25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

10. mál, afnám fátækratíundar

Guðmundur Ólafsson :

Jeg ætla aðeins að segja fáein orð út af því, sem háttv. þingm. Ísafjk. (S. St.) sagði, að framtalið mundi verða betra ef tíundin hyrfi. En jeg held að svo muni eigi verða, því að sú skylda er ekki tekin af hreppstjórum, að senda hreppsnefndum tíundarskýrslur, og hreppsnefnd hefir þær að sjálfsögðu til hugsjónar við útsvarsálagningu, svo að freistingin til þess að telja rangt fram mundi alls ekki hverfa, þótt tíundin væri afnumin. Jeg held að það hefði verið rjettast, að bíða með að afnema tíundina þangað til áskoranir hefðu komið til þingsins um að hún yrði afnumin.