29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

4. mál, mæling og skrásetning lóða

Júlíus Havsteen:

Mjer er það ekki ljóst, hvers vegna þetta frv. er komið fram. Jeg veit ekki betur, en að bæjarstjórnin í Reykjavík hafi fyrir nokkrun árum ráðið mann, til að mæla upp bæinn og gjöra uppdrátt af honum. Að vísu veit jeg ekki, hvar sá uppdráttur er niður kominn, en til hlýtur hann að vera. Jeg veit ekki til, að óvissa sje um lóðamörk hjer í bæ, enda er ólíklegt að svo sje, þar sem bæði er til eftir að fara uppdráttur sá, sem jeg nefndi, kort mælingamannanna dönsku yfir bæinn, og auk þess lætur bæjarstjórn mæla út lóð fyrir hvern þann, sem byggja ætlar. Jeg veit að þessi útmæling bæjarstjórnar nær að vísu ekki til þeirra lóða, sem fyrir löngu eru útmældar, nje heldur til húsmannalóða í útjöðrum bæjarins; en þær eru metnar til dýrleika í jarðamatsbókinni og hafa þá sjálfsagt átt sín ákveðnu landamerki, enda hefi jeg þar ekki heldur orðið var við neinn ágreining. En það skil jeg, að þetta frv. getur verið ágætt fyrir málaflutningsmenn, fyrir yfirrjettarmálfærslumennina eða yfirdómslögmennina, eins og nú á þá að nefna. Eins og málið liggur nú fyrir, get jeg ekki verið með því, og það þurfa að koma fram betri upplýsingar í því en hjer eru fyrir hendi, til þess, að jeg geti verið því fylgjandi og gefið því atkvæði.