12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

117. mál, kostnaður við starf fánanefndar

Benedikt Sveinsson:

Úr því að farið er að minnast hér á fánanefndina, þá vil eg láta í ljós þá skoðun mína, að sú nefnd hefði aldrei átt að vera skipuð.

Eins og menn muna, urðu þær lyktir á fánamálinu á síðasta þingi, að efri deild samþykti rökstudda dagskrá, þar sem skorað var á ráðherra að leggja fyrir næsta reglulegt þing frumvarp til laga um íslenzkan fána.

Ráðherra varð ekki við þessari áskorun, heldur tók málið undan afskiftum löggjafarvaldsins og lagði það í hendur konungs. Eg skal ekki fara út í málið nánara nú, en vil þó benda á, að þótt ekki væri farin sú leið, sem þingið 1913 ætlaðist til, sem sé að ráðherra legði frumvarp um fánann fyrir alþingi, þá var þó engan veginn nauðsynlegt að skipa þessa nefnd.

Í úrskurði sínum um fánann 22. nóv. 1913 segist konungur munu ákveða gerð fánans eftir að ráðherra hefir kynt sér óskir þjóðarinnar í því efni.

Til þess að fá að vita óskir þjóðarinnar um þetta efni, var gagnslaust að skipa þessa nefnd. Beinast lá við að bera gerð fánans undir þingmálafundi eða alþjóðar-atkvæði. Ályktanir þeirra mátti vel skoða sem óskir þjóðarinnar. Eg verð því að álíta, að stjórnin hafi farið í gagnstæða átt við það, sem konungur ætlaðist til, því að nefndin hefir í rauninni girt fyrir það, að óskir gæti komið fram frá þjóðinni um gerð fánans. Álit nefndarinnar kom svo seint fram, að þjóðin gat enga afstöðu tekið til þess fyrir þing.

Eg sé því ekki annað, en að nefndin hafi orðið til að aftra því, að óskir gæti komið fram um málið frá þjóðinni, og því einmitt komið í veg fyrir það, sem konungur hafði óskað eftir. Tel eg því, að nefndarskipunin hafi ekki eingöngu verið ástæðulaus, heldur og gagnslaus og meira að segja skaðleg fyrir málið.