07.07.1914
Neðri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

1. mál, íslenski fáninn

Flutn.m. (Skúli Thoroddsen):

Eg skal geta þess, að tilefnið til þessarar þingsályktunartillögu er það, að þegar hv. ráðherra (H. H.) skoraði á forseta sameinaðs þings, að hlutast til um að haldinn yrði privatfundur þingmanna til þess að ræða um gerð íslenzka fánans, þá fanst mér, og oss flutningsmönnum, rétt, að koma þegar í stað með till. sem gæfi það í skyn, að fánamálið væri íslenzkt löggjafarmál, sem þingið sem slíkt ætti að fjalla um. Oss þótti það óeðlilegt, og óviðeigandi, að máli þess yrði ráðið til lykta fyrir lokuðum dyrum. Tillagan fer því í þá átt, að kosin verði 7 manna nefnd til þess að íhuga málið.

Oss þótti þetta og því fremur viðeigandi, þar sem hvorki þingið, né þjóðin, hafði vænst þess, að höfð yrði sú aðferð í fánamálinu, af hendi hv. ráðh. (H. H.) sem raun er á orðin.

Það er kunnugt, að á alþingi 1913 urðu lyktir fánamálsins á þá leið, að frumv. um sérstakan íslenzkan fána var samþykt í neðri deild, en í efri deild látið falla úr sögunni, en samþykt í þess stað rökstudd dagskrá, þar sem skorað var á ráðherrann, að hlutast til um, að frumvarp um íslenzkan fána yrði lagt fyrir næsta alþingi, þ. e. þingið í ár, eða þá að ári.

En í stað þess að verða við þessum tilmælum, sem telja má, að verið hafi þá sameiginleg ósk þinga og þjóðar, kemur konungsúrskurðurinn frá 22. nóv. síðastl., þar sem löggiltur er að vísu sérstakur fáni fyrir Ísland, en þó svo, að eigi má nota hann utan landhelginnar, og öllum jafnframt í sjálfsvald sett, hvort þeir vilja heldur nota hann, eða danska fánann, sem löggiltur er hér á landi samhliða og ennfremur beint ákveðið um, að hann blakta skuli jafnan á stjórnarráðshúsinu, á ekki minni né óveglegri stað en íslenzki fáninn o. s. frv., eins og úrskurðurinn kveður nánar á um.

En þar sem það hefir orðið að samkomulagi í þeim flokki, sem eg heyri til, að geyma umræður um málið, þangað til væntanleg nefnd hefir komið fram með tillögur sínar um það, þá skal eg ekki orðlengja þetta frekar, en aðeina mæla með því, að nefnd verði skipuð, eins og farið er fram á í tillögunni.