12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

117. mál, kostnaður við starf fánanefndar

Hannes Hafstein:

Mér er kunnugt um það, að fyrrv. stjórn var þeirrar skoðunar, að heppilegasti vegurinn til þess að fá að vita óskir þjóðarinnar um gerð fánans væri sá, að skipa nefnd í málið, er í skyldi eiga sæti menn úr öllum stjórnmálaflokkum.

Þótt engin fjárveiting væri fyrir hendi frá þinginu, þá taldi fyrrv. ráðherra víst, að þingið mundi eigi vera svo sýtingssamt, að horfa í fáein þúsund króna, er um slíkt væri að ræða, sem sátt og samkomulag um gerðina á framtíðarfána landsins, sem þegar má nota sem siglingafána á landhelgissvæðinu.

Ef nú þingið skyldi reynast svo skapi farið, eins og einn háttv. þm. virðist vera, að telja eftir þenna kostnað við nefndina, þá er það víst, að kostur er að fella fjárgreiðsluna á væntanlegum fjáraukalögum og, ef þingið vill, höfða mál fyrir landsdómi gegn þáverandi ráðherra fyrir frammistöðuna. En óhræddur mun hann bíða þess dóms.

Það mun vera rétt hjá háttv. fyrirspyrjanda, að milliþinganefnd hér á landi hafi eigi áður verið skipuð án einhvers tilefnis frá þinginu. En annarsstaðar í nágrannalöndum vorum hefir þetta átt sér stað. Stjórn Dana hefir skipað milliþinganefndir án heimildar þingsins og fengið greiddan kostnaðinn í aukafjárlögum, eins og til er ætlast hér. Svo var t. d. haustið 1907. Þá skipaði þáverandi forsætisráðherra Dana, J. C. Christensen, Sérstaka nefnd — það var líka einmitt fánanefnd, til að semja lagafrumvarp um gerð og notkun Dannebrogsfánans, og hefði það frumvarp ef til vill eitthvað getað varðað einnig oss. Álitsskjal og frumvarp þeirrar nefndar er til prentað, en hefir ekki verið gjört uppskátt. Eg hefi fengið það í trúnaði og sýnt það fánanefnd vorri og fáeinum þingmönnum, einnig í fullum trúnaði; þeir geta borið um, að eg segi rótt frá. Og að fjárveiting hafi ekki verið til fyrir þeirri nefnd, geta menn gengið úr skugga um með því að fletta upp Lovtidende fyrir 1908, þar sem tekinn er upp í aukafjárlög kostnaðurinn við hina dönsku fánanefnd.

Eg álít, að peningunum, sem gengið hafa til þessarrar nefndar, hafi verið vel varið, og að ekki megi skoða þá sem eytt fé. Nefndin hefir int af hendi gott starf og mikið, og vænti eg góðs árangurs af því. Ekki er ástæða til að sjá eftir kostnaðinum við útgáfu álitsskjalsins, þótt hann yrði nokkru meiri en við var búist. Bæði koma nokkrar tekjur aftur af sölu bókarinnar, sem margir hafa miklar mætur á og talsverð eftirspurn er eftir, sem stöðugt veg, og auk þess gjörir bókin mikið gagn með þeim mikla fróðleik, sem þar er saman safnað, sumpart úr beztu ritum ýmsra landa um þessi efni. Fyrir utan það, sem skýrslan hefir að geyma um fánana og leiðréttingar á ýmiskonar misskilningi, sem hér hefir ríkt, hefir skýrslan að geyma margvíslegan nýjan fróðleik um hagi lands vors og þjóðar, og eru allar þær skýrslur skilmerkilegar og vel fallnar til að styrkja traust Íslendinga á landi sínu og framtíð sinni.

Eg er alls ekkert hræddur um, að þingið veiti ekki kostnaðinn við nefndina með ánægju þegar til kemur.