05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

77. mál, notkun bifreiða

Sveinn Björnsson:

Eg á hér brt. á þskj. 333, og hefir háttv. framsögum. (E. P.) nú minst nokkuð á hana.

Ef menn hafa lesið frv. með athygli hafa menn sjálfsagt tekið eftir, að í 13., 14. og 15. gr. eru reglur um skaðabætur, sem ríða algerlega í bága við allar gildandi reglur um skaðabætur hér á landi. Það varð tilrætt um það í nefndinni, hvort ástæða væri til að víkja frá almennum skaðabótareglum, að því er bifreiðarnar snertir, eða ekki.

Háttv. meðnefndarmenn mínir færðu það fram sem ástæðu, að í nágrannalöndum vorum gilti ekki hin almennu skaðabótaákvæði um slys eða tjón, sem hlytist af bifreiðum. Þegar talað er um nágrannalönd vor, mun vera átt við Danmörk og Noreg. En eg fyrir mitt leyti álít það ekki nóg fyrir oss, þótt einhverntíma hafi verið sett einhver ákvæði í lög í Danmörku eða Noregi. Vér verðum að gera oss fullkomlega grein fyrir, hvort þau ákvæði sé rétt, eða þörf á þeim fyrir oss, áður en vér tökum þau upp.

Þessi skaðabótaákvæði leggja sönnunarskylduna á bifreiðarstjóra, þegar slys ber að höndum. Hann verður að sanna, að hann hafi ekki verið valdur að slysinu, í stað þess, að eftir almennum skaðabótareglum er það sá, sem fyrir tjóni verður, sem á að sanna, hver hafi orsakað það. Þetta er gríðarlegur munur, og það getur í mörgum kringumstæðum þýtt sama sem beint bann við notkun bifreiða. Það getur oft og tíðum orðið erfitt fyrir bifreiðarstjóra, að sanna að hann hafi ekki verið valdur að slysi, þótt hann sé alsaklaus af því, og liggur það í augum uppi, að það er mjög ósanngjarnt, að láta bifreiðareiganda altaf bæta tjónið. Það þarf ekki svo mikið tjón til þess að bifreiðarverðið sé þegar farið.

Þegar brotið er í bága við allar gildandi reglur, þá finst mér, að fram þurfi að koma grundvallaðar ástæður fyrir því. En slíkar ástæður hafa ekki komið fram í þessu máli, hvorki frá stjórninni né frá Ed., né heldur frá meiri hluta nefndarinnar hér í deildinni. Eg kalla það ekki grundvallaðar ástæður, þótt hægt sé að benda á, að svona ákvæði sé í lögum í Noregi og Danmörku.

Eg skal geta þess, að fyrst þegar bifreiðar komu til Danmerkur, þá vóru nokkrir mjög mótfallnir þeim og beinlínis hræddir við þessar vitisvélar, eins og þær vóru kallaðar. Eg dvaldist þá í Kaupmannahöfn, og eg minnist þess, að þegar bifreiðalögin vóru til umræðu í ríkisþinginu 1905, þá bar einn velmetinn þingmaður fram breyt.till. þess efnis, að skylda allar bifreiðar til að hafa á undan sér gangandi mann með klukku í hendinni til að hringja og gera mönnum aðvart. Menn brosa að þessu hér, en maðurinn gerði þetta í fullri alvöru, þótt ekki yrði það ofan á. En svo var bannað með lögum að aka bifreiðum á vissum vegum. Þegar Játvarður Englakonungur kom til Danmerkur, þurfti hann auðvitað að fara um ýmsa vegi. Hann ók alt af í bifreið, en af því að hann var konungur, var ekki svo gott að fást við að banna honum að aka um þá vegi, sem annars var bannað að fara um í bifreiðum. Hann fékk sérstakt leyfi til þess. En þá kom það í ljós, að þetta var ekkert hættulegt. Eg vil sérstaklega skjóta þessu til háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Ef hann vildi setjast upp í bifreið og aka hérna um vegina, þá myndi hann komast á aðra skoðun á bifreiðunum. Eg skal taka hann jafngildan og Játvarð heitinn.

Svona gekk það í Danmörku, og eitthvað líkt kom fram í Noregi. Þar vóru gerðar amtssamþyktir, þannig, að í sumum ömtum mátti aka alla daga, en í sumum ekki nema vissa daga. Þó var hægt að veita undanþágu frá þessu. Eg ók einu sinni í undanþágu og þótti gaman að taka eftir því, að þegar farið var um amt, sem aka mátti um alla daga, þá fældist enginn hestur og ekkert varð að. En þegar við komum inn í hin ömtin, sem ekki mátti aka um nema auma daga, þá urðu allir hræddir. Það kom bæði flatt upp á menn og skepnur, en þó held eg næstum, að mennirnir hafi orðið hræddari en dýrin. Þessu vildi eg líka skjóta til háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Eg held að hann hefði gott af því að athuga það sérstaklega.

Eg álít, að ekki hafi komið fram nægileg rök fyrir því, að ástæða sé til að brjóta í bága við almennar gildandi skaðabótareglur, og eg get ekki felt mig við þessi skaðabótaákvæði 13. gr., nema einhverjar aðrar veigameiri ástæður sé nefndar heldur en þær, að þetta sé í lögum í Noregi og Danmörku, þar sem þessi ákvæði eru bygð á algerðum misskilningi. Eg vil biðja háttv. deildarmenn að lesa nefndarálit efri deildar og skýrslu nefndarinnar um bifreiðarferð hennar austur um sveitir. Eg vil ráða hv. 1. þm. Árn. (S. S.) til, að fara að gamni mínu í bifreið sömu leið, og vænti eg að við það mundi linast hatur hans á bifreiðunum. Eg veit, að hann er maður, sem alt af er reiðubúinn til að leggja mikið á sig fyrir sitt föðurland, þ. e. a. s. Flóann, — en ef hann vill lesa nefndarálitið, þá mun hann sjá, að það var ekki nema einn maður í hans föðurlandi, sem hafði nokkuð við bifreiðarnar að athuga. Það var karl nokkur í Flóanum, sem æpti á eftir nefndarmönnum: »Burt með bifreiðarnar!« Annars gekk ferðin vel og ekkert varð að. Þeir mættu bæði gangandi mönnum og ríðandi, vagnalestum og lausum hestum, nautgripum og sauðfénaði. Enginn hestur fældist og yfir höfuð gekk alt vandræðalaust.

Það er bent á það í nefndarálitinu, að það sé ekki bifreiðarnar, sem valdi mestum farartálma á veginum austur, heldur sé það kerrulestirnar. Það er hneyksli, að þessi kerruumferð skuli vera leyfð, eins og henni er háttað. Af henni stafar slysahætta, og þar er fremur ástæða til að leggja um skaðabótareglurnar heldur en að því er snertir bifreiðarnar.

Út af 2. breyt.till. háttv. l. þm. Árn. (S. S.), skal eg leyfa mér að benda á, að þetta merki, sem hann ætlast til að verði gefið með því að rétta upp hægri hendina, er oft ómögulegt að nota. Bifreiðarnar eru jafnt á ferðinni að nóttu sem degi, og þegar dimt er, getur þetta merki ekki komið að gagni. Eg vænti þess fastlega, að 1. breyt.till. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) verði feld, en hin br.tillagan finst mér vera meinlaus, en óþörf.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið. Eg held fast við mína br.till. þangað til eg verð sannfærður um, að ástæða sé til að víkja frá almennum reglum um skaðabætur.