18.07.1914
Neðri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

40. mál, hlutafélagalög vegna hegningarlaga

Flutningsm. (Sv. B.):

Eins og kunnugt er, hefir hlutafélögum farið talsvert fjölgandi hér á landi á síðustu árum.

Eg vona, að öllum sé ljóst, hvað átt er við með hlutafélögum. Það eru samlagsfélög, þar sem félagarnir leggja fram ákveðna fjárupphæð hver í því skyni, að koma á fót framkvæmdafyrirtækjum í fjáraflaskyni. Þannig er um þetta búið, að félagarnir bera ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru af eigum sínum en því einu, er þeir hafa í félagið lagt.

Þetta fyrirkomulag er ekki nýtt, þótt það hafi aðallega hlotið vöxt og viðgang á hinum síðari árum, bæði hér á landi og annarastaðar. Sögur fara af því þegar frá 14. öld, og hófst það fyrst í borginni Genua á Ítalíu. Sú borg átti verzlun mikla við Miðjarðarhaf og vóru það í fyrstu bankar og aðrar lánstofnanir, er stofnað var til á þenna hátt, til þess að hjálpa mönnum til að standast viðskiftaframkvæmdirnar. Í Danmörku var þetta fyrst tekið upp árið 1616, er þar var stofnað dansk-austur-indverska félagið. Í Englandi var sjálfur Englandsbanki einna fyrsta stofnunin með þessu sniði, stofnaður 1694, og tóku hlutafélög eftir það að fara mikið í vöxt í Englandi og Frakklandi.

Þegar í byrjun varð þess vart, að þetta fyrirkomulag var notað mikið til svika, og þeirra jafnvel ennþá glæfralegri, en þekst höfðu áður í viðskiftum einstakra manna. Þannig komu upp hjá einu félagi á Englandi, Suðurhafsfélaginu, einhver mögnuðustu svik, sem heimurinn hefir þekt, árið 1720. Vóru þá í lög leidd sérstök ákvæði, til þess að reyna að hindra slíkt, og var það hinn frægi »Bubbleact«. Hann var mjög harður, og lá við, að hann kvæði niður þetta form viðskiftafélagaskaparins. Aftur var hann upphafinn 1825 og frjálslegra fyrirkomulag í lög leitt, en þá tók þegar aftur að brydda á svikum, og var enn hert á löggjöfinni 1844 og var þá sérstaklega ákveðið, að leyfi krúnunnar þyrfti till alls bankareksturs. Síðan hafa þar í landi verið gefin þrenn lög um þetta efni, 1862, 1867 og síðast 1879, lög sem enn eru í gildi að mestu leyti.

Í Þýzkalandi hefir verið allstrangt eftirlit með hlutafélögum, og mun hafa þurft ríkisleyfi til að stofna þau fram að 1870, en núgildandi hlutafélagalög þar eru frá 1884. — Frakkland fékk sín lög 1867 og ríkisleyfi þurfti þar til hlutafélagsreksturs fram að 1863. Síðan hefir verið mikið um það hugsað á Norðurlöndum, að marka hlutafélögum bás með löggjöfinni, og eftir miklar umþenkingar um það efni, settu Svíar lög um það hjá sér 1895, en Norðmenn 1910. Danir hafa ekki fengið slík almenn lög enn, þó að þeir hafi gefið lög um fáeinar tegundir slíkra félaga; en mikið hefir verið átt við lagasmíð þar um hlutafélög, og hefir setið nefnd á rökstólum í því skyni síðan árið 1900 og hafa frumvörp þessa efnis verið lögð fyrir þingið víst þrisvar sinnum. Hið síðasta var á ferðinni í febrúar í vetur, en ekki hefir enn hepnast að koma fram lögunum.

Markmið löggjafarinnnar í þessum efnum er það tvent, að gefa þeim mönnum, sem eitthvert fé leggja í slík fyrirtæki, sem bezta tryggingu fyrir því, að vel og samvizkusamlega verði með það farið, og svo hitt, að þeim, sem skifta við slík félög, sé óhætt að eiga skifti við þau, lána þeim, án þess að til þess þurfi að koma, að ekki sé að nógu eða jafnvel neinu að ganga til skuldagreiðslu sökum hinnar takmörkuðu ábyrgðar. Þessu takmarki hafa menn reynt að ná með ýmsu móti. Til dæmis hefir verið reynt að verða við kröfunni um tryggingu með því, að láta hvert félag verða að hafa sérstakt leyfi, konunglega Concession, til þess að starfa í landinu. En það, sem ofan á hefir þó orðið í heiminum, er þó einkum brezka stefnan, er kalla mætti opinberleikakerfið, og einkum er í því fólgið, að skylda félögin til þess, að gera almenningi opinbert alt, sem snertir hag þeirra. Þess er krafist, að tilhögun hvers félags skuli skrásett á opinbera skrá, sem almenningur hefir aðgang að. Ekkert félag með takmarkaðri ábyrgð má starfa, nema það geti þess fyrirkomulags í sjálfu nafni sínu með orðinu Limited á firmaskrám, starfshúsum og í öllum skrifum. Hlutaútboð eiga að vera undirskrifuð af ákveðinni tölu hluthafa., 7 mönnum. Hlutaútboð og lög eiga að vera skrásett og bæði þetta og árlegir reikningar félagsins að leggjast fram opinberlega. Getur minni hluti félagsmanna krafist þess, að fjármálaskrifstofa Breta láti eftirlitsmenn rannsaka haginn. Aðalfundur skal haldinn að minsta kosti einu sinni á ári og skyldir eru hluthafar að greiða inn í félagið alt það hlutafé, er þeir hafa lofað, og hvílir sú skylda jafnvel á þeim í eitt ár, eftir að þeir eru hættir að vera hluthafar. Sérstakar reglur eru um Liquidation, gjaldþrot og skifti, ábyrgð stjórnarinnar o. fl. o. fl. Þetta er nú brezka löggjöfin. Í Danmörku hafa menn hugsað sér að fara að mestu í þessa átt, en jafnframt reyna að taka meira tillit til þess, að félögin verði ekki um of hindruð í því, að ákveða innra fyrirkomulag sitt, unna þeim dálítið meira frjálsræðis en Bretar.

Hér á landi eru hlutafélög ekki jafn gömul og ytra. Hið elzta mun vera Gránufélagið, er stofnað var um 1870. Síðan hafa ýms hlutafélög verið stofnuð hér og sérstaklega hefir þeim fjölgað eftir aldamótin síðustu. Einkum hafa í Reykjavík risið upp hlutafélög til iðnrekstum og verzlunar, og á seinustu árum ekki hvað sízt til fiskveiða, er aðallega hafa verið rekin með útlendu fé. Ýms félög hafa og verið mynduð í Danmörku og jafnvel í Englandi, í þeim tilgangi, að reka atvinnu og verzlun í sambandi við Ísland. Félög þessi hafa flest tekist miður en skyldi, þau hafa farið á höfuðið og jafnvel bakað oss talsvert óorð út á við. En annara held eg megi segja, að víðar sé pottur brotinn en hjá þessum erlendu félögum, sem hér hafa starfað. Hér eru gerðar litlar kröfur til tryggingar hluthöfum og viðskiftamönnum félaganna, og ákvæði vantar í lögin um stofnun slíkra fyrirtækja. Stór hlutafélög hafa verið mynduð af mönnum, sem ekki hafa haft nægilegt vit á þeim málum, og er vandséð hverjar afleiðingar slíkt getur haft. Þess verður að gæta, að hlutafélög eru nú orðin allmörg hér og reynslan er sú hér og annarsstaðar, að nauðsyn er á að setja þeim fastar reglur, til þess að viðskiftalíf landanna geti starfað á tryggilegan hátt.

Eg hygg, að það verði að teljast viðurkent, að hér sé því þörf fyrir löggjöf um þetta efni, og sú þörf verði æ brýnni með hverjum deginum sem líður. Þess vegna hefi eg leyft mér að koma fram með uppástungu í þá átt, að farið verði að hreyfa þessu hér eins og annarsstaðar. Eg sting upp á því, að háttvirt deild skori á landsstjórnina að undirbúa frumv. til laga um hlutafélög og sé þar hnýtt aftan við jafnframt endurskoðun á 26. kap. hegningarlaganna. Ástæða til þessa er sú, að um leið og slík lög yrði gefin út, yrði auðvitað að setja viðurlög fyrir brot á þeim. Og þau fyrirmæli eru þess eðlis, að nauðsynlegt er að beita allharðri hegningu við brotum. Slík brot nálgast sem sé oftast það, sem í daglegu tali er kallað svik.

Því verður ekki neitað við nánari umhugsun, að sá kafli hegningarlaganna, er hér um ræðir, svikakaflinn, er orðinn allúreltur, eftir það er viðskiftalífið tók að þroskast hér og taka breytingum. Hegningarlög vor eru frá 1869, en eru ekki annað en endurtekning af dönsku hegningarlögunum frá 1866. Þau lög eru nú í mörgu orðin á eftir tímanum, og ekki sízt í þessu. Er þá eðlilegast að taka allan þenna kafla í einu til rækilegrar íhugunar, því að bæði vantar tilfinnanlega í hann ýms ákvæði og svo er hann ekki glögt orðaður. Nágrannaþjóðirnar eru flestar farnar fram úr oss í þessu efni. T. d. eiga Norðmenn lög frá 1902, sem eru miklu betri og í þeim ítarlegri refsiákvæði fyrir ýmislegt það, sem í daglegu tali er kallað »Svindel« en sem hegningarlög vor ná ekki yfir. Þar er einnig sérstakur kafli um traustrof, sem hér vantar tilfinnanlega. Skal eg aðeins nefna 275. gr. í norsku hegningarlögunum, sem er þannig, að sá, sem til þess að útvega sér eða öðrum óréttmætan hagnað, eða öðrum til skaða vanrækir hagsmuni annars manns, er hann á að gæta, eða vinnur honum í óhag að þessu leyti, sætir fyrir það sektum eða fangelsi alt að þriggja ára.

Eg skal svo ekki orðlengja þetta frekar nú, vænti og að þetta nægi til þess, að sýna háttv. deild, að tillaga þessi er ekki fram komin að ástæðulausu, og vona eg að hún verði samþ.