12.08.1914
Efri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

120. mál, stjórnarskrá

Ráðherra (S. E.) :

Þegar jeg talaði áðan um ábyrgð mína og þingsins á málinu, þá átti jeg alls eigi við það, hvernig jeg færi með málið eftir að það er komið í mínar hendur, heldur átti jeg eingöngu við það, hvernig málið yrði afgreitt frá þinginu; á því verður það að bera sinn hluta af ábyrgðinni með mjer.

Jeg hefi skýrt afdráttarlaust frá horfum málsins og hefi tekið það skýrt fram, bæði í þessari háttv. deild og háttv. neðri deild, að jeg gæti ekki fullvissað þingið um, hvernig hans hátign konungurinn mundi taka fyrirvaranum.

Mjer er það fulljóst, að eftir að málið er afgreitt frá þinginu, ber jeg einn ábyrgð á flutningi þess.

Jeg skal benda háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) á, að jeg var ekki sendur af neinum flokki á konungsfund, heldur kvaddi hans hátign konungurinn mig á sinn fund. Þetta hlýtur háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) að vera kunnugt, og sömuleiðis það, að ekki var búið að orða neinn fyrirvara, þegar jeg var kvaddur á konungsfund.

Jeg gat því ekki flutt konungi neinn fyrirvara í ákveðnu formi, heldur að eins skýrt honum frá, hvert efni hans mundi verða.

Þetta ætla jeg að sje nægilegt svar til háttv. þm. Ísfjk. (S. St.).