20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

74. mál, land til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Eg er samdóma hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) um það, að rétt sé að athuga, hvort ekki sé tiltækilegt að fá ódýrara land en það, er frv. getur um fyrir kirkjugarðssvæði. Þessi spilda, sem hér um ræðir, er afardýr — eg er sannfærður um, að feralin fæst ekki fyrir minna en eina kr. Þess ber líka að gæta, að tilætlunin er, að taka ekki nema lítinn blett í þetta skifti, sem hætt er við að verði fljótt fullgrafinn. Þá þarf nýja heimild, og þá er hætt við að landið verði orðið ennþá dýrara. Eg sé enga nauðsyn á því, að hafa garðinn á sama stað og nú, enda gæti verið óhollusta að því, þar sem íbúðarhús eru, eða verða, alt í kring.

Jafnvel þótt lög standi til þess, þá álít eg það mjög ósanngjarnt, að vera að íþyngja utanþjóðkirkjusöfnuðum með því, að skylda þá til að gjalda legkaup, þar sem þjóðkirkjumenn fá land fyrir grafreiti sína ókeypis — enda vafasamt, hvort slíkt kemur ekki í bága við 47. gr. stjórnarskrárinnar, sem segir, að enginn megi neins í missa af borgaralegum réttindum sakir trúarbragða sinna. Þetta gjald gæti orðið fríkirkjusöfnuðunum talsvert tilfinnanlegt, og eg vænti þess, að það verði ekki á þá, lagt.

Eg býst við því, að nefnd verði kosin í málið og býst við, að hún athugi, hvort ekki væri tiltök að fá einhvern stað ódýran, utan bæjarins til grafreits. Verði haldið áfram að taka það land, sem liggur að garðinum, þar sem hann er nú, þá getur það kostað landssjóð marga tugi þúsunda króna.

Árið 1903 var keypt land undir grafreitinn fyrir 6800 kr. Nú er það að þrotum komið, og verðið hlýtur að fara hækkandi ár frá ári á því landi, sem um er að gera til aukningar þessum grafreit.