12.08.1914
Efri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

120. mál, stjórnarskrá

Kristinn Daníelsson:

Hæstv. ráðh. hefir þegar svarað því, sem háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) talaði um ábyrgð ráðherra í máli þessu.

En bæði háttv. þm. (S. St.) og háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) mintust líka á ábyrgð meiri hlutans, og gjörðu mikið úr henni.

Það er auðvitað, að þessi ábyrgð hvílir einnig á honum, og um það þarf ekki að fræða hann. En það ætti öllum að skiljast, að það styrkir mjög meiri hlutann — ekki síst í þessu máli — ef minni hlutinn gæti fylgst með honum, þótt hann sje ekki fullánægður með, hvernig fyrirvari meiri hlutans er orðaður. Jeg vona því, að þótt flutningsmenn brtt. á þgskj. 493 fái hana ekki samþykta, — en fái þeir hana samþykta, þá þora þeir að taka upp á sig þá ábyrgð, sem því fylgir, — þá vona jeg, segi jeg, að þeir skerist ekki úr leik með að samþykkja tillögu meiri hlutans; því að með því að greiða henni atkvæði, styðja þeir að sínu leyti að því, að árangurinn af fyrirvaranum verði sem bestur. Jeg tek þetta fram, af því mjer heyrðist háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) ekki vera viss um, hvort hann mundi greiða atkvæði með tillögunni á þgskj. 489, ef breytingartillagan á þingskjali 493 yrði feld. Jeg bið fyrirgefningar, ef mjer hefir misskilist þetta, og vona að svo hafi verið.