05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

89. mál, friðun héra

Magnús Pjetursson :

Við 1. umr. ætlaði jeg að ganga af hjerunum dauðum, en það fóru svo leikar, að þeir stóðu yfir höfuðsvörðum mínum. Jeg býst við, að nú fari og á sömu leið.

Hjerunum var talið það til gildis, að þeir væru vel ætir, og í öðru lagi, að selja mætti veiðirjett að þeim, þegar þeir ef til vill síðar yrðu friðlausir gjörðir. Jeg skal ekki mótmæla því, að þeir sjeu ljúffengir til matar, og að því leyti nokkurs virði, en veiðirjetturinn get jeg varla hugsað mjer að verði mikils virði, minsta kosti ekki svo, að hægt sje að jafna því saman við laxinn, eins og háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) gjörði við 1. umræðu.

Úr því að jeg er sjálfur með öllu óhjerafróður, verð jeg að fara eftir þeim gögn. um, er lögð hafa verið fram í málinu. Eftir þeim virðist mjer það talsverð áhætta, að þessi dýr ílendist hjer. Í bók, sem vitnað er í í nefndaráliti Nd., eru þeir taldir mjög skaðleg dýr fyrir sveitabændur. Þar er það og (í nefndarálitinu) haft eftir annari bók, að þeir sjeu mjög nærgöngulir í harðindum, „að engar girðingar haldi þeim, nema þjett net, sem óvíðast verði við komið“. Nefndinni í Nd. virðist og ekki áhættulaust að flytja hjera hingað, óttaðist að rót þeirra kynni að valda uppblæstri, og mjer virðist brjef skógræktarstjórans benda á, að þeir sjeu hættulegir — og hann ætti að vera þessu máli manna kunnugastur. Hann segir, að skógræktarmenn álíti, að þeir gjöri skaða með því að bíta plönturnar í nýstofnuðum gróðrarstöðum. — Það er búið að nefna kálgarðana, hver hætta að þeim getur stafað af hjerunum. Skógræktarstjórinn segir, að það megi vernda þá og skógana — með því að setja upp vírnet. Jeg veit ekki,. hvort öllum myndi þykja það góð kaup, að verða að girða alla garða og skóga með vírnetjum og fá hjerana í staðinn.

Þá er sagt, að alt af megi eyða þeim. Ef jeg væri viss um, að það væri rjett, gæti jeg ef til vill greitt frumvarpinu atkvæði, en jeg efast um að það takist, af því að landið er svo víðáttumikið. Skógræktarstjórinn virðist gjöra ráð fyrir, að þar að geti komið, að það verði að eyða þeim, svo skaðlegir geti þeir orðið. Mjer finst því vera mjög varhugavert að hleypa hjerunum á land. Það væri öðru máli að gegna, ef gjörð væri tilraun með þá í eyjum, sem til þess væru fallnar.

Menn láta það vonandi ekki fæla sig frá að greiða atkvæði með frumvarpinu, að sagt kann að verða um þá, að þeir sjeu hræddir við hjera. Það er ekki betra að vera hræddur við það, að vera kallaður hræddur við hjerana.

Háttv. þm. Skagf. (J. B.) mintist á, að það væri ekki mikið úr því gjörandi, þó að hjerar skytust inn í garða stöku sinnum. Kýr og kindur færu oft í garða og skemdu þá, og enginn fengist um það. Jeg verð að játa, að mjer þykir þetta ekki góður samanburður, því það dylst víst engum, að við höfum meira gagn af kúm og kindum en líkur eru til, að við höfum af hjerunum, og fáir mundu sjálfsagt láta sjer detta í hug að koma með slíkan samanburð.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en finst alt benda á, að hjera eigi; ekki að friða hjer á landi.