04.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Kristinn Daníelsson:

Jeg er raunar sjálfur ókunnugur böðunum, en jeg hef orðið var við, að mörgum bændum er það mikið áhugamál, að þeir sjálfir mættu kaupa baðefni sín. Og jeg get ekki sjeð annað en að það sje rjett, að þeir fái vilja sinn í því efni. Hreppsnefndir geta líka vanrækt skyldu sína, hvort sem þær nú eiga að annast um kaupin eða að eins að hlutast til um þau. Hreppsnefndirnar eru margar og misjafnar og á síðustu tímum hlaðast fleiri og fleiri störf á þær, en einu launin, sem þær fá, er alment vanþakklæti. Það er því engin furða, þótt bændur vilji heldur treysta sjálfum sjer en þeim, því að sjálfs er höndin hollust. Og í slíku máli sem þessu virðist sjálfsagt að vilji almennings ráði.