann mun hafa ætlast til. Hann vill draga saman í eina upphæð styrkinn til allra unglingaskólanna, en eins og brtill. hans er orðuð, mundi hún leiða til þess, að til unglingaskóla utan kaupstaða yrðu veittar 12 þús. kr. hvort árið í staðinn fyrir 8 þús. kr., en skólarnir í kaupstöðunum fengju ekkert. Þetta þarf að laga með orðabreytingu, því að eg veit að háttv. þm. hefir ekki meint þetta.

Mér vill það nú til, að sumt það sem eg ætlaði að minnast á, er þegar búið að segja. Eg er alveg samdóma háttv. þingm. Dal. og háttv. 1. þingm. G.-g. um það, sem þeir sögðu um brtill. hv. fjárlaganefndar á styrknum til skálda og listamanna. Eg er þeim alveg samdóma um það, að þegar um skáld er að ræða, þá er ómögulegt að binda styrkinn við einhver tiltekin verk, sérstaklega þegar um það er að gera, hvort þau eigi að gefa sig við skáldskapnum sem lífsstarfi eða ekki.

Spurningin er að eins sú, hvort þingið vill stuðla að því, að þessi og þessi maður geti varið kröftum sinum til þessa starfs, og þurfi ekki að fá sér aðra fasta höfuðatvinnu. Og ef svo er, þá tjáir ekki annað, en að veita slíkum mönnum styrkinn áframhaldandi. Það tjáir ekki, að ginna þá fyrst til þess, að kasta frá sér þeirri atvinnu, sem þeir og fjölskylda þeirra gætu lifað á, og kippa svo að sér hendinni. Það er ekki hægt að skilja þau skáldlaun, sem veitt hafa verið undanfarið um langt áraskeið, öðruvís en svo, að þau skuli vera ævilangur styrkur, enda hafa menn skilið svo og bygt á því, að skáldin þurfi ekki að leita sér annarar atvinnu, heldur geti lifað við ritstörf. Það kemur ekki í bág við þessar skoðun, þótt þingið hafi í raun og veru ætið skorið þennan styrk svo við nögl sér, að mennirnir hafa neyðst til að leita sér annarar atvinnu auk þessa. — Það væri sannarlega nær, ef við viljum ekki að oss miði aftur á bak í menningu, að auka heldur þennan styrk, en að minka hann. (Lárus H. Bjarnason: Hvers vegna hefir þá stjórnin ekki lagt til að hækka hann) Eg skal gjarnan greiða atkvæði með dálítilli hækkun, ekki mjög mikilli, en nokkurri þó. Þetta eru svo litlar upphæðir, sem hér er um ræða að til eða frá, að það er næstum því hlægilegt, að vera að gera sér aðra eins rellu út af þeim, eins og gert er, jafnframt öllum austrinum í aðrar áttir. Fjárhagslega skoðað munar landið þetta svo sem ekkert til né frá, og þessi smámunasýtni getur naumast komið af öðru eri því, að hér er um gamalt kjósendaagn að ræða, slagorð, sem brúkað hefir verið á þingmálafundum til þess að sýna sparsemi sína og búhyggindi, og umhyggjuna fyrir því, að ekki sé lögð óþarfagjöld á almenning. Það er verst, að umhyggjan er stundum ekki eins mikil í öðrum greinum, þegar á þing er komið.

Eitt atriði var þó í ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (B. gr.), sem eg get ekki fallist á. Það var viðvíkjandi till. um að flytja heim verk Einars myndhöggvara Jónssonar. Eg get ekki verið honum samdóma um það, að ekki þurfi nema lítilfjörlegan járnskúr undir þau, eða að »eitthvert húskríli«, eins og hann sagði, mundi nægja til þess að geyma slíkt í, ef landið fer að safna listaverkum á annað borð. Verk Einars eru nú þegar orðin það mörg, að ekki veitir af stórum sal, ef á að sýna þau eins og þau eiga að sjást, og eina og slíkt er sýnt annarstaðar. Og eg vil ekki veita fé til þess, að sýna þau í pakkhúsi. Eg vil veita honum styrk eins og verið hefir. Hann getur hvergi fengið eins ódýrt húsnæði fyrir myndirnar hér, eins og í »atelieri« því er hann hefir sérstaklega í Khöfn.

Eg sé að háttv. fjárlaganefnd hefir lækkað um 200 kr. styrkinn til námsmeyjar Við háskólann í Kaupmannahöfn, Lauyfeyjar Valdimarsdóttur. Eins og tekið er fram í ástæðunum við fjárlagafrumvarp stjórnarinnar, var þessi litla hækkun, sem stjórnin fór fram á, ekki alveg út í loftið. Kvenfólk er beitt því misrétti við háskólann, að það fær engan námsstyrk. Garðstyrkurinn er eingöngu fyrir karlmenn, og hann hækkar ár frá ári. Er það bygt á því, að það er viðurkent, að allar lífsnaunsynjar eru dýrari en áður, og þess vegna geti enginn komist af með þann styrk, sem áður nægði. Þessi stúlka, sem þingið hefir álitið þess verða að styrkja hana, hefir aldrei fengið neinn annan styrk. Hún hefir að eins fengið að búa í Hagemanns Institut með vægari kjörum en annarstaðar fæst. En þar fer líka alt hækkandi, vistin þar er orðin dýrari en áður, sem leiðir af því, að styrkurinn til karlstúdentanna hefir hækkað. Stúlkan getur ekki komist af með það, sem hún gat bjargast við áður. Úr því að þingið hefir sýnt, að það vill styrkja stúlkuna og telur hana þess maklega, finst mér að maður megi vænta, að meiri hluti innar háttv. deildar vilji láta styrkinn koma að notum og láta sig ekki muna um þessa litlu upphæð — einar 200 kr.