25.07.1914
Neðri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

81. mál, skoðun á útfluttri ull

Frams.m. (Pétur Jónsson):

Vér erum taldir þrír flutningsmenn þessarar tillögu, en í raun réttri er hún flutt fyrir hönd Bændaflokksins eða að hans tilstuðlun. — Þetta mál, ullarskoðunin, hefir verið á döfinni; fyrr en nú og nokkur undirbúningur átt sér stað undir það, að fá umbætur á ullarverkuninni, meðal annars í þá átt, að mat á henni kæmist á. Málið hefir oftar en einu sinni komið til kasta Búnaðarfélagsins og verið rætt á búnaðarþingum, en hingað til hafa menn ekki þorað að leggja út í almenna skoðun á ull. Menn hafa bæði óttast kostnaðinn, sem þetta hefði í för með sér, og svo hefir þótt ófrjálslegt að hafa skylduskoðun. En eftir að hr. Sigurgeir Einarsson hefir unnið að þessu máli og rannsakað svo árum skiftir, þá hefir hann komist að þeirri niðurstöðu, að óhætt sé að koma henni á nú innan skamms, og álítur nauðsynlegt, að það verði gert.

Eins og allir vita, er það gott að gera skoðun á ull, eins og öllum öðrum vörum, en hitt er ef til vill eigi öllum jafnljóst, að til þess, að hún komi að gagni, þá þarf hún að vera skylduskoðun, sem gengur jafnt yfir alla. Það hefir sýnt sig, að kaupfélög og kaupmenn, sem hafa viljað vanda ullina, hafa skoðað hana og kastað vondri ull frá í lægra flokk, að þeir hafa tapað af ullarkaupum og mist viðskiftamenn sína yfir til keppinauta, sem ekki vóru jafnvöruvandir. Þetta hefir varnað því, að ullarmat gæti komist á, nema á stöku stað. — Kaupfélag Þingeyinga hefir nú strítt við þetta í 30 ár, og það sem hefir hjálpað því til þess að gera umbætur á ullarverkuninni, er það, að verslunin, sem það aðallega átti að keppa við, hefir að nokkru leyti haft sömu aðferðina og ekki látið bjóða sér úrkast. En t. d. á Akureyri hefir þetta aftur á móti gengið öfugt. Þar hafa altaf verið nógir keppinautar, sem hafa tekið vonda ull og tekist að koma henni á markaðinn undir nafninu »Norðlenzk ull«. Þetta heldur jafnaðarverði ullarinnar niðri og það er örðugt mjög að toga upp fyrir jafnaðarverðið lítinn hluta af ullinni, t. d. frá einni verzlun eða félagi. Að reisa við ullarverðið á meðan svo stendur, verður því aðeina gert, að mikill hluti hennar sé góð og tryggileg vara og aðeins minni hlutinn illa verkaður, og þá verður fyrst og fremst að greina ullina sundur í flokka eftir mismunandi verkun og tegundum.

Eg veit, að sumir ætla, að þetta verði mjög kostnaðarsamt. Hér er nú gert ráð fyrir 3–4 yfirskoðunarmönnum, sem ekki mundu hafa kaup nema svo sem 2 mánuði ársins og svo ferðakostnað samtals líklega um 600 kr. á ári hver, og það er ekki mikið. Það yrði alls eitthvað 2000–2400, eða rúmlega það í hæsta lagi. Þetta gæti auðvitað skakkað einhverju, en ekki svo, að landasjóð dragi neitt um það. Undirmatsmenn er ætlast til að verzlanirnar kosti sjálfar, og það er ekki tilfinnanlegt. Aðalatriðið er að fá góða menn. Sá maður, sem kaupfélag Þingeyinga hefir haft til þess konar starfa, hefir getað unnið félaginu að nokkru leyti verk, sem það hefði orðið að verja manni til eins fyrir því, þó að engin ullarskoðun hefði verið höfð. Hann hefir getað vegið ull og haldið allar skýrslur. Að vísu er þetta ekki alveg kostnaðarlaust, en ekki er það svo tilfinnanlegt, að það ætti að geta aftrað framkvæmdum á þessu máli eða bakað nokkrum ósanngjarnan kostnað.

Eg hefi talað við einstöku kaupmenn um þetta og Sigurgeir Einarsson hefir talað um það við marga, sem yrði því fegnir, ef þetta kæmist fram. Því fer betur, að það eru margir kaupmenn, sem þykir það skemtilegra, að varan, sem þeir flytja út, sé þeim og landinu frekar til sóma en minkunar, og þegar svo er ástatt, veit eg, að lögin verða ekki óvinsæl svo að það komi þeim að sök.

Eg skal að endingu geta þess, að vér flutningsm. höfum viljað benda á aðalefnið í lögum þeim, sem till. ætlast til að stjórnin leggi fyrir næsta þing. En þetta er aðeins lausleg bending. Það er gert ráð fyrir því, að stjórnin hafi sér til aðstoðar í þessu þann mann, sem fengið hefir þóknun af opinberu fé til þess að sinna málinu, og að hann muni, ásamt stjórninni, gæta þess, sem nauðsynlegt er og ekki er víst að hér sé fram tekið.