05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

89. mál, friðun héra

Magnús Pjetursson:

Jeg verð að biðja háttv. þingdeild afsökunar á, að jeg vissi ekki, að deildin ætti sjerstaka hjerafræðinga hjer inni, en mjer finst þeim vera að skjóta upp nú.

Hjer við umræðurnar og allar upplýsingar er óyggjandi vissa komin fyrir því, að hjerar geta gjört skaða.

Það er margupplýst, að í merkum fræðibókum er margt talað um skaðsemi hjera, en jeg hefi ekki heyrt þá, sem halda því fram, að hjerarnir sjeu með öllu skaðlausir, færa neinar heimildir fyrir skoðunum sínum.

Jeg hefi átt tal við mann, sem áreiðanlega ber gott skyn á þetta mál, og hann taldi það mjög varhugavert, að hleypa hjerunum út um landið, þó að hann áliti hitt skaðlaust, að hafa þá á umgirtu svæði eða í eyjum. Jeg hygg að hjerar mundu minstan hluta ársins halda sig í óbygðum hjer á landi. Nei, þeir mundu flykkjast niður í sveitirnar og hafast þar við lengst af. Það hefir verið sagt, að hægt sje að verjast hjerunum með hundum.

Jeg efast ekki um, að það sje rjett, en er nokkurt vit í því, að flytja inn hjera og þurfa svo strax að fara hugsa út. hvernig maður eigi að verjast þeim ?

Hundarnir okkar eru ekki vanir að elta hjera, það þyrfti víst að koma upp nýrri hundakynslóð til þess, eða þá að útvega sjer hjerahunda frá öðrum löndum. — Þá hefir það verið fært frumvarpinu til varnar, að skógræktarstjórinn væri því meðmæltur. En forsendurnar í álitsskjali skógrækarstjórans benda þó í aðra átt, og er ekki gott að segja, hvernig hann hefir komist að þeirri niðurstöðu, að frumvarpið ætti að samþykkjast. Hann segir meðal annars, að hjerar flysji börk af trjám á hörðum vetrum, en flestir vetur eru hjer harðir í samanburði við þau lönd, sem hann þekkir hjera í, og er því hætt við, að allir ókostir hjeranna mundu koma í ljós hjer á landi í fylsta mæli.